09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3153 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

66. mál, hámarkslaun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Fáein orð um þá þáltill. sem hér er til umr.

Það er augljóst á þingsölunum í dag, að hér ríkir logn. Það er sjálfsagt það logn sem hefur komið á eftir þeim stormi sem hefur geisað í þingsölum undanfarna daga og alþjóð hefur veitt eftirtekt. (StJ: Líka á undan öðrum stormum.) Ég efa ekki, hv. þm. Stefán Jónsson, að það eigi eftir að hvína í stjórnarsambúðinni næstu viku. Það er orðið svo, að maður getur varla sofið á nóttunni fyrir spenningi, vitandi að eitthvað skeður á hverjum degi í þingsölum eða þá á forsíðufregnum dagblaðanna í þessu stjórnarsamstarfi, sem hefur ekki einungis orðið okkur þm. til mikillar skemmtunar, heldur þjóðinni allri á undanförnum dögum, vikum og mánuðum.

Ég fagna því, sem hv. flm. sagði um vísitöluna, að hún væri orðið úrelt tæki til þess að mæla kjör manna og kaup, það væri kominn tími til að fara að breyta til í þeim efnum. Varðandi það, sem hann sagði í sambandi við Kjaradóm, vil ég minna á, án þess að ég sé að leggja dóm á þann dóm, að ágætur flokkur, Alþb., hafði kjörorð fyrir síðustu kosningar. Það kjörorð var, ef ég man rétt, „samningana í gildi“ eða eitthvað í þá veru. Það voru reyndar fleiri slagorð svipuð þessu, og ef þetta eru annað en orðin tóm, bara slagorð sem slengt er fram fyrir kosningar, þá verða menn að taka afleiðingunum af því. Ég get ekki annað séð en að dómur Kjaradóms byggist einmitt á því að koma í gildi samningum þeirra, sem voru sviptir, svo að ég noti nú ákveðið orðalag, launum sínum, þ. e. a. s. fengu ekki hækkanir sínar allar, þær komu ekki til skila. Þeir fengu með þessum dómi fram, að launagreiðendum væri skylt að greiða þeim laun samkv. samningum. Dómurinn gengur í meginatriðum út á þetta. Ég vil minna á þetta einmitt vegna þess að hv. flm. kemur úr þeim flokki sem hafði þetta á stefnuskrá sinni, verður nú að taka afleiðingum verka sinna, en harmar samt sem áður þá niðurstöðu.

Ég er alveg handviss um að það er góður hugur á bak við þá þáltill. sem hér liggur frammi, alveg á sama hátt og það var góður hugur sem bjó að baki ályktunargerð hv. þm. Braga Sigurjónssonar, sem hv. flm. ræddi talsvert um í framsöguræðu sinni. En ég verð að segja að eftir að hafa lesið þessa þáltill. skil ég mætavel hvers vegna hún hefur ekki náð fram að ganga og er nú flutt í fjórða sinn. Ég er hér um bil viss um að hún nær ekki fram að ganga heldur á þessu þingi, þrátt fyrir að hv. flm. — eða flm. allir saman — sitji nú við stjórnvöl þjóðarinnar og séu stuðningsmenn núv. ríkisstj. og þar af leiðandi miklir áhrifamenn í þjóðfélagi okkar.

Það vaknar alltaf aftur og aftur spurningin um það, hvenær löggjafinn á að hafa afskipti af gerðum og athöfnum manna. Það vill stundum gerast, og er kannske ekkert óeðlilegt og hefur kannske ágerst í seinni tíð, að stjórnmálamenn telja að þeir geti sett lög sem allir hljóti að fara eftir. Þeir hafa oftrú á getu sinni. Þeir hafa reyndar líka oftrú á verksviði sínu, og þetta leiðir oft til hinnar skringilegustu niðurstöðu. Það er einhvers konar þráhyggja skipulagsmanna að telja að það sé hægt að koma öllu fyrir í lögum. Þetta satt að segja stríðir algerlega gegn hugmyndum mínum um það, hvert sé verksvið löggjafans. Kannske komum við þar að kjarna stjórnmáladeilnanna. (StJ: Við höfum haft hlutaskipti í meir en 700 ár, hlutaskiptalög.) Við höfum ekki haft hlutaskiptalög um alla vinnu hér á landi. Við verðum að átta okkur á því, að þjóðlífið hefur breyst, hv. þm. Stefán Jónsson, á 700 árum. Það hafa orðið breytingar. Ég vil, án þess að um samtal sé að ræða, aðeins gera grein fyrir því. Hins vegar skal ég viðurkenna það, að hv. flm. hefur afskaplega fallega rödd. Ég skora á hæstv. forseta að leyfa honum að koma aftur í ræðustólinn, þannig að við getum hlustað á fögur hljóð hans. En á meðan ég er í ræðustólnum vildi ég gjarnan fá tækifæri til þess að koma mínu máli til skila.

