09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

66. mál, hámarkslaun

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ein af ástæðum þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að mér fannst ekki óeðlilegt að allir viðstaddir hv. alþm. tækju þátt í þessari umr. Það ætti ekki að þurfa að taka svo langan tíma miðað við þann mannfjölda sem staddur er í húsinu. Ég er nánast að leggja mitt af mörkum til að svo geti orðið, en þó ekki eingöngu það.

Menn hafa að undanförnu í ræðum ýmist verið að endurtaka það, sem áður hefur verið sagt, ellegar þá að gefa nýjar útskýringar á því, sem þeir hafa áður sagt, og hvernig það eigi að skiljast við nútímaaðstæður í þjóðfélaginu, og er allt vel um það. Því vil ég leyfa mér að endurtaka nokkuð af því sem ég hef áður sagt um þessi mál.

Ég vil þá byrja á því, — ég skal ekki hafa þetta langt, herra forseti, — að segja, að ég tel að tilgangur þessarar till. sé vafalaust góður, en till. er ekki að mínu skapi. Tilgangurinn náttúrlega, ef hann er góður, er að mínu skapi. Ástæðan fyrir því, að ég hef þessa skoðun, er sú, að í mínum huga er það algert aðalatriði að allir þegnar þjóðfélagsins búi við góð lífskjör og að sú trygging lægstu launanna, sem ég álít að oft hafi verið að stefnt í mörgum ríkisstj., nái enn fremur fram að ganga nú en enn er orðið. Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er, að ég sé engum ofsjónum yfir því að tilteknir hópar í þjóðfélaginu hafi hærri laun en þetta, ef þjóðfélagið hefur efni á að greiða þau. Og miða ég þá þar við störf sem mjög mikil ábyrgð fylgir, sem krefjast dugnaðar og útsjónarsemi umfram það sem aðrir hafa. Menn eru ekki allir eins og menn vinna ekki allir hliðstæð störf, það er staðreynd. Ég get ekki talið óeðlilegt að launakjör séu þá eitthvað misjöfn fyrir þessi störf. Nú er till. auðvitað ekki um að allir hafi sömu laun. Ég tek það fram til þess að fyrirbyggja að menn haldi að ég standi í þeirri villu, — það geri ég ekki. Það er gert ráð fyrir þarna allt 100% launamismun.

Ég vil þá endurtaka að ég er þeirrar skoðunar og hef verið og hef lýst því héðan oftar en einu sinni á þeim tíma sem ég hef verið á Alþ., og einkum eftir að þessi till. eða aðrar svipaðs eðlis hafa komið fram, að ég tel það ekki neitt meginatriði að enginn megi hafa meira en þessu svarar, ef við höfum ráð á því.

Ég sagði hér einhvern tíma í vetur — ég held að það hafi verið við fjárlagaafgreiðsluna-að auðvitað væri ég ekki hrifinn af þeim háu sköttum sem ríkisstj. er að leggja á. Ég hugsa að við séum það ekki ýkjamörg. En ég sagði, held ég, þá líka að ég mundi sætta mig við þá og greiða þeim atkv. vegna þess að með þeim væri verið að færa til í þjóðfélaginu frá þeim, sem meira hafa, til þeirra, sem minna hafa, og nota það fjármagn, sem inn kemur í ríkissjóð í formi skatta, til þess að lækka verðlag á nauðsynjum sem allur almenningur getur ekki án verið, auka þjónustu, sem fólk á kröfu til og verður að njóta, o. fl. í þeim dúr. Við þetta skal ég standa.

Hins vegar vil ég svo bæta því við, að í mínum huga er það aðalatriði í skattamálum hverju menn halda eftir. Það er aðalatriðið að menn, einnig þó þeir greiði háa skatta, haldi eftir góðum lífeyri. Ég get ekkert séð rangt í því, að skattprósenta fari verulega hátt á háar tekjur. Ef ég hefði 10 millj. kr. tekjur á ári sæi ég ekkert á móti því að borga verulega háa skatta. Ef ég hefði 100 millj. kr. tekjur mætti mjög gjarnan taka af mér svo sem eins og 95% í skatta. Ég hefði nægilegan lífeyri eftir. Þess vegna þýðir ekkert, finnst mér, eins og oft er gert hér, að bera saman skattprósentur í hinum og þessum löndum og taka það sem eitthvert dæmi um hvernig lífskjörin séu. Það er ekki dæmi um það. Það er þessi samstilling sem verður að koma til. Það verður að meta og reikna út hvað þú hefur í tekjur og hverju þú þarft að halda eftir til þess að geta lifað því sem oft hefur verið nefnt hér mannsæmandi líf og taka þá mismuninn til þess að aðrir geti líka lifað mannsæmandi lífi. Þetta er mín skoðun á þessum málum.

Ég vil svo gera að umtalsefni aðeins þær duldu greiðslur sem vikið er að í grg: Ég tel þær mjög ranglátar og er þess albúinn að standa að ráðstöfunum, sem koma t. a. m. í veg fyrir að framfærslueyrir heilla fjölskyldna sé færður á fyrirtæki og gerður skattfrádráttarbær þar með, sem þýðir í reynd að aðrir borga framfærsluna. Það erum við, sem teljum fram rétt, sem borgum þessa eyðslu. Það er ranglátt. Ég vil í sambandi við skattana taka mér í munn margþvælda setningu, en þó alltaf jafngilda, sem sé þá, að eitt af frumskilyrðum þess að við getum lifað við jöfnuð í þjóðfélaginu er að skattframtöl séu rétt, að skatteftirlit sé virkt og að skattar séu réttlátlega lagðir á, þannig að þá beri þeir sem sannanlega hafa tekjurnar, en ekki bara þeir sem vegna aðstæðna sinna geta ekki skotið undan.

Ég, herra forseti, skal ekki vera að lengja þessa umr. að neinu marki, þó margt mætti auðvitað um þetta segja og ég hafi einhvern tíma sagt meira um þessi mál en ég ætla að gera núna. En ég vil endurtaka það að lokum, að þrátt fyrir að ég sjái ýmislegt gott við þessa till. er hún ekki mér að skapi af þeim ástæðum sem ég tel mig hafa gert grein fyrir.