31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Út af þeim almennu umr., sem hér hafa farið fram í sambandi við áfengismál, langar mig að leggja örfá orð í belg.

Ég held að enginn vafi sé á því, að við séum öll sammála um hversu mikið vandamál hið hörmulega ástand, sem skapast hefur út af ofneyslu áfengis margra einstaklinga, er fyrir þjóðfélag okkar. Þetta er vandamál, sem því miður virðist fara sívaxandi og er að verða erfiðara og erfiðara með nærri því hverju árinu sem líður. En ég held að þar sem við erum öll sammála um að við vildum leggja mikið á okkur, til þess að stemma stigu á einhvern hátt við þessu mikla vandamáli, þá ættum við, t.d. þm. og Alþingi, að líta okkur svolítið nær, því það er mín skoðun, sem ég hef ekki farið leynt með, að verulegan hluta af því vandamáli, sem hér er við að etja, megi rekja til rangrar framkvæmdar lagasetningar um meðferð áfengis í landinu.

Þegar svo er háttað í einu þjóðfélagi, að leyfð er ótakmörkuð sala í sterkustu tegund, sem til er af áfengi á almennum markaði, og menn mega kaupa það í lítratali, en sama þjóðfélag bannar neyslu á léttustu tegund áfengis, þá geta menn ekki búist við góðu, að ég tali ekki um hvernig framkvæmd á sölu og dreifingu áfengis er háttað í þessu landi. Það er ekki hægt að ná í áfengi nema með ærinni fyrirhöfn. Að vísu má kaupa það í stórum skömmtum, maður verður helst að kaupa eina flösku, ekki minna. Ef menn vildu dreifa áfengi á hagkvæmari hátt, t.d. þannig að hægt væri að fá eitt glas af léttu víni eða eitthvað þess háttar, þá er slík framreiðsla áfengis ekki leyfð nema til komi eldhúsútbúnaður og einhver matreiðslutæki upp á nokkra tugi millj. kr.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari staðreynd. Ég held að veruleg lækning á þessum málum fáist ekki fyrr en löggjafinn viðurkennir að það er eitthvað að í sambandi við meðferð þessara mála frá hans hendi. Ég hef sagt það áður, að við verðum að taka á þessum málum þannig, að þetta sé einn þáttur uppeldismálanna. Ef nauðsynlegt þykir að hefja fræðslu um kynferðismál hjá 6–7 ára börnum í skóla, þá hlýtur að vera nauðsynlegt að veita mönnum einhverja tilsögn um það, hvernig eigi að fara með áfengi þannig að menn geti umgengist það á manneskjulegan hátt, því að áfenginu og neyslu þess útrýmum við ekki.