13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3206 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Fyrirspyrjandi (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar greinargóðu upplýsingar og svör sem hann hefur veitt við fsp. sem ég hef borið fram. Af svari hæstv. ráðh. kemur fram, sem ég reyndar þóttist hafa nokkra hugmynd um áður, að sá aðilinn í virkjunarmálum þjóðarinnar, sem býr við hagstæðasta markaðinn og hefur að mörgu leyti haft bestu aðstöðuna, býr einnig við best lánakjör. Það gefur auga leið að á þeim verðbólgutímum og hávaxtatímum, sem gilda í fjármálakerfi þjóðarinnar, eru það ekki lítil hlunnindi að geta verið með 3.5 milljarða í skuldum, sem eru ekki verðtryggð lán og bera ekki hærri vexti en frá 6 og upp í 10%, og óneitanlega hvarflar að manni spurningin um það, hversu mikil upphæð þessi höfuðstóll mundi vera nú ef hann hefði verið reiknaður á svipaðan hátt og t. a. m. lánin sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa verið látnar taka og Kröfluvirkjun.

Það hefur þó nokkrum sinnum verið rætt um að jöfnun orkuverðs til almennings í landinu, að hafa a. m, k. heildsöluverðið sem næst því jafnt á aðalathendingarstöðunum með þjóðinni, mundi orsaka verulega hækkun á rafmagnsverði á þéttbýlissvæðinu. En í sambandi við það dettur mönnum í hug að varpa fram þeirri aths., hversu mikið hinn almenni skattþegn greiði niður orkuverðið á þéttbýlissvæðinu með því að haga lánakjörum til aðalorkusölufyrirtækisins á þéttbýlissvæðinu á þann veg sem gert hefur verið.

Ég held að ekki verði hjá því komist að þessi mál öll verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar og endurskoðunar í sambandi við þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru í framtíðinni til að leysa þessi mál á þann veg að viðunandi sé fyrir þjóðfélagið í heild. Slíkt hlýtur þó að vera ósk og vilji okkar allra sem á þingi sitjum og eigum að útkljá þessi mál og leiða þau til lykta.

Að öðru leyti vil ég svo endurtaka þakklæti mitt fyrir greinargóðar upplýsingar.