13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Fyrirspyrjandi (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Á yfirstandandi þingi hafa farið fram miklar umr. um fjárhagsleg vandamál hinna ýmsu orkuvera dreifbýlisins og hafa vandamál RARIK þá alveg sérstaklega verið í sviðsljósinu. Í sambandi við þessi mál hefur verið upplýst að fjármögnunarmál hinna ýmsu raforkuvera landsins munu vera með margvíslegum hætti. Ástæða er til að ætla að orkuver utan svokallaðs Landsvirkjunarsvæðis búi við mjög miklu erfiðari lánakjör en t. d. Landsvirkjun. Telja margir að til þessara þátta megi rekja að verulegu leyti hina miklu fjárhagslegu erfiðleika umræddra orkuvera.

Til þess að hægt sé að gera sér ljósa grein fyrir því, hvernig þessum málum er háttað, er nauðsynlegt að fá ljósar upplýsingar um það, hvernig fjármögnun hinna ýmsu orkuvera er til komin. Af framangreindu tilefni hef ég, herra forseti, leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh., sem birt er á þskj. 341 og er svo hljóðandi:

„1. Hve hárri upphæð nam skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð í árslok 1978 vegna svokallaðra víkjandi lána og hvernig er háttað greiðsluskilmálum og öðrum lánakjörum að því er snertir þessi lán?

2. Að hve miklu leyti hafa framkvæmdir neðangreindra virkjunaraðila verið fjármagnaðar með vísitölutryggðum lánum, og hve háum upphæðum nema skuldir þessara fyrirtækja í slíkum lánum í árslok 1978: a) Landsvirkjunar, b) Laxárvirkjunar, c) Rafmagnsveitna ríkisins, d) Kröfluvirkjunar?“

Ég leyfi mér að vænta þess, að þegar skýr svör liggja fyrir í sambandi við þessa fsp. verði léttara fyrir Alþ. að finna sem réttlátasta leið til þess að jafna hugsanlegan mismun, sem kann að vera fyrir hendi að því er snertir fjármögnun orkuvera almennt, til þess að hægt sé að finna viðunandi grundvöll fyrir því að orkuverð í heildsölu megi verða sem jafnast á landinu öllu. Það er áreiðanlega yfirgnæfandi meiri hl. innan Alþ. fyrir því, að að slíku skuli stefnt hið bráðasta, þar sem hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir þjóðina.