09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

87. mál, verklegar framkvæmdir kostaðar af ríkissjóði

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 95 till. til þál., sem hljóðar svo: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að fylgt verði þeirri meginreglu, sem fram kemur í 13. gr. l. nr. 63/1970, að verklegar framkvæmdir kostaðar af ríkissjóði og verklegar framkvæmdir ríkisstofnana með sjálfstæðan fjárhag verði boðnar út á frjálsum verktakamarkaði.“

Þetta mál er að mínu mati mjög aðkallandi og er brýnt hagsmunamál að því verði hrundið fram. Gæti ég haft um þessa till. langt og mikið mál því til rökstuðnings. Eins og nú er háttað um mætingu í þinginu mun ég stytta mjög mál mitt, en harma að fleiri þm. hafa ekki séð sér fært að hlýða á framsögu með till. þessari. Það dregur engan veginn úr mikilvægi málsins, þótt mæting sé ekki betri hér, og verður að leita annarra skýringa á því.

Ég vil aðeins minna á það, að samkv. lögum um opinberar framkvæmdir frá 1970 hljóðar 13. gr. svo: „Verk skal að jafnaði unnið skv. tilboði á grundvelli útboðs. Ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti, að útboð telst ekki munu gefa góða raun, er heimilt, að fenginni umsögn samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, sbr. 22. gr., að víkja frá útboði, sbr. þó 2. mgr. Ef tilboð eru óhæfilega há eða öðru leyti ekki aðgengileg, skal verkinu ráðstafað á grundvelli fasts samningsverðs eða eftir reikningi.

Útboðslýsingar, verklýsingar og verksamningar skulu vera í samræmi við áætlun skv. 9. gr.

Eins og fram kemur í þessari grein er aðalreglan sú, að verk skulu boðin út — verk, sem eru unnin og kostuð af ríkissjóði, eða verk, sem eru unnin á vegum ríkisstofnana, sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Þrátt fyrir þessa meginreglu leyfi ég mér að fullyrða að víða sé pottur brotinn í þessum efnum. Margar stofnanir ríkisins bjóða svo til ekkert af verkum sínum út. Vil ég leyfa mér í því sambandi að vísa sérstaklega til Vita- og hafnamálastofnunar og Vegagerðar ríkisins. Vegagerð ríkisins mun bjóða smávegis út af sínum verkum, talið er að það sé um 3–4% af heildarfjárveitingu til þeirrar stofnunar, en Vita- og hafnamálastofnun hefur nánast ekkert boðið út. Ég held þó að þau verk, sem unnin eru á vegum þessara stofnana, séu þess eðlis að auðvelt sé að koma við útboðum. Mér er kunnugt um það, hef fengið upplýsingar um það, að í þeim tilfellum sem Vita- og hafnamálastofnun hefur boðið út eða gefið öðrum kost á að vinna verkin, sem er nánast sáralítið, hafa þau verk verið unnin margfalt ódýrar en þau sambærileg verk sem unnin eru af stofnuninni sjálfri. Gæti ég í því sambandi nefnt tölur, en þreyti ekki þingheim og herra forseta á slíkri upptalningu nú, nema sérstakt tilefni gefist til.

Um allan hinn vestræna heim er meginreglan sú, að verklegar framkvæmdir á vegum ríkja eru boðnar út. Það er gert vegna þess að það er auðvitað miklu mun hagstæðara að láta vinna verkin þannig frekar en ríkið sjálft framkvæmi þau.

Í grg. með till. þessari er bent á nokkur atriði sem ótvírætt rökstyðja að hagkvæmt sé að bjóða út verk, og renna stoðum undir þær fullyrðingar sem ég hef viðhaft í þessari ræðu.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að þessum atriðum: Alkunna er að hönnun verka, sem boðin eru út, er betur undirbúin en ella. Hönnuður, sem útbýr verk til útboðs, hefur hugfast að aðrir aðilar eiga að fást við framkvæmd og því nauðsynlegt að hafa hönnun sem fullkomnasta.

Þegar hönnuðir framkvæma jafnframt verk, má gera ráð fyrir að til undirbúnings sé ekki eins vandað, þar sem þeir vita að þeir eiga sjálfir möguleika á því að breyta án þess að hátt fari og e. t. v. oft og tíðum enginn aðili utan stofnunar sem fylgist með. — Þetta er öllum ljóst og þarf ekki að fara frekari orðum um.

