13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það voru mjög athyglisverðar upplýsingar, sem komu fram í ræðu hæstv. fjmrh., og vissulega var gagnlegt að fá þær. Það er auðvitað óumdeilanlegt, að Landsvirkjun og áður Sogsvirkjun hefur staðið mjög vel að virkjunarframkvæmdum og eru þær langmikilvægustu virkjunarframkvæmdir fyrr og síðar á Íslandi. Að sjálfsögðu hafa eignaraðilar, Reykjavíkurborg og ríkið, greitt fyrir þessum virkjunarframkvæmdum á ýmsa lund. Það kemur m. a. fram í þessum hagstæðu víkjandi lánum. Þau eru í því fólgin, að fyrirtækið þarf ekki að greiða vexti og afborganir af þessum lánum fyrr en afkoma þess er með þeim hætti að það geti undir því staðið. Í öðru lagi hafa bæði Reykjavíkurborg og ríkið veitt óafturkræf framlög sem eigendur þessa fyrirtækis. Þetta hefur auðvitað orðið til þess að greiða fyrir virkjunarframkvæmdum og þær orðið yfirleitt mjög hagkvæmar.

Hins vegar kemur það fram, að ýmsir aðrir virkjunaraðilar hafa ekki, a. m. k. enn þá, notið sams konar fyrirgreiðslu, eins og kemur fram í því t. d., að Rafmagnsveitur ríkisins hafa orðið að notast fyrst og fremst við vísitölutryggð lán, og vitanlegt er að undanfarin ár hafa vísitölutryggð lán innanlands verið miklu óhagkvæmari en erlend lán, þau hafa hækkað miklu meira en gengisbreytingum nemur.

Ég held að það sé alveg ljóst, að það, sem fyrir hv. fyrirspyrjanda vakir, er ekki að skattleggja Landsvirkjun eða þá sem eru á veitusvæðum Landsvirkjunar, heldur þvert á móti að fá þessar upplýsingar til þess að vinna að því að sum önnur virkjunarfyrirtæki í landinu geti annaðhvort á næstunni eða smám saman fengið svipaða fyrirgreiðslu og Landsvirkjun hefur fengið. Það finnst mér ákaflega eðlileg og sanngjörn ósk.