31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

326. mál, niðurskurður fjárframlaga 1978

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef aldrei heyrt getið um neina metsölubók sem hv. fyrirspyrjandi hefur samið.

Varðandi þessa spurningu, sem hér liggur fyrir, þá er hún í þremur liðum og þess var óskað að einum liðnum yrði svarað skriflega. Þess vegna taldi ég rétt að svara fsp. í heild skriflega. Hún liggur þannig fyrir hv. alþm. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um fsp., þar sem henni er svarað skriflega í öllum greinum.

Varðandi einstakar byggingar sem hv. fyrirspyrjandi ræddi um, t.d. menntaskólana á Ísafirði og í Kópavogi, þá er ekki sundurgreint; hver hlutur hvorrar byggingar um sig er og ég get því miður ekki upplýst það nú, en ég skal gjarnan gera það síðar. Ég get samþykkt að fsp. sé ekki að fullu svarað fyrr en það er gert. Er sjálfsagt að bæta úr því, sem áfátt kann að vera, og gefa nánari sundurliðun í þessum efnum.

Ég vil taka það fram, að mjög var liðið á árið þegar ríkisstj. var mynduð. Þegar ákveðið var að minnka þessa heimild í 600 millj., þá var ekki um auðugan garð að gresja í sambandi við það að skera niður framkvæmdir. Það kemur fram sem svar við 3. lið fsp., að till. voru bundnar við þann hluta fjárveitinga sem ekki hafði verið ráðstafað með samningum eða öðrum greiðsluskuldbindingum. Í raun og veru var ekkert svigrúm til þess að framkvæma þennan niðurskurð með öðrum hætti en hér hefur verið gert.

Ég get vel tekið undir það, sem komið hefur fram, að í raun og veru er afleitt verklag að skera niður fjárveitingar, sem þegar hafa verið ákveðnar, en þegar brýna nauðsyn ber til getur það verið nauðsynlegt og svo var í þessu tilfelli. Þetta var gert með þeim hætti, sem hér er tilgreint, og í raun og veru hreinlega á þeim grundvelli, að ekki var svigrúm til frekari niðurskurðar vegna þess að fjárframlög voru bundin. Ýmist hafði þeim verið ráðstafað eða þau voru bundin með ýmiss konar skuldbindingum.