Það er þannig hér á landi, að við höfum grundvallarreglu, sem bæði verkalýðssamtökin og vinnuveitendur telja að eigi að framfylgja, þótt okkur hafi gengið það harla illa, en það er sú grundvallarregla að hér eigi að vera frjáls samningsréttur, frjálsir samningar. Ég skal gjarnan viðurkenna að þessi regla hefur æðioft verið brotin. En samt sem áður held ég að þessi regla sé skynsamleg. Í stað þess að löggjafinn sé að skipta sér nákvæmlega af því, hvað sé greitt í laun í það og það skiptið, hefur hann önnur ráð til þess að bæta lífskjör og jafna lífskjör manna í landinu. Það er einmitt með þeim hatti sem löggjafinn hefur á undanförnum áratugum beitt sér og það er einmitt í þeim efnum, sem líf þjóðarinnar hefur kannske breyst hvað mest. Þegar rætt er um 700 ár, þá er ég viss um að á síðustu 30–40 árum hafa orðið þær gífurlegu breytingar á þjóðfélagi okkar að það sveltur enginn, við höfum tekjujöfnunarúrræði, við höfum almannatryggingar, við höfum menntakerfi sem er borgað af almannafé, heilbrigðiskerfi sem sér okkur fyrir lágmarksnauðsynjum á því sviði. Allt er þetta gert í ákveðnu tekjujöfnunarskyni, til þess að bæta lífskjör þeirra þjóðfélagsborgara sem minnst mega sín og við viljum vernda með slíku samstarfi.

Hitt er svo annað mál, að það getur verið að efni þessarar þáltill. sé ekki langt frá því að vera það sem gildir í dag, þegar allt er tekið saman. Ég væri fylgjandi því að gerð væri könnun á því, hver raunveruleg ráðstöfunarlaun þjóðfélagsborgaranna eru. Ég bendi á að skattar hér á landi koma ekki jafnt niður. Að sjálfsögðu borga þeir, sem eru mjög tekjuháir, hærri skatta. Ef þeir hafa eignast eitthvað fyrir tekjur sínar eru þeir áfram látnir borga skatta af þeim eignum. Ég held að núv. hæstv. ríkisstj. hafi ekki verið eftirbátur annarra ríkisstjórna í að jafna kjör þjóðfélagsborgaranna með þeim hætti að leggja skatta á þegnana.

Ég get tekið undir eitt af því sem segir í grg. þessarar þáltill., og það eru öftustu orðin um duldar greiðslur og það sem þar á eftir kemur í grg. Ég held að það hljóti að vera sanngirnismál að a. m. k. sé þarna um að ræða framtalsskyldar tekjur. Ég viðurkenni það að vísu, og við höfum fyrir skömmu haft í þingsölum umr. um það efni, að sumt af því, sem þarna er kallað tekjur eða duldar greiðslur, er til að mæta útlögðum kostnaði. Við skulum hafa í huga að þarna eru takmarkatilvik, en ég get tekið undir það með hv. flm. að í þessum efnum megi ýmislegt breytast.

Ég kemst ekki hjá því, þegar rætt er um vinnu manna og laun fyrir vinnuna, að minnast örlítið á atriði sem undanfarið hafa verið talsvert í umr. og eiga sjálfsagt eftir að verða enn meira, en það eru hugmyndir manna um að gera vinnuna léttbærari en hún er í dag með því að taka tillit til einkaaðstæðna hins vinnandi manns hverju sinni. Ég er viss um að alþm. geta t. d. skorað á stjórnvöld, þar sem þeim er málið skylt, að kanna, t. d. í stofnunum og ríkisfyrirtækjum, hvort ekki sé kominn tími til að gera vinnutímann sveigjanlegan, þannig að tekið sé tillit til sérhvers starfsmanns. Auðvitað verður að taka tillit til þjónustuhlutverks þessara stofnana og fyrirtækja, þ. e. a. s. taka tillit til neytendanna annars vegar, til borgaranna sem eiga undir þessar stofnanir að sækja, og svo að kanna hins vegar hvort ekki sé hægt að taka upp sveigjanlegri vinnutíma fyrir starfsfólk og stjórnendur, sem gerði að verkum að fólkið í þessu landi yrði hamingjusamara við störf sín. Ég er sannfærður um að þetta er hægt og get reyndar nefnt um það nokkur dæmi, því að ég er málinu kunnugur, hef fylgst með þessari þróun, ekki aðeins hér á landi, heldur annars staðar, og hef í hyggju og er nú með í undirbúningi að flytja þáltill. um þetta atriði. Ég vildi, af því að hér er verið að nefna kaup og kjör, koma inn á þennan þátt. Hann er að mínu viti mjög merkilegur.

Að öðru leyti skal ég ekki hafa fleiri orð um þessa till. Þó væri ástæða til þess að ræða frekar um umbun fyrir vinnu, ræða um bónuskerfi, hvernig á að greiða mönnum og fleira í þeim dúr. En ég vildi ekki láta hjá líða að koma upp nú þegar og gera grein fyrir skoðunum mínum, herra forseti, sem eru í þá veru að þessi till. leiði einungis til þess að löggjafinn hafi óæskileg áhrif á þá skipan mála sem er að mínu áliti og ég held margra annarra best geymt hjá annars vegar verkalýðssamtökunum og hins vegar vinnuveitendasamtökunum — þeim samtökum sem eiga í þessu þjóðfélagi, samkv. mínum skoðunum, að fara með samningsréttinn. Ég held að það sé komið of mikið af því, að þessi hv. stofnun, sem við störfum í, hafi afskipti af slíkri samningsgerð. Ég hef ekki getað komið auga á að þau afskipti hafi allajafna verið æskileg. Því miður hefur það oftar og kannske oftast leitt til þess að menn hafa í staðinn reynt að fara í kringum lögin, gerst lögbrjótar vegna þess að siðgæði þeirra segir þeim að það skuli gerast. Það er stundum svo, þegar við erum að reyna að lögbinda siðgæði manna og förum gegn þeim siðgæðishugmyndum sem eru ríkjandi, að fólk telur sér skylt að brjóta lögin. Þá brýtur nauðsyn lög.