13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

342. mál, endurgreiðsla almannatrygginga vegna ferðakostnaðar sjúklinga

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 341 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Kjartani Ólafssyni að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hverjar eru þær höfuðreglur, sem tryggingaráð hefur sett varðandi ferðakostnað sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar, sbr. j-lið 43. gr. laga um almannatryggingar?“

Hér er um að ræða breytingu á lögum, sem gerð var á s. l. vori, þar sem segir að auk þeirra réttinda, sem um ræðir í greininni á undan, 42. gr., skuli sjúkrasamlag veita þá hjálp sem hér er talin, og í staflið j segir:

„Óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum, sem tryggingaráð setur og ráðh. staðfestir, fyrir sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar.“

Hér er um mjög mikilvægt mál fyrir sérstaklega landsbyggðarfólk að ræða, sem mestu þarf til að kosta á fund þeirra sérfræðinga, sem aðallega eru á suðvesturhorninu, og þarf ófáar ferðir til þeirra að fara. Ég fagnaði því sér í lagi þessu ákvæði, sem kom í lög í fyrra eftir að endurskoðunarnefnd tryggingalaganna hafði lagt það til og hæstv. þáv. heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason lagt svo fram. Ég vissi þó að eftir færi um nytsemi þessa ákvæðis, hvernig tryggingaráð tæki á þessu, hvaða reglur tryggingaráð setti. Ég hafði tvívegis áður flutt í Ed. Alþ. lagafrv. um þetta efni. Það lagafrv. náði nokkru lengra hvað snertir bein ákvæði og skyldur sjúkratrygginganna til greiðslu á þessum ferðakostnaði, en mér var þó ljóst að það, sem gert var í fyrra, var stórt skref í rétta átt, að því tilskildu að tryggingaráð setti skýrar og ljósar reglur og reglur sem væru sanngirnisreglur fyrst og fremst með tilliti til þess mikla kostnaðar sem fólk hlýtur að verða að bera af þessum sökum.

Ég held að nauðsynlegt sé að fá þessar reglur fram hér á Alþ. fólki til upplýsingar. Fólk veit það reyndar sumt, sumt ekki, að um endurgreiðslu á þessum ferðakostnaði getur verið að ræða, en fsp. er fyrst og fremst borin fram til að fá það ljósar fram, hvaða reglur hafa verið settar, því að ég veit að þær hafa verið settar, og fólki til glöggvunar þannig að það liggi sem ljósast fyrir fólki hvaða rétt það á í þessum efnum, því að eins og er í dag, þrátt fyrir upplýsingastarfsemi Tryggingastofnunarinnar, hef ég ekki, a. m. k. ekki opinberlega, séð þær reglur sem hér er farið eftir.