09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

79. mál, jöfnun á rafmagnsverði

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Þáltill. þessi er flutt af mér og hv. þm. Kjartani Ólafssyni. Það er langt síðan till. var lögð fram og mikið hefur gengið á síðan. Hér eru mættir tiltölulega fáir þm. og sé ég því ekki ástæðu til að halda langa og ítarlega ræðu um efni till., enda er það í rauninni mjög einfalt og skýrt.

Í till. er lagt til að tekin verði sú afstaða og Alþ. lýsi því yfir, að það vilji að ríkisstj. beiti sér fyrir því að koma fram meira réttlæti í raforkuverði á milli landsmanna en nú á sér stað.

Með þessari þáltill. er grg. þar sem gerð er nokkur grein fyrir því, hvernig ástatt er um raforkuverð á hinum ýmsum stöðum á landinu. Rétt um það leyti sem þessi till. var flutt hafði borist í hendur þm. allítarleg skýrsla frá nefnd sem hafði starfað alllangan tíma og vann að skipulagsmálum í raforkumálum og gerði þessa skýrslu. Samkv. henni kemur í ljós að á þeim stöðum á landinu, þar sem Rafmagnsveitur ríkisins annast raforkusöluna, á þeim tíma þegar skýrslan var gerð, var verð á raforku til heimilisnotkunar 88% hærra en t, d. hér í Reykjavík og verð á raforku til iðnaðarframleiðslu á stærri vélar 82% hærra en hér í Reykjavík. Þessi munur er enn þá meiri þegar um er að ræða rafmagn til húshitunar. Það sjá væntanlega allir að hér er um hið herfilegasta misrétti að ræða. Það er fyllilega eðlilegt að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum, að þetta mikla misræmi verði leiðrétt. Í till, er gert ráð fyrir að leiðréttingunni verði komið fram í nokkrum áföngum.

Af því að hér eru fáir þm. mættir sé ég ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en legg áherslu á að koma till. til n. Ég vil vænta þess, að sú n., sem fær till, til meðferðar, sjái sér fært að afgreiða hana fljótlega. Ég sé enga þörf á því að senda þessa till. út og suður til umsagnar. Hér er um það að ræða hvort Alþ. vill lýsa þessu yfir sem stefnu sinni og leggja fyrir ríkisstj. að að því sé unnið að draga úr því mikla misrétti sem till. fjallar um.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn. til fyrirgreiðslu.