09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

66. mál, hámarkslaun

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að þakka hv. þm., sem tekið hafa til máls um þessa þáltill. okkar sexmenninganna, vingjarnlegar undirtektir.

Hv. þm. F'riðrík Sophusson og Einar Ágústsson lýstu yfir því hér úr stólnum, að því er mér fannst í einlægni, að þeir efuðust ekki um að hugarfarið á bak við till. væri gott, þótt mér virtust þeir ekki skilja hana til hlítar. Ég held að þeir hafi bætt skilningsskortinn upp með frómu hugarfari, og frómleiki hugans hefur mér oft og tíðum fundist, eftir að ég varð starfsmaður innan þykkra múra þessa gráa og virðulega húss, meira virði en hæpinn skilningur.

Við komumst ekki hjá því, jafnvel þeir okkar sem virðast hafa numið þau fræði Bismarcks að stjórnmál séu list hins mögulega, í umr. okkar hér á þinginu að velta því fyrir okkur, og hver fyrir öðrum stundum, hvað sé rétt og hvað sé rangt. Og ég efast ekkert um það, ég vil ekki snúa á þann veg út úr orðum hv. þm. Friðriks Sophussonar, að hann sé þeirrar skoðunar að rétt væri að laun á landi hér væru miklu jafnari en þau nú eru. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, svo ég vitni til orða hv. þm. Einars Ágústssonar, sem talaði um það, að verður væri sá maður hárra launa sem tæki á sig mikla ábyrgð og sýndi mikinn dug, — ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki hlutfallslega meiri ábyrgð í nokkru starfi á þurru landi á Íslandi en þá ábyrgð sem fiskiskipstjóri tekst á herðar um borð í skipi sínu gagnvart áhöfn sinni, gagnvart eigendum skipsins og gagnvart þessari blessuðu þjóð sem á allt sitt undir sjávarafla. Ég hef ekki enn þá kynnst því starfi á landi sem vert væri meiri hlutfallslegrar umbunar en starf skipstjóra á fiskiskipi. Og þess ber að gæta að hin hæstu laun á Íslandi geta orðið býsna há, þótt ekki megi þau verða nema tvöföld laun verkamanns, ef laun verkamannsins eru bara nógu há.

Ég tók fagnandi því sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði um hugleiðingar sínar og starf að þingmáli sem upp á það hljóðaði að gera starfið skemmtilegra, viðkunnanlegra og þolanlegra fyrir þá sem starfið ynnu, jafnt undirmenn sem yfirmenn, þar sem hægt yrði að taka tillit til ýmissa atriða. Gjarnan vildi ég sjá málunum komið fyrir á þá lund að gefið yrði frí almennt þá fáu sólskinsdaga sem upp á ber hér á Suðvesturlandi, ef það væri hægt. (Gripið fram í. ) Og ég trúi því, að fær sé leið til þess að koma málunum í það horf að starfið geti m. a. s. orðið skemmtilegt í ákaflega mörgum tilfellum. En nú ber svo til að í ýmsum starfsgreinum er boðið upp á þessa möguleika nú þegar, að þegar sólin skín geta menn hlaupið út og notið hennar. Ég hlakka til að sjá hugmyndir, sem lúta að því skipulagi í fiskiðjuverunum okkar, í frystihúsunum, þegar rofar til, að þær geti nú allar hlaupið út, blessaðar dömurnar, og lagst í sólbað. Kannske má koma því til leiðar með einfaldri kælingu. betri kælingu á fiskinum, að hann þoli slíka bið.

Ég er ekki að gera tilraun til þess að skopast að þeim hugmyndum sem hv. þm. Friðrik Sophusson kann að hafa um möguleika á því að gera starfið almennt skemmtilegra. Nú þegar ég læt augun hvarfla um þessi fallegu og fáguðu eikarbök, sem blasa við í salnum óyfirskyggð af gáfulegum ásýndum alþm., sem við blasa daglega, kemur mér í huga að kannske lumi hv. þm. á einhverjum ráðum t. d. til þess að gera þingstörfin hérna svo skemmtileg að hv. alþm. vildu ekki af neinu missa, heldur kæmu til starfa allir dag hvern. Það væri sannarlega góðra gjalda vert ef slíkt mætti heppnast. En við okkur blasir sú staðreynd, að það er a. m. k. hægt að taka sér frí úr Sþ. þegar sólin skín. Ég vildi gjarnan líka og bíð raunar með eftirvæntingu eftir að heyra og sjá hugmyndir hv. þm. um útfærslu á venju sem ég tel ekki góða í sambandi við styttingu starfsævi. Ég vildi gjarnan sjá það leitt í lög, að fólk megi halda áfram í starfi, ekki bara eftir 65 ára aldur, ekki bara eftir sjötugt heldur á meðan það getur unnið og vill vinna, af því að það hefur gaman af því að vinna, af því að það er miklu betra að fá að vinna en að fá ekki að vinna, af því að þegar til kastanna kemur er starfið ekki leiðinlegt eða þarf a. m. k. ekki að vera.

En aðeins í lokin, sem lýtur beint að þáltill. sem hér hefur verið rædd, staðhæfi ég það, að gegnum aldirnar, kynslóð fram af kynslóð, hafi það verið réttlætiskennd fólksins, sem vann við sjóinn, sem heflaði og slípaði og meitlaði ákvæði Gulaþingslaga og síðar Jónsbókar um það, með hvaða hætti væri hæfilegt að skipta afla til hlutar og hvað teljast yrði eðlileg umbun í fyrsta lagi fyrir skipstjórn, í öðru lagi fyrir skipseign og í þriðja lagi fyrir störf háseta á bát við fiskdrátt við land hér. Og ef við erum þeirrar skoðunar að við getum byggt löggjöf á öðru fremur en réttlætiskennd, þá verðum við að taka upp al(t annars konar viðhorf í umr. og samningum um kjaramál en bæði ég og hv. þm. Friðrik Sophusson höfum, því að þar hygg ég að beri ekki ákaflega mikið á milli.

Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt fyrir okkur að meta upp á nýtt framlag einstaklinga okkar, vinnuframlag þeirra, til verðs. Þá verður það ekki fyrst og fremst krónutalan sem gildir, heldur samanburðurinn á milli vinnustéttanna og milli starfanna þegar rætt er um gildi starfs. Ein af ástæðunum fyrir því, hvernig farið hefur, í hvert óefni komið er oft og tíðum hér, þegar um það er að ræða að manna vinnuplássin við frumframleiðsluna t. d. á vetrarvertíð hér syðra, er sú, hversu þau störf, sem þar eru unnin, hafa verið vanmetin, hvað þau skipa lágan sess þegar störf eru metin til sæmdar. Og eins og aðstaðan er núna hjá okkur getum við ekki sýnt mat okkar á þessum störfum með öðrum hætti en þeim að launa þessi störf hlutfallslega vel.

Við eigum allt okkar, ég vil nú segja: guði sé lof, enn þá undir störfum þess fólks sem vinnur með höndunum, sem beitir enn þá líkamlegu afli sínu við vinnuna. Þetta fólk verðum við að launa miklu betur en nú er gert og við verðum að skipa þessu fólki miklu hærri félagslegan sess en nú er gert, ef þetta þjóðfélag okkar á að standa.