31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

21. mál, aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar. Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka greinargóð svör hæstv. félmrh. Ég minni jafnframt á, að það er mikils virði fyrir ríkisstj., reyndar allar ríkisstj., að gera sér grein fyrir því, hve nauðsynlegt er að aðilar vinnumarkaðarins geti treyst ríkisvaldinu til sátta og til góðra verka, þegar erfiðar vinnudeilur eru í landinu. Á þessu hefur því miður oft orðið misbrestur og hefur það ýtt undir tortryggni og átt þátt í stirðum samskiptum aðila. Það er von mín, að á þessu þingi — og það sem fyrst — verði sett ný löggjöf um húsnæðismál á grundvelli þeirra tillagna, er félmrh. hefur nú sagt frá, á þeim grundvelli sem verkalýðssamtökin geta sætt sig við.

Þá á að leggja þunga áherslu á að fjárlög fyrir 1979 tryggi Heilbrigðiseftirliti ríkisins og Öryggiseftirlitinu nægjanlegt fjármagn, svo að þessar stofnanir geti á sem skemmstum tíma sinnt því hlutverki sínu að gera úttekt á aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum, því að ekki verður lengur unað við það ófremdarástand sem ríkir í þeim málum. Í framhaldi af því er það von mín, að á þessu þingi verði sett ný löggjöf um þau mál.

Niðurskurður fjárframlaga samkvæmt fjárlögum, fsp. (þskj. 21). — Ein umr.