Þegar ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnanir annast verkin sjálf, hanna þau sjálf, er sífelld hætta á því og sannarlega orðið svo, að verkin eru illa hönnuð og sífellt verið að breyta frá upphaflegri hönnun. Þetta veldur því auðvitað að kostnaðurinn hraðvex og verður miklu meiri en áætlanir segja til um frá því að verkin voru upphaflega ákveðin.

Þegar samið hefur verið við tilboðsgjafa liggur fyrir áætlun og tilboðsverð. Við tilboðsverð bætast aðeins hugsanlegar verðbætur og aukareikningar. Aðrir aðilar en verktakar, t. d. stofnun sú sem lætur framkvæma eða sjálfstæðir eftirlitsmenn, hafa eftirlit með framkvæmdum verktaka og taka út verk í verklok. Þegar ríkið sjálft eða stofnanir þess framkvæma verk er hins vegar mikið álitamál hvort framkvæmd stenst peningalega. Menn velta því t. d. fyrir sér, hvort hækkanir verka á vegum ríkisins séu alltaf vegna verðhækkana eða hvort það sé vegna þess einfaldlega að illa sé að verkinu staðið. Þessu er mjög erfitt að svara þar sem bæði eftirlit og úttekt er í höndum sama aðila.

Nú á seinni árum hefur risið upp nokkur verktakastarfsemi hér á landi. Íslenskir verktakar hafa bæði sýnt og sannað að þeir hafa reynslu og þekkingu til að ráðast í hin stærstu verk. Má í því sambandi benda á vegalagningu í og umhverfis Reykjavík á árunum 1970–1973. Það má benda á virkjunarframkvæmdir sem íslenskir aðilar hafa komið nærri og verið aðalverktakar við. Ég held að það sé til hagsbóta fyrir hina íslensku þjóð, að verktakastarfsemin sé og verði fær um að taka að sér hin stærstu verkefni.

Verktakar geta flutt mannafla og tækjakost á milli verka og unnið á hinum ýmsum sviðum. Það gerir ástæðulaust fyrir ríkisstofnanir að koma sér upp miklum tækjum og ráða mikinn mannafla, en allt kostar það auðvitað mikið bundið fé hjá ríkinu. Hættan er sú, að þessum mannskap verði ekki hægt að segja upp. Tækin eru auðvitað fjárfesting sem ekki verður aftur tekin. Allt hleður þetta utan á sig og gerir kostnað ríkisins og umsvif þess meiri ár frá ári. Við viljum tvímælalaust stefna í öfuga átt, ekki síst við flm. þessarar till.

Ég held að það sé samdóma álit allra þeirra, sem fylgst hafa með verktakaiðnaði á Íslandi og fylgst hafa með verkum og framkvæmdum á vegum hins opinbera, að það megi treysta íslenskum verktökum til hinna vandasömustu framkvæmda og það sé full ástæða til að efla þennan iðnað og að hrinda í framkvæmd þeirri aðalreglu sem lögin um opinberar framkvæmdir fela í sér — þeirri reglu, að verk á vegum hins opinbera séu að jafnaði boðin út.

Ég treysti því, að þessi till. nái fram að ganga og að ríkisstj. og stjórnvöld hlutist til um að þessari reglu verði fylgt til hins ítrasta, nema þá ef um mjög óvenjulegar aðstæður er að ræða. En ef þessi aðferð varðandi tillöguflutninginn ber ekki þennan árangur hlýtur það að vera næsta skrefið hjá mér sem flm. þessarar till. og þeim, sem fylgja efnislega þessari till., að bera fram frv. til l. um breyt. á lögum um Vita- og hafnamálastofnun, lögum um Vegagerð og aðrar ríkisstofnanir, þar sem sé skýrt og skilmerkilega tekið fram að verk skuli boðin út. Þá geta þessar stofnanir ekki skotið sér undan því að fylgja þeirri reglu og þeirri hugsun sem býr á bak við 13. gr. laganna sem ég hef verið að vísa til.

Herra forseti. Ég leyfi mér að lokum að leggja til að þessari till. verði vísað til atvmn.