13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins staðfesta það aftur, að hér er um að ræða lítið brot af skuldum Landsvirkjunar, 3430 millj. kr., sem eru lán Landsvirkjunar í erlendum gjaldeyri að mestu leyti, í sterlingspundum og Bandaríkjadollurum.

Í þessu sambandi er e. t. v. ástæða til að velta því aðeins fyrir sér, hvernig skynsamlegast sé að standa að lántökum til opinberra framkvæmda í landinu. Um það geta verið skiptar skoðanir og það er oft mjög mikið matsatriði hvernig taka skuli lán til opinberra framkvæmda. Ég hygg þó að það sé ríkjandi skoðun þeirra, sem við þessi mál fást, að það sé heppilegast að taka mestan hluta þeirra lána, sem til þarf á hverju ári, í einu lagi, en þó sé rétt og eðlilegt að útiloka ekki svokölluð „project“ — lán — þau lán sem eru tekin sérstaklega til ákveðinna framkvæmda, eins og t. d. orkuframkvæmda. Það er vegna þess að stundum er hægt að komast að betri kjörum með slíku lánaformi en með því að taka þau lán sem lið í einni heildarupphæð.

Ég held að það sé ástæða til að athuga nánar hvernig þessum lánamálum er háttað, því að það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að auðvitað er fjármagnsbyrðin liður í rekstrarkostnaði og þess vegna ástæða til að athuga það nánar. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvernig sá samanburður yrði t. d. milli einstakra virkjana í landinu, en það væri fróðlegt að gera slíkan samanburð, og er ég ekki að gefa eitt eða annað í skyn í því efni, aðeins að það væri fróðlegt að sá samanburður yrði gerður.

Varðandi þessi mál öll er það orðið svo, að rafmagnsverð og hitunarkostnaður er að verða býsna stór þáttur í kostnaði við rekstur heimila í landinu og er það verulegt áhyggjuefni. Það háttar nú svo til, að sem betur fer eru í flestum byggðarlögum, eða sem svarar um 80% af fólksfjöldanum, möguleikar á að hita upp híbýli manna með hitaveitu með nútíma borunartækni. Þeir, sem ekki hafa þá möguleika, verða að hita híbýli sín upp með olíu, og eins og nú er að verða er það í raun og veru ókleift án þess . að ríkissjóður eða almannavaldið komi til aðstoðar, samhjálp komi til aðstoðar, ella mundu þær byggðir, sem þannig eru settar, sennilega smátt og smátt hreinlega eyðast. Sumar er þannig í sveit settar að þar er nauðsynleg byggð til þess að nýta náttúruauðlindir, eins og t. d. fiskimiðin, og margt fleira kemur þar til. En það má vel vera að með enn þá meiri borunartækni en við ráðum nú yfir verði mögulegt að hita upp svo að segja öll híbýli á landinu þegar tímar líða og það verði hægt að komast hjá því vandamáli sem þessar staðreyndir, sem við nú stöndum frammi fyrir, valda.

Ég held að ekki sé skynsamlegt fyrir þjóðina að taka upp illvígar deilur um þessi mál. Þau eru þess eðlis að það er ekki hægt að komast hjá því að grípa til samhjálpar. Annað er í raun og veru ekki forsvaranlegt. Ella verða menn hreinlega að flýja heil héruð, eins og þessi mál hafa þróast og eins og líklegt er að þau muni þróast, e. t. v. hraðar en við gerum okkur grein fyrir nú. Ég vil því leggja á það áherslu í sambandi við þessi mál, að raforkan og upphitunin eru hvor tveggja þættir sem verður að huga að og verður að ganga þannig frá að menn sitji nokkurn veginn við sama borð hvar sem menn eru búsettir á landinu.