12.03.1979
Neðri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú orðið æðilangt síðan ég kvaddi mér hljóðs við umr. um þá skýrslu ríkisstj, um fjárfestingar, og lánsfjáráætlun sem hér er til umr. og mikið vatn runnið til sjávar síðan. Ég bað um orðið undir langri ræðu sem hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., flutti við fyrri umr. um þetta mál, og ég hafði hugsað mér, áður en ég kæmi að öðrum atriðum sem ég vildi hér minnast á, að drepa á nokkuð af því sem hann kom hér inn á.

Sannleikurinn er sá, að sú ræða hv. þm., sem ég hér minni á, fjallaði reyndar ekki fyrst og fremst um það efni sem þá var til umr. og nú er til umr., heldur snerist hún nær eingöngu um Alþb. og afstöðu þess til ýmissa mála. Hv. þm. kvartaði mikið yfir því, að það væri erfitt að ná árangri í stjórn efnahagsmála vegna stífni og þvermóðsku af hálfu Alþb. og þessir erfiðleikar væru í rauninni jafnmiklir hvort heldur Alþb. væri innan ríkisstj. eða utan, alltaf stæði það í veginum fyrir því sem þm. talaði um sem skynsamlega stjórn efnahagsmála. Ég vil aðeins segja í tilefni af þessum orðum, að ég tel ástæðu til að fagna því alveg sérstaklega, ef hv. þm. formaður þingflokks Alþfl. hefur fundið til þess að Alþb. stæði nokkuð þétt í andstöðunni við þá stefnu í efnahagsmálum sem forustumenn Alþfl. — og þá ekki síst hv. 4. þm. Vestf. — hafa boðað sem hina einu skynsamlegu efnahagsstefnu okkar Íslendinga. Og ég ætla að vona að hv. þm. muni hafa ástæður til að kvarta yfir þessu áfram.

Það hefur ekki farið neitt á milli mála, að milli þingflokka ríkisstj. hefur hart verið deilt um það, hvaða leiðir ætti að fara til að vinna bug á verðbólgunni í þessu landi og til að ná ýmsum öðrum mikilvægum efnahagslegum markmiðum. Hv. þm. formaður þingflokks Alþfl. lét að því liggja í ræðu sinni, að máske væri skýringin á þessum ágreiningi sú, að Alþfl. væri miklu áhugasamari um að kveða verðbólguna niður heldur en aðrir flokkar í ríkisstj. og þá sérstaklega Alþb. Ég hygg að engin rök séu fyrir þeirri skýringu, enda voru þau ekki færð fram, en hitt er staðreynd, að flokkana hefur greint alvarlega á um það, hvaða leiðir ætti að fara til þess að ráðast gegn verðbólgunni. Það hefur komið fram við umr. hér á Alþ. hvað eftir annað á þessum vetri, að Alþfl. hefur viljað ganga — ég leyfi mér að segja: allra flokka lengst í þá átt að skera niður kaupmátt launa hjá almennu launafólki, eins og endurtekinn tillöguflutningur og yfirlýsingar af hans hálfu eru til marks um, og þá ekki síður í þá átt að draga úr framkvæmdum í þjóðfélaginu og beita þar ákveðnum reglustrikuaðferðum sem þm. hans hafa viljað halda fram að gætu dugað sem allsherjarlækningameðal. Till. þeirra um leiðir í baráttunni við verðbólguna hafa allar mótast eingöngu af þessu tvennu: að verðbólguna hefur átt að kveða niður með niðurskurði kaupmáttar launa og með stórkostlegum samdrætti í framkvæmdum í landinu.

Við Alþb.-menn höfum hins vegar haldið því fram, að það væri hægt að ná allverulegum árangri í því að draga úr verðbólgunni án þess að það þyrfti að kosta verulega skerðingu almennra launa og án þess að það þyrfti að kosta verulegan samdrátt atvinnuframkvæmda í landinu. Við höfum meira að segja leyft okkur að halda því fram, að jafnvel þótt leið Alþfl. um stórkostlega kjaraskerðingu og stórkostlegan samdrátt væri farin, þá væri ekki einu sinni víst að það leiddi til sigurs yfir verðbólgunni.

