13.03.1979
Sameinað þing: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

72. mál, meðferð íslenskrar ullar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa stuðningi mínum við þá till. sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessi till. er að verulegu leyti byggð á ályktun eða áliti samtaka sem láta sig handiðnað miklu varða, þ. e. a. s. Heimilisiðnaðarfélags Íslands, Handprjónasambands Íslands, Félags ísl. vefnaðarkennara, Handavinnukennarafélags Íslands, Textílfélagsins og Tóvinnustarfshóps svonefnds.

Hér er á ferðinni hið merkasta mál. Það þekkja allir þeir sem ferðast hafa og farið um landið og koma úr þeim kjördæmum þar sem ullariðnaður er veruleg lyftistöng fyrir allt atvinnulíf. Það, sem hér þarf að gerast, eins og í fjöldamörgum öðrum úrvinnslugreinum hér á landi, er einfaldlega það, að verð ullarinnar þarf að tengjast gæðum hennar. Það er ekki ýkjalangt síðan íslenskir bændur hirtu varla ull af fé sínu og gjarnan mátti sjá kindur í tveimur reyfum vaga um haga og eiga bágt í sumarhitum. Þetta var m. a. af þeim sökum að verð á ull var mjög lágt og er raunar hlutfallslega mjög lágt enn í dag miðað við þau verðmæti sem sköpuð eru úr ullinni.

Við höfum á undanförnum missirum og árum staðið frammi fyrir því, að erlendir menn hafa reynt að líkja eftir eiginleikum hinnar íslensku ullar og merkja sér íslensku ullina á þann hátt að við höfum hlotið nokkurn skaða af. Þó virðist þetta vera að breytast á þann veg, að einmitt sú samkeppni, sem hefur átt sér stað úti í hinum stóra heimi, hefur auglýst meir og betur íslensku ullina en margt annað. Engu að síður ber okkur að gera átak í þeim efnum að auka gæði þessa mikilvæga hráefnis, en því miður hefur það verið svo að undanförnu að lítill hluti ullar, sem kemur á markað hér, er í háum gæðaflokki. Hér þarf því að gera átak á mörgum sviðum, eins og hv. frsm. nefndi, bæði meðal bænda, í verksmiðjum og hjá starfsfólki verksmiðja og þegar ullin kemur til fullvinnslu.

Íslensk ull hefur að undanförnu verið blönduð erlendri ull og sá háttur hefur verið umdeildur. Skoðun mín er sú, að við eigum í framtíðinni að stefna að því að nota eingöngu eigin ull í þann varning sem við flytjum úr landi undir okkar merkjum. Fyrst og fremst ber okkur þó að hafa í huga að auka gæði ullarinnar, auka verðmæti hennar í réttu hlutfalli við aukningu gæðanna, þannig að það verði verulega eftirsóknarvert fyrir bændur m. a. að hirða ullina og fyrir þá menn, sem stuðla vilja að atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum þessa lands, að stofna til hvers konar framleiðslu á ullarvarningi, sem á síðustu árum hefur orðið verulegur hornsteinn að atvinnulífi í landshlutum og á stöðum þar sem atvinna hefur verið takmörkuð.

Ég vildi aðeins láta þessi orð falla um þá þáltill., sem hér er til umr., lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel þessa till. mjög tímabæra og ég vænti þess, að hún geti haft þau áhrif að a. m. k. fjárveitingavaldið sjái sér fært að veita meira fjármagn til rannsókna sem fram hafa farið og væntanlega eiga eftir að fara fram á gæðum íslenskrar ullar og hvernig megi bæta þau gæði og auka í alla staði.