13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Árið 1967 veitti ríkissjóður Landsvirkjun 200 millj. kr. víkjandi lán til Búrfellsvirkjunar og því til viðbótar 350 millj. kr. árið 1974 vegna Sigölduvirkjunar. Af þessum 550 millj. kr. voru 100 millj. í innlendri mynt og 450 í erlendri, á gengi þess tíma þegar lánin voru veitt. Enn sem komið er hafa engar greiðslur af lánunum farið fram og vextir bæst við höfuðstól árlega.

Staða þessara lána í árslok 1978 var þannig: Íslenskar kr. 202 002 347, vextir af því láni eru 6% og lánstími er frá 1967 til 1991. Lán í sterlingspundum: 459 915 sterlingspund, vextir 7.5% og lánstími 1967–1986. Önnur tegund lána: í sterlingspundum 1381 839, vextir af þeim lánum eru 9% og lánstími frá 1967–1991. Og að lokum: lán í Bandaríkjadölum 6 millj. 383 045, vextir af þeim eru 10% og lánstími 1974–1993. Umreiknað á gengi í árslok 1978 samsvarar þetta um 3430 millj. kr., en það er 5.6% af heildarlánum Landsvirkjunar í lok sama árs. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir, að lánin verði greidd fyrir lok lánstímans og er reiknað með að greiðslur hefjist þegar tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði eru orðnar jafnar vöxtum og afborgunum. Eru þá meðtaldir þeir vextir sem færðir eru á byggingarkostnað mannvirkja. Enn hefur ekki tekist að ná þessu marki vegna hinnar öru uppbyggingar Landsvirkjunarkerfisins.

Ef frá eru taldar framangreindar 202 millj. kr. og stutt 27 millj. kr. lán hjá ríkissjóði, sem er að mestu greitt, hefur Landsvirkjun engin innlend lán fengið og þá ekki heldur vísitölutryggð lán.

Seinni liður spurningarinnar fjallar um'það, að hve miklu leyti framkvæmdir neðangreindra virkjunaraðila hafi verið fjármagnaðar með vísitölutryggðum lánum og hve háum upphæðum skuldir þessara fyrirtækja nemi í slíkum lánum í árslok 1978. Hér er spurt um Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Kröfluvirkjun. Um það hef ég þetta að segja:

Um það, að hve miklu leyti framkvæmdir virkjunaraðila hafa verið fjármagnaðar með vísitölutryggðum lánum, er það eitt hægt að upplýsa, að vísitölutryggð lán til þeirra hafa numið sem hér segir:

Til Landsvirkjunar engin vísitölutryggð lán.

Til Laxárvirkjunar 69 millj. kr., eftirstöðvar 31. 12. 1978 að nafnverði 33 583 335 kr., áfallin vísitöluálög 31. 12. 1978 310 724 208 kr. og eftirstöðvar alls 31. 12. 1978 344 307 543 kr., en upphaflega var lánið 69 millj. kr.

Rafmagnsveitur ríkisins: 3 milljarðar 606 millj., eftirstöðvar 31. 12. 1978 að nafnverði 3 250 751 591 kr., áfallin vísitöluálög 31. 12. 1978 4 930 427 743 kr., eftirstöðvar alls 31. 12. 1978 8 181 179 334 kr., en upphaflega var lánið 3 milljarðar 606 millj. kr. Ekki er rn. kunnugt um hvort lánin hafi einvörðungu verið notuð til virkjunarframkvæmda eða að einhverju leyti til línulagna.

Kröfluvirkjun: Upphafleg fjárhæð 3 298 389 071 kr., eftirstöðvar 31. 12. 1978 að nafnverði 3 120 227 795 kr., áfallin vísitöluálög 31. 12. 1978 2 013 358 083 kr. og eftirstöðvar alls 31. 12. 1978 5 133 585 878 kr., en upphaflega fjárhæðin um 3.3 milljarða kr.

Lán Laxárvirkjunar yfirtók ríkissjóður í sambandi við lausn Laxárdeilunnar.

Af lánum Rafmagnsveitna ríkisins hafa yfirfærslur átt sér stað til Orkusjóðs vegna framkvæmda á Vestfjörðum svo sem hér segir: Upphafleg fjárhæð 1 milljarður 139 millj. kr. Eftirstöðvar 31. 12. 1978 að nafnverði 897 742 862 kr., áfallin vísitöluálög 31. 12. 1978 1 988 908 686 kr. og eftirstöðvar alls 31. 12. 1978 2 886 651 548 kr. Þessi lán hafa allt að því þrefaldast.

Til skulda RARIK eru ekki talin vísitölulán vegna byggðalínu, en þau eru sem hér segir: Upphafleg fjárhæð 987 128 186 kr., eftirstöðvar 31. 12. 1978: nafnverð 833 351 201 kr., áfallin vísitöluálög 31. 12. 1978 1 228 919 820 kr. og eftirstöðvar alls 31. 12. 1978 2 062 271 021 kr. Þetta lán hefur því í krónum rúmlega tvöfaldast frá því að það var tekið.