Við höfum fyrir okkur blákaldar staðreyndir um þann árangur sem nú þegar er búið að ná í viðleitninni til að draga úr verðbólgunni. Það liggur við að það sé óþarft að rifja upp hvernig þau mál standa. Þar er þannig málum háttað nú, að í stað þess að framfærsluvísitala hafði hækkað um 52–53% síðustu 12 mánuði sem fyrri ríkisstj. sat að völdum síðasta árið, þá hefur samsvarandi hækkun framfærsluvísitölunnar og vöxtur verðbólgunnar á því hálfa ári, sem liðið er frá stjórnarskiptum, verið innan við helming af þeim verð bólguhraða sem var á síðasta heila ári fráfarandi ríkisstj.

Sé tekið mið af þessum 6 mánuðum núv. ríkisstj. hafði framfærsluvísitalan aðeins hækkað um rúmlega 11% á 6 mánuðum eða um 23% á ársgrundvelli. Og sé tekið mið af síðustu 3 mánuðum sem fyrir liggja útreiknaðir og spurt hver hreyfingin sé á vísitölunni miðað við ársgrundvöll og byggt á hreyfingunni þessa síðustu 3 mánuði, þá er verðbólguhraðinn kominn niður í rétt liðlega 20% á ársgrundvelli. Þarna er auðvitað um mjög mikinn árangur að ræða, og hann hefur náðst fyrst og fremst vegna þess að farnar voru þær leiðir sem Alþb. gerði frá upphafi kröfur um, t. d. um afnám söluskatts á matvælum, stórauknar niðurgreiðslur á matvælum, mikla hörku af hálfu verðlagsyfirvalda í flestum tilvikum og viðskrn. varðandi beiðnir um hækkanir, þar sem þar hefur verið staðið fast á móti flestum hækkanabeiðnum nema þeim sem óhjákvæmilegar hafa mátt kallast. Það er vegna þessara aðgerða og þessarar stefnu sem árangurinn í baráttunni við verðbólguna er þó orðinn sá sem hann er og ekki lítill nú þegar frá stjórnarskiptum. Og þetta hefur tekist án þess að farið væri í þá miklu árás á kaupmátt almennra launa, sem Alþfl. hefur krafist, og án þess að farið væri út í þann stórkostlega niðurskurð á framkvæmdum, sem Alþfl. hefur krafist. Hitt vil ég taka fram, að bæði í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og í sambandi við þá skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir og við erum nú að ræða, kemur auðvitað fram að þarna hefur orðið að semja, þarna hafa báðir aðilar orðið að slaka nokkuð til. Verði lánsfjáráætlun ríkisstj. endanlega samþ. í svipuðu formi og hún liggur nú fyrir og eftir henni farið og sömuleiðis þær ákvarðanir teknar gildar sem í fjárl. standa, þá verður auðvitað allverulegur samdráttur í þjóðfélaginu í framkvæmdum og að mínu viti — það vil ég undirstrika — meiri en góðu hófi gegnir og þegar um þjóðhagslega brýnar framkvæmdir er að ræða, eins og margar sem hér er verið að fjalla um, þá vil ég segja: allt of mikill. En staðreyndin er sú, að bæði í umr. fyrir afgreiðslu fjárl. og í umr. til undirbúnings lánsfjáráætlun hefur Alþfl. krafist þess, að þessi niðurskurður yrði þó miklu meiri, og þarna hefur verið mæst, ekki kannske nákvæmlega á miðri leið, en einhvers staðar á milli sjónarmiða þessara tveggja flokka.

