09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

78. mál, smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég get vel tekið undir margt af því sem flm. sagði. Ég held að það sé löngu tímabært að hætta káki við hafnargerð á Stokkseyri og Eyrarbakka og byggja heldur brú yfir Ölfusárósa.

En í sambandi við þetta mál dettur mér í hug að oft hefur á hinu háa Alþingi verið rætt um hættu sem stafað gæti af tilvist Keflavíkurflugvallar — eða kannske öllu heldur þeirri starfsemi sem þar fer fram. Ef hætta skapaðist á svæði þessu eiga nágrannar Vallarins ekki aðra leið í burt en í gegnum Reykjavík, og það er nú ekki greið leið ef þeir þyrftu kannske líka að vera á ferðinni. Mér hefur dottið í hug hvort það væri ekki rökrétt að láta NATO, sem við höfum leyft þá starfsemi á Vellinum sem hættan getur stafað af, um það að kosta hraðbraut beinustu leið og austur yfir Ölfusárósa. Ég veit að Norðmenn, frændur okkar og vinir, stoltir mjög, hafa ekki vílað fyrir sér að láta NATO kosta vegagerð í stórum stíl í landi sínu. Mér fyndist rökrétt að við hefðum það svipað.