09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Utanrmn. Alþingis hefur haft til meðferðar till. til þál á þskj. 320 um staðfestingu á niðurstöðu viðræðna um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga. Þessi þáltill. var talsvert rædd, þegar hún var hér til fyrri umr., og ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu af því tilefni.

Ég vil í fyrsta lagi greina frá því, að utanrmn. hefur skilað svofelldu nál.:

„Nefndin hefur athugað þáltill, og leggur til að hún verði samþykkt. Jónas Árnason var fjarstaddur afgreiðslu málsins.“

Allir aðrir nm. undirrita: Einar Ágústsson, Árni Gunnarsson, Gils Guðmundsson, Vilmundur Gylfason, Ragnhildur Helgadóttir og Friðjón Þórðarson.

Efnið er í afar stuttu máli það sem við þekkjum, að samningurinn er gagnkvæmur. Færeyingar hafa heimild til að veiða hér loðnu með 15 skipum allt að 17500 smálestum og enn fremur hafa þeir heimild til að veiða með 15 skipum allt að 17500 smál. af kolmunna á tilteknum svæðum. Í samkomulaginu er enn fremur ákvæði um tilkynningarskyldu og um framkvæmd sem hv. alþm. þekkja.

Ég vil geta þess, að það hefur nokkuð dregist af ástæðum sem hæstv. forseti hefur þegar gert grein fyrir á öðrum fundi, að þessi síðari umr. um till. og atkvgr. gæti farið hér fram. Í morgun leitaði ég upplýsinga hjá fiskimálastjóra um það, hversu mikil veiði hefði þegar átt sér stað og samkv. upplýsingum hans hafa öll færeysku loðnuskipin nema eitt nú fiskað að fullu upp í kvóta sinn. Segja má því að samningurinn hafi að því leyti runnið sitt skeið nú þegar Alþ. greiðir atkv, um hann. Hins vegar gegnir auðvitað öðru máli um kolmunnann. Hvorki við né Færeyingar höfðum byrjað á þeim veiðum. Færeyingar fiska kolmunna fyrst á heimamiðunum og svo elta þeir gönguna norður eftir þegar þar að kemur. Fiskimálastjóri taldi ekki ólíklegt að nokkur af stærri loðnuskipum okkar hæfu kolmunaveiðar við Færeyjar seinni part aprílmánaðar eða jafnvel fyrr, eftir því hvenær ganga hefst. — Ég er ekki fiskifróður, eins og oft hefur komið fram, og þær upplýsingar, sem ég hef, eru fengnar frá öðrum. Aðrir eru hér miklu kunnugri þessum málum, þó að ég hafi dálítið kynnst þessu meðan „ég var á freigátunni“, eins og karlinn sagði. Það er önnur saga.

Nú hefur komið fram og ég vil gera að umtalsefni í örfáum orðum brtt. á þskj. 347 frá hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, þar sem hann leggur til að aftan við tillgr. komi:

„Jafnframt felur Alþ. ríkisstj. að segja upp nú þegar, með eðlilegum fyrirvara, samningum þeim sem heimila útlendingum botnfiskveiðar á Íslandsmiðum.“

Ég hef oft, held ég, og a. m. k. síðast þegar þessi mál voru hér til umr., sagt það sem mína skoðun að auðvitað geti dregið að því að við verðum að segja upp öllum fiskveiðisamningum við útlendinga, og ég tel ekkert óeðlilegt að mönnum detti það í hug eins og ástand fiskstofnanna er. Engu að síður vil ég við þetta tiltekna tækifæri lýsa þeirri skoðun minni, að þetta mál þurfi nánari athugunar við og það sé ekki rétt að tengja uppsögn allra fiskveiðisamninga við þetta mál, sem einungis fjallar um tímabundinn samning um fiskveiðiréttindi Færeyinga á gagnkvæmnigrundvelli. Af þeim ástæðum mun ég ekki treysta mér til að greiða atkv. með brtt. á þessu stigi, heldur óska tækifæris til þess að athuga það mál miklu betur, ekki einungis að því er snertir ástand fiskstofnanna, heldur einnig með tilliti til annarra atriða sem þarf að hafa í huga þegar slík mikilvæg utanríkismálaákvörðun er tekin.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, vegna þess að ég veit að mörg mál eru á dagskrá og þetta mál hefur þegar verið mikið rætt, að hafa þessi orð fleiri, endurtek aðeins að lokum það samdóma álit utanrrn. að þáltill. verði samþykkt.