Gert er ráð fyrir því í þessari lánsfjáráætlun, að vöxtur verðbólgunnar á árinu 1979 verði með þeim hætti að framfærsluvísitalan hækki frá ársmeðaltali 1978 til meðaltals 1979 um 33% og að framfærsluvísitalan hækki á árinu 1979, frá upphafi þess til loka þess, um 30%, en byggingarvísitalan, ársmeðaltal 1978 til ársmeðaltals 1979, um 34%. Ég vil í þessu sambandi undirstrika tvennt. Ég vil undirstrika það, að takist að halda verðlagsþróuninni innan þeirra marka sem þarna eru sett, þá er þar um mjög verulegan árangur að ræða í þessum efnum frá því ástandi sem var þegar núv. ríkisstj. tók við. Á þær tölur minnti ég áðan. Og ég vil líka undirstrika það, að ef tekið er mið af fyrstu 6 mánuðum frá stjórnarskiptum, þá eru horfur á að þessu marki verði náð hvað verðbólguna snertir í rauninni mjög miklar. Til að ná þessu marki, 30% hækkun framfærsluvísitölu, frá upphafi ársins 1979 til loka þess mætti verðlagið hækka býsna miklu meira á þeim tíma, sem eftir er af þessu ári, en það hefur gert undanfarna 6 mánuði — býsna miklu meira. Það sýna þær tölur sem ég drap á áðan og alls staðar liggja fyrir.

Ég held að það væri full ástæða til verulegrar bjartsýni í þessum efnum ef ekki hefði komið til sú alvarlega hækkun á olíu sem við öll þekkjum. En jafnvel þrátt fyrir þau alvarlegu tíðindi vil ég leyfa mér að ætla að góðar líkur séu á að þetta mark náist. En ég vil leyfa mér líka að segja það, að ef við getum gert okkur vonir um að ná verðbólgunni á þessu ári niður í kringum 30–33%, þá eru ýmis mikilvæg markmið sem ég tel ástæðu til að komi ofar í röð heldur en krafa um að ætla að ná verðbólgunni enn lengra niður á þessu ári, 1979. Þar vil ég telja á undan alveg hiklaust t. d. varðveislu kaupmáttar almennra launa, einnig að þjóðhagslega nýtum framkvæmdum verði haldið uppi helst ekki í minna mæli en á síðasta ári. Ég hefði talið það lágmarkskröfu. Það hefur að vísu verið á það fallist að nokkur samdráttur eigi sér stað. Og ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. komist að þeirri niðurstöðu áður en lýkur, að til þeirra viðhorfa, sem ég hef þarna lýst í þessum efnum, verði tekið tillit.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hélt því fram í þeirri ræðu sem ég vitnaði til áður, að Alþb. hafi í rauninni skrifað upp á það, að ekki sé hægt að ná verðbólgunni niður nema með því að lækka kaupið hjá verkafólkinu, og hann vitnaði í þeim efnum í ákveðna setningu hér í skýrslunni. Ég vil nú leyfa mér að andmæla því harðlega, að af okkar hálfu í Alþb. hafi nokkru sinni verið á það fallist að ekki sé hægt að ráða bug á verðbólgunni í landinu nema með því að lækka hin almennu laun hjá vinnandi fólki. Við vitum að flokkana hefur greint á í þessum efnum. Það var kenning þeirrar ríkisstj., sem hér fór með völd á síðasta kjörtímabili, bæði í orðum og á borði, að ekki væri hægt við verðbólguna að ráða nema með því að lækka verulega kaupið, og það var reyndar gert kauplækkunin framkvæmd, en árangurinn gagnvart verðbólgunni varð hins vegar minni en enginn.

