12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3176 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

197. mál, söluskattur

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir til umr. En þegar maður fer að ræða frv. að efni eins og þetta kemur upp í huga manns spurningin um hvort það sé ekki kominn tími til að taka til endurskoðunar frá grunni samskipti sveitarfélaganna og ríkissjóðs í sambandi við söluskattsmálin í heild. Eins og öllum er kunnugt er sveitarfélögum ætlaður verulegur tekjustofn af söluskattinum í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hins vegar er orðinn svo mikill frumskógur af reglugerðarákvæðum og ákvæðum um greiðslu söluskatts sem þarf að inna af hendi í ýmsum stofnunum sem reknar eru af hinum einstöku sveitarfélögum, að ég tel að það væri báðum aðilum til mikillar hagkvæmni að þessi mál fengju góða íhugun. Ég vil í þessu sambandi benda á að það er greiddur söluskattur af öllum aðgöngumiðum við t. a. m. sundlaugar og önnur íþróttamannvirki sem sveitarfélögin reka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef væri farið að kryfja þessi mál til mergjar, þá mundi áreiðanlega vera möguleiki til að spara mikinn mannafla sem fer í það að finna út úr því myrkviði sem þar er — ég vil leyfa mér að nota það orð — í sambandi við að reikna alla þessa flækju út, fyrst að innheimta öll þessi margvíslegu söluskattsgjöld hjá hinum ýmsu sveitarfélögum og síðan að skila þessum sömu gjöldum — stundum öllum til baka og stundum að hluta til.

Herra forseti. Ég tók til máls í sambandi við þetta frv. aðeins til þess að koma þessari hugmynd á framfæri. Að öðru leyti tel ég að með flutningi þessa frv. sé af hv. flm. hreyft þörfu máli og ég mun veita því minn stuðning.