31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

326. mál, niðurskurður fjárframlaga 1978

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af þessari fsp. Ég sé það á prentuðu þskj., sem svar hæstv. ráðh. er á, að nefndir eru ýmsir liðir, sem í raun draga ekki úr greiðsluerfiðleikum ríkissjóðs þar sem þeir eru á lánsfjáráætlun. Ekki eru ætlaðar til þeirra samtímatekjur. Þar má t.d. nefna þjóðarbókhlöðu, svo að eitthvað sé nefnt, og nokkur önnur atriði, sem ég man nú ekki nákvæmlega hvort var hugmyndin að afla fjár til með lánsfé. Í þessu sambandi vildi ég því spyrja hæstv. fjmrh., til hversu margra framkvæmda af þessum, sem þarna koma fram og gera samtals 600 millj. kr. niðurskurð, var ætlunin samkv. fjárl. að afla fjár með lánum og hverju sú upphæð nemur í heild, þannig að það komi glöggt fram hversu greiðslustaða ríkissjóðs muni batna með þessum niðurskurði.