Það er að vísu alveg rétt hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að á bls. 6 í skýrslu ríkisstj. segir svo um þá tilraun til að koma verðbólgunni niður í það að neysluvöruverð hækki ekki nema um 33% að meðaltali frá 1978 til 1979, að „sá árangur næst þó ekki nema fylgt verði þeirri stefnu í kauplags- og verðlagsmálum að hækkun peningalauna verði minni en fylgir óbreyttu kerfi vísitölubindingar launa“. Þessi setning stendur þarna, það er út af fyrir sig alveg rétt. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að þarna sé um að ræða fullyrðingu sem sá sem hana hefur sett á blað trúir ugglaust, en að henni eru engin rök færð og væri auðvelt að færa fram margvísleg rök gegn því að þessi fullyrðing sé rétt. Þarna er settur fram spádómur eða kenning sem ég tel að ekkert erindi eigi inn í þá skýrslu sem þarna er sett fram, slíkur sleggjudómur sem þarna er um að ræða hreinn sleggjudómur. Hitt vitum við vel, að einstök rn. senda frá sér margvísleg plögg, smá og stór. Hér er um að ræða skýrslu upp á 61 síðu. Þetta er ekki lagagrein, það skal líka minnt á. Þetta er setning í skýrslu. Og það er auðvitað hrein fjarstæða að halda því fram, að enda þótt ein slík setning komi í skýrslu frá fjmrn. — skýrslu upp á 61 bls. — þá hafi einstakir ráðh. Alþb. tekið ábyrgð á þessari setningu sérstaklega. Það hafa þeir örugglega ekki gert. Ég treysti mér til að staðhæfa fyrir hönd þeirra allra, að enginn þeirra er á þeirri skoðun, sem þarna kemur fram. Hér er sem sagt um hreinan útúrsnúning að ræða af hálfu hv. þm. Og þar sem þetta er ekki einu sinni lagagrein sem þarna er verið að leggja til, heldur setning í skýrslu, þá væri auðvitað alveg fráleitt að ætla að fara að halda uppi löngu málþófi innan ríkisstj. um það, hvað fjmrn. setur þarna inn, því varla gæti sá ágreiningur varðað stjórnarslitum.

Ég vil koma hér inn á nokkur atriði í viðbót. Það hefur verið uppi deila um það, hvort ætti eða hvar ætti að setja markið í sambandi við opinberar framkvæmdir á þessu ári, og um það, hvað ríkissjóður ætti að taka í sinn hlut mikinn part af okkar þjóðarframleiðslu í heild. Um þetta hefur verið mjög deilt. Alþfl. hefur haldið því fram, að fjárfestingin í landinu mætti undir engum kringumstæðum, hvorki á árinu 1979 né á árinu 1980, fara fram úr 24.5% af okkar þjóðarframleiðslu. Það fór svo, að að lokum var af hálfu Alþb. fallist á þessa kröfu fyrir árið 1979, en hins vegar hefur því af okkar hálfu verið neitað varðandi árið 1980. En ég vil í tilefni af því, sem sagt var af hálfu formanns þingflokks Alþfl. um þessi efni, leyfa mér að minna á það, að sú lánsfjáráætlun og fjárfestingaáætlun, sem við erum hér að ræða, gerir ráð fyrir að samdráttur í opinberum framkvæmdum á árinu 1979 verði 5%. Þetta á að bætast við 14.3% samdrátt í opinberum framkvæmdum á árinu 1978 og 16% samdrátt í framkvæmdum á árinu 1977. Þetta þýðir það, að verði eftir þessu farið verður samdrátturinn í opinberum framkvæmdum orðinn það mikill að framkvæmdir á árinu 1979 munu ekki ná 70% af því sem um var að ræða fyrir þremur árum, á árinu 1976. Og ég hika ekki við að halda því fram, að hvort sem lítið er til þeirrar samfélagslegu nauðsynjar, sem kallar á að margvíslegum opinberum framkvæmdum verði hraðað, eða til hins, hvaða alvarleg áhrif þessi samdráttur getur haft á atvinnuhorfur og á tekjuöflunarmöguleika lágtekjufólks í landinu, hvort heldur sem horft er á, er þessi samdráttur orðinn allt of mikill.

