09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

66. mál, hámarkslaun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég lofa því að vera mjög stuttorður að sinni.

Þegar það er einangrað sem eftir verður, þegar búið er að klippa útúrsnúning, hártogun og almenna gamansemi úr ræðu hv. 3. þm. Vestf., Kjartans Ólafssonar, sem hann flutti við þessa umr., standa eftir tvö atriði sem ég vil gjarnan drepa á, þannig að þau megi nú standa upp úr í þessum umr.

Í fyrsta lagi er það ljóst, að slagorð Alþb.: „kjarasamningana í gildi“ þýddi ekki alla kjarasamninga í gildi, heldur bara suma. Í öðru lagi vil ég minnast á það, að hv. þm. talaði um hallærislega kerfiskarla og fékk þar lánað hugtak hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og taldi að Kjaradómur — eða þeir menn sem sitja í Kjaradómi — væri dæmi um hallærislega kerfiskarla. (Gripið fram í: Bara þrír af þeim.) Bara þrír þeirra. Það er rétt, það var meiri hluti og minni hluti. Þrír þeirra í Kjaradómi svo að ég hafi þetta alveg hárnákvæmt, sagði hann að væru hallærislegir kerfiskarlar. Nú fór ég fram undir þessum umr. og las í blaði allra landsmanna forsendur dómsins. Þar kom í ljós að í þeim forsendum stendur að tveir aðilar á Íslandi hafi þegar lyft þessu þaki. Annar er að sjálfsögðu ÍSAL, sem lyfti þessu þaki í samningum við starfsmenn sína. En hver skyldi hinn vera. (Gripið fram í: Ekki segja það.) Jú, svo sannarlega skal ég segja það. Það var borgarstjórn Reykjavíkur sem hækkaði laun starfsmanna sinna, sem voru mjög hátt launaðir samkv. því sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði áðan. Hver skyldi nú vera forseti borgarstjórnar og hver skyldi vera þar aðalmálsvarinn? Það er von að þm. sýni það með látæði sínu að þeir vilji ekki að ég segi frá því, en ég ætla nú samt að gera það. Þessi ágæti maður er enginn annar en flokksbróðir hv. þm. Kjartans Ólafssonar Sigurjón Pétursson. Hlýtur hann þess vegna að vera hallærislegasti kerfiskarlinn af þeim öllum.