08.03.1979
Neðri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

213. mál, matvælarannsóknir ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þessi þrjú frv., sem hér eru til umr., fela í rauninni í sér einungis þau efnisatriði að þeir, sem njóta þjónustu Matvælarannsókna ríkisins og rannsóknastofnana sem hér um ræðir, skuli greiða fyrir þá þjónustu, og út af fyrir sig vil ég að það komi hér fram að ég tel það heilbrigða stefnu að svo sé.

Vegna ummæla hér um afgreiðstu fjárveitingavaldsins, fjvn., á fjárveitingabeiðnum frá þessum aðilum í haust, þegar undirbúningur stóð vegna afgreiðslu fjárl., þá vil ég upplýsa það, að fyrir n. lágu allverulegar fjárveitingabeiðnir til að standa undir þessum kostnaði, en fjvn. leit svo á að það þyrfti fyllri upplýsingar um rannsóknastarfsemina sem þessi rannsóknarstarfsemi snerti hjá öðrum stofnunum, og þess vegna m. a. var ekki fallist á þessar fjárveitingabeiðnir. Það er einnig svo, að yfirleitt líta menn svo á í fjvn. að nauðsynlegt sé að endurskoða fjárveitingar til rannsóknastarfseminnar allrar hjá okkur, til opinberra eftirlitsstofnana og rannsóknastarfsemi. Það má heita að þessar stofnanir séu nær einvörðungu kostaðar af ríkissjóði. Það er ekki gert meðal nágrannaþjóðanna. Þar eru þessar stofnanir meira látnar standa á eigin fótum, selja meira af þjónustu sinni til þeirra aðila sem æskja eftir henni. Og þessi frv. ganga einmitt í þá átt. Þess vegna get ég tekið undir það, að hér sé um heilbrigða stefnu að ræða.

En út af þessu óskaði fjvn. eftir því við Rannsóknaráð ríkisins í haust, að Rannsóknaráð gerði úttekt á rannsóknastarfsemi, bæði þessari og annarri, og gæfi fjvn. skýrslu um það. M. a. vakti fyrir n. að fá úr því skorið, hvort hér væri um að ræða að sams konar rannsóknir væru stundaðar í mörgum stofnunum og ekki á sem hagkvæmastan hátt.

Ég fagna því, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., að í endurskoðun munu vera lög um hollustuhætti sem einmitt miða að því að reyna að samræma rannsóknastarfsemina. Ég held að full þörf sé á að gera slíka úttekt og fylgja henni eftir með lagabreytingu. En ég vildi sem sagt að það kæmi hér fram, að þessi skoðun hefur verið gerð í fjvn., skýrsla Rannsóknaráðs liggur fyrir. Hún hefur ekki enn fengið afgreiðslu í n., en þessi mál eru í athugun og einmitt í þá veru sem kemur fram í þessum frv.