Auðvitað skiptir alveg gífurlega miklu máli hvernig fjármagninu er ráðstafað. Það segir sig sjálft. Og mörg eru dæmin um að illa hafi verið farið með opinbert fé. En ég læt mér ekki detta í hug að enda þótt hægt sé að benda á slík dæmi, jafnvel óumdeild, þá sé hægt að draga af því þá ályktun, að þess vegna verði að keyra þessar nauðsynlegu framkvæmdir niður. Ég held að það sé alveg eins hjá ríkissjóði og hjá hvaða fyrirtæki sem er eða einstöku heimili, að þegar erfiðleikar steðja að, þá hljóti að vera hyggilegra en allt annað að festa fé í framkvæmdum sem annaðhvort eru til þess fallnar að spara útgjöld, þegar til lengri tíma er litið, eða gefa af sér aukinn arð. Og það eru ótal slíkar framkvæmdir sem kalla að — og kalla mjög mikið að.

Ég vil nefna tvö dæmi sem mér koma í hug, og af því að ég minntist nokkuð á ræðu hv. 4. þm. Vestf., þá er best að ég nefni hér fyrst dæmi úr því kjördæmi sem við erum reyndar báðir fulltrúar fyrir. Í þessari fjárfestingaráætlun, sem hér er verið að ræða, er gert ráð fyrir að á árinu 1979 verði varið um 1550 millj. kr. til byggingar Vesturlínu, sem svo hefur verið kölluð, þeirrar stofnlínu sem á að tengja Vestfirði við aðalorkuveitusvæði landsins og tryggja þeim það rafmagn, þá orku sem þar skortir svo mjög, og tekið er fram að þessu stóra verkefni skuli lokið á árinu 1980. Ég vil minna á það, að þarna er t. d. um svo ótvírætt þjóðhagslega hagstæða framkvæmd að ræða, að gert er ráð fyrir að sparnaðurinn við að koma þessari línu á nemi fast að 1 milljarði kr. á einu einasta ári. Og það er auðvitað nokkuð augljóst að slíkar framkvæmdir sem kalla að eru miklu víðar og þær eru á miklu fleiri sviðum. Það er með öllu fráleitt að ætla að koma með eina reglustriku og segja: Hvernig sem allt veltist skal fjárfestingin í þjóðfélaginu undir engum kringumstæðum fara fram úr 24.5% af þjóðarframleiðslunni.

Ég vil minna á það, að nú þegar hækkun olíuverðsins hefur orðið jafngífurleg og við öll þekkjum, meira en tvöföldun á verði, og óvíst nema sú hækkun verði varanleg, er auðvitað alveg einsýnt mál, að jafnvel þó einhvers staðar standi í skýrslum eða samþykktum að fjárfestingin megi ekki vera nema sem svarar ákveðinni prósentutölu, þá ber ríkisstj., verði þessi olíuhækkun varanleg, skylda til að hafa forgöngu um að frá slíkri reglu verði hiklaust vikið og veitt verði fjármagn í þær framkvæmdir sem brýnastar eru og jafnframt tryggastar framkvæmdir á þessu sviði og að því miða að koma í veg fyrir þá olíunotkun sem enn er því miður óhjákvæmileg í svo miklum mæli sem raun ber vitni í þessu landi.

