09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins að vekja athygli á því, sem hv. alþm. auðvitað er kunnugt, að fundur Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sá næsti í röðinni, hefst eftir örfáa daga, þann 19. mars, minnir mig, og þar verða þau mál, sem hér er um fjallað, m. a. til umr.

Ég tel að það sé óhyggilegt fyrir okkur Íslendinga á þessu stigi málsins að segja upp samningum við Norðmenn og Færeyinga t. d. eða þá Belgíumenn, að segja almennt upp öllum fiskveiðisamningum einmitt á þessu viðkvæma stigi. Það eru hafnar viðræður við Norðmenn um margfalt sinnum þýðingarmeiri réttindi á Jan Mayensvæðinu en þau réttindi sem Norðmenn hér hafa — gífurlega þýðingarmikil réttindi um alla framtíð fyrir okkur Íslendinga. Það kynni að verða túlkað sem illvilji af okkar hálfu eða frekja eða yfirgangur, að við nákvæmlega á sama tíma sem þessar umr. eru að hefjast segðum upp þessum litlu samningum sem nú eru í gildi.

Á sama hátt liggur það fyrir, að við munum taka upp samvinnu við Færeyinga til þess að reyna að gæta sameiginlegra réttinda langt suður í höfum, þar sem kann að vera mjög þýðingarmikil réttindi að sækja fyrir þessar þjóðir tvær, og þar að auki held ég að það mundi verka illa fyrir okkur almennt á ráðstefnunni, þegar við berjumst fyrir málstað okkar, að við hefðum mætt þar nokkrum dögum eftir að Alþ. var búið að ákveða að við ætluðum við enga að tala, við ætluðum bara að nota rétt okkar til hins ítrasta og vildum í engu slaka til um eitt eða neitt, vegna þess að það er einu sinni andi á þessari ráðstefnu að sanngirnissjónarmið eigi fyrst að ríkja.

Ég skil mjög vel hug og vilja hv. flm. og þeirra annarra, sem undir mál hans hafa tekið, en ég bendi á að ég tel þetta óhyggilegt. Ég teldi æskilegast ef hv. flm. vildi draga þessa till. til baka og taka hana síðan upp um það leyti sem Hafréttarráðstefnu lyki, ef mál þá horfðu þannig að talið væri æskilegt og heppilegt að gera slíka samþykkt. En ef hann gerir það ekki sé ég ekki annað en við neyðumst til að fella þessa till., því að það er án efa óhyggilegt að samþykkja hana á þessu viðkvæma stigi.