13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. ráðh. fyrir að leiðrétta hv. fyrirspyrjanda og staðfesta að þær 3430 millj., sem Landsvirkjun skuldar, eru erlent lán, en ekki lán sem ríkissjóður hefur veitt, og ábyrgðin á þessu erlenda láni hvílir að jöfnu á ríkissjóði og Reykjavíkurborg.

Ég vil taka undir það, að jafna þarf kostnað, m. a. rafmagnskostnað, eftir búsetu manna hér í landi. En það á ekki að gera með því að auka álögur á íbúa Reykjavíkur eða íbúa þéttbýliskjarna, heldur á sú samhjálp að koma frá opinberum almennum sjóðum, t. d. ríkissjóði, en alls ekki sem aukaálag á íbúa þéttbýliskjarna.