Ég vil aðeins minna á annað dæmi af öðru sviði, en sviðin eru tvö sem eðlilegt er að horft sé á á undan öllum öðrum þegar við veltum fyrir okkur hvernig eigi að ráðstafa fjárfestingunni, burt séð frá því hvað hún sé mikil. Það hljóta annars vegar að vera orkumálin til þess að spara okkur olíuna og hins vegar vinnsla okkar sjávarafla til að vinna upp þær hömlur sem óhjákvæmilegt getur orðið að setja á veiðar okkar mikilvægasta fiskstofns. Og ég verð að segja það, að ég tel í rauninni alveg fráleitt að ætla að stöðva ýmsar framkvæmdir í sambandi við uppbyggingu fiskiðnaðarins í landinu út frá þeirri reglu að það sé bann við fjárfestingu nema upp að einhverju takmörkuðu og mjög lágu marki. Okkar ágætu sjómenn eru t. d. undanfarnar vikur búnir að moka hér upp einhverjum reiðinnar ósköpum af loðnu og munu meira að segja nú þegar vera að ná því marki sem ætlunin var af hálfu sjútvrn. að láta gilda sem hámark, 450 þús. tonn. Það er komið yfir það, heyrðum við í fréttum nú. En hvernig förum við með þessa loðnu? Ég minni á það, að samkv. skýrslu, sem unnin var fyrir tveimur árum af Framkvæmdastofnun ríkisins, er nýtingin í þessari mikilvægu grein með þeim hætti, að á þáverandi verðlagi náðum við út úr sama magni af loðnu og Norðmenn, og þá miðað við okkar aflamagn, rösklega 1.5 milljörðum minna en verið hefði ef nýtingin hér hefði verið sú sama og í Noregi. Þetta þýðir, framreiknað til núgildandi verðlags, ekki minna en það, að mismunurinn á því, sem við náum út úr loðnunni út á okkar nýtingu, og því, sem við gætum náð ef við nýttum loðnuna á borð við Norðmenn, — hann er ekki minni en 3 milljarðar kr. Og þá er ég aðeins að tala um það magn af loðnu sem hér var veitt 1977, en yrði auðvitað enn þá meira ef aflaaukningin, sem orðið hefur síðan, væri tekin inn í. Og þannig væri hægt að halda áfram að telja upp.

Ég segi það enn og aftur, að sú stefna að keyra niður fjárfestinguna, bæði í opinberum framkvæmdum og í atvinnulífinu, er röng, hvaða ríkisstj. sem fyrir henni stendur og hvaða flokkur sem hana boðar. (Gripið fram í.) Það er gott.

Ég vil aðeins minna á það til viðbótar, að þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., talar um það, að ef fjárfestingin yrði ekki miðuð við þessi heilögu 24.5%, heldur aðeins við 25%, þá væri hér stórkostlegur voði á höndum. Hann orðaði það meira að segja svo, að það væri í fyrsta lagi útilokað að auka fjárfestinguna nema með því að hækka erlend lán og ef við hækkuðum erlend lán sem næmi þessu hálfa prósenti, þá værum við á þessu ári að taka meiri erlend lán en nokkru sinni fyrr. Hér er um svo grófar falsanir að ræða að ég get ekki látið þeim ómótmælt fyrst ég er farinn að minnast á þessa endemisræðu úr þessum ræðustól.

Í fyrsta lagi er það auðvitað ljóst, að það hálfa prósent af okkar þjóðarframleiðslu, einhvers staðar milli 3 og 4 milljarða, er upphæð sem að sjálfsögðu væri hægt að færa til í okkar þjóðarbúi frá eyðslu til brýnna þjóðhagslega nauðsynlegra framkvæmda án þess að erlendar lántökur þyrftu að koma þar til. Það er í fyrsta lagi ljóst. (Gripið fram í.) Í öðru lagi vil ég til upplýsingar benda á hvernig þróun hinna erlendu lána hefur verið háttað á allra síðustu árum og hvernig gert er ráð fyrir að þeim verði háttað í þessari lánsfjár- og fjárfestingaráætlun sem við erum hér að ræða. Ég vek athygli á þessum tölum og tek fram að þær er að finna hér á bls. 20 í þessari margumtöluðu skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þær eru á þessa leið: 1976 er nettóaukning langra erlendra lána 10.4% af útflutningstekjum en 4.2% af þjóðarframleiðslu. 1977 er nettóaukning langra erlendra lána 13.4% af útflutningstekjum, en 5.3% af þjóðarframleiðslu. 1978 er nettóaukning langra erlendra lána 4.8% af útflutningstekjum, en 2.2% af þjóðarframleiðslu. Og 1979 er áætlað skv. þessari lánsfjár- og fjárfestingaráætlun, sem við ræðum hér, að nettóaukning langra erlendra lána verði 4% af útflutningstekjum, en 1.8% af þjóðarframleiðslu.

Ég vek á þessu athygli bæði vegna þess að það er fróðlegt að sjá hvað hér er gífurlega mikill munur á hvað lántökurnar eru áætlaðar minni 1979 en þær voru á árunum 1976 og 1977, þar sem munurinn er mest áberandi, en einnig vek ég athygli á þessu til að sýna fram á hversu fráleit sú fullyrðing er, að jafnvel þótt við tækjum erlend lán til að halda uppi þeim framkvæmdum sem um væri að ræða á þessu ári eða á næsta ári, — þeim framkvæmdum sem svaraði mismuninum á 24.5% af þjóðarframleiðslu og 25%, þá fer því víðs fjarri, þó að sú upphæð, sem er 3–4 milljarðar, væri öll tekin að láni erlendis, að lántökurnar yrðu meiri en nokkru sinni fyrr. Nettóaukning á löngum erlendum lánum á árinu 1979 er ráðgerð 13.4 milljarðar og þó að þar væri bætt 3–4 milljörðum við yrði ekki um að ræða nema 6–7% af okkar útflutningstekjum á þessu ári á móti 10.4% 1976, og 13.4% 1977. Þetta er út af fyrir sig fróðlegt til skoðunar.

Það eru atriði hér í viðbót sem ég vil ekki láta hjá líða að minnast á. Ég hef drepið á allra nauðsynlegustu þætti okkar í sambandi við þörf á aukinni fjárfestingu, þ. e. a. s. orkumálin og fiskvinnsluna. Ég hika ekki við að segja að ef á þyrfti að halda, þá væri jafnvel réttlætanlegt að taka erlend lán til að bæta þar um betur — alveg hiklaust. En það þarf ekki einu sinni á því að halda, vegna þess að við höfum nóg fjármagn hér innanlands sem sóað er í óþarfa.

Þá vil ég koma aðeins inn á annan þátt. Mér þykir satt að segja engan veginn ánægjulegt að sjá á bls. 61, öftustu lesmálsblaðsíðu í þeirri skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem hér er til umr., að gert sé ráð fyrir á þessu ári, 1979, að verja 7.7 milljörðum kr. í byggingar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þarna er um að ræða tölu sem ég leyfi mér að halda fram að sé allt of há. Deilan er nefnilega ekki bara um það, hvað fjárfestingin eigi að vera mikil sem hluti af þjóðarframleiðslu, heldur líka um það, hvernig þeim upphæðum sé varið, þeim rösklega 182 milljörðum sem gert ráð fyrir að verja til fjárfestingar. Ég tel að ef á annað borð á að viðurkenna að hér sé brýn þörf á fjárfestingarhömlum, það sé nauðsynlegt að hamla gegn fjárfestingu í orkumálum, í atvinnumálum, þ. á m. fiskvinnslunni, þá væri nær að ganga mun lengra en hér er gert í niðurskurði á þessum lið: verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Að vísu er skylt að taka það fram, að það er reiknað með að niðurskurðurinn á þessum lið verði 8.5% að magni á móti því að hann er 5% í heild, þ. e. a. s. 50% á opinberum framkvæmdum og tæplega 7% á fjárfestingu í landinu í heild. Niðurskurður á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er 8.5%. En þetta er allt of lítill mismunur. Ég hefði talið óhætt að skera verslunar- og skrifstofuhúsnæði niður um helming, og það hefði átt að gera áður en fjárveitingar til fiskvinnslunar og orkuframkvæmdanna væru takmarkaðar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Það væri lengi hægt að halda áfram að telja upp sitt af hverju úr því plaggi sem við erum hér að ræða. Ég mun nú spara mér það samt. Ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um þessa till. Ég held að það hljóti að geta orðið ærið mörgum til umhugsunar um það, hvernig fjármagni er ráðstafað hér, ekki bara hér innan hins háa Alþingis, heldur hjá þjóðinni allri, að virða fyrir sér þessar tölur, að við skulum enn ætla að fjárfesta í verslunar- og skrifstofuhúsnæði upp á 7.7 milljarða, á sama tíma og gert er ráð fyrir að fjárfestingin í fiskvinnslunni sé 9.7 milljarðar. Þarna er um ekkert ólíkar upphæðir að ræða, og er þetta þó að sjálfsögðu framför í þessum efnum frá því sem verið hefur, það skal tekið fram.

Það er ekki margt fleira sem ég bæti hér við á þessu stigi málsins. Það er stundum höfð uppi sú ásökun, og kom reyndar fram í þessum umr., að við Alþb.-menn viljum gera lítið að því að nota okkur þá sérfræðiþekkingu í efnahagsmálum sem ýmsir langskólagengnir menn á því sviði hafa aflað sér. Ég held að þessi ásökun sé ekki fyllilega réttmæt, en vera kann að samt sé ekki alveg að ástæðulausu að hún er borin fram, sérstaklega sé við það miðað hvernig ýmsir þeir, sem við stjórnmál fást, og ekki hefur það síst verið áberandi um hluta af forustuliði Alþfl. að undanförnu, virðast láta sér duga að taka við því hráu, sem þessi eða hinn svokallaði sérfræðingurinn um efnahagsmál kann að hafa fram að færa á hverjum tíma, og ætla jafnvel að láta sér duga þær reglustrikur og þá reikningsstokka sem slíkir aðilar bjóða. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að langskólagengnir menn í hagvísindum séu jafnmisjafnir, jafnmisjafnlega góðir fræðimenn og um er að ræða í öðrum slíkum greinum. En það er þó ekki aðalatriðið í þessum efnum, heldur hitt, að hér í þessu landi eins og víðast annars staðar fara fram þjóðfélagsleg átök, þar sem andstæðir hagsmunir takast á. Hið pólitíska vald og þau pólitísku öfl, sem ætla að taka þátt í þessum átökum, verða auðvitað fyrst og fremst að gera það upp við sig, hverra hagsmuna skal gæta, hverra fulltrúar menn vilja vera á hinum pólitíska vettvangi. Og það er mikill misskilningur að halda að það sé hægt að fara í smiðju til einhverra ágætra hagfræðinga, hversu ágætir svo sem þeir eru, til að fá svör við þeim spurningum, sem í þessum átökum hljóta jafnan að vakna. Þarna er að sjálfsögðu fyrst og fremst um að ræða pólitískt val, — það t. d. hvernig á að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Á að gera það með því að skerða kaupmáttinn, draga saman framkvæmdir, opinberar framkvæmdir og í atvinnulífinu? Það er ein pólitísk leið. En það er önnur pólitísk leið sem hefur aðra hagsmuni að leiðarljósi, sú að ráðast gegn verðbólgunni með því að færa til fjármuni í þjóðfélaginu, frá eyðslunni, frá eignastéttinni og yfir til þeirra sem við lakari kjör búa. Menn læra það ekki í neinum háskólum, hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessum efnum. Þess er ekki að vænta. En hitt er annað, að auðvitað er ekki nema sjálfsagt að ætla þeim sérfræðingum, sem íslenska ríkið hefur í sinni þjónustu á sviði efnahagsmála að vinna mörg mikilvæg verk. En spurningin er hvernig á að setja þeim fyrir. Hver ætlar að setja þeim fyrir og hvernig á að setja þeim fyrir? Það erum við, sem erum kosin pólitískir fulltrúar í almennum kosningum, sem eigum að stjórna þessu landi, eigum að setja sérfræðingunum verkefnin fyrir, en ekki öfugt. — Hér get ég sem best látið máli mínu lokið, herra forseti, og geri það.