13.03.1979
Sameinað þing: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3219 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

77. mál, leit að djúpsjávarrækju

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég var á mælendaskrá þegar mál þetta var reifað fyrir nokkru. Ég get ekki látið hjá líða að segja örfá orð og lýsa stuðningi mínum við þáltill. þessa sem fjallar um aukna leit að djúpsjávarrækju fyrir Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi, skipulagða leit að djúpsjávarrækju.

Ég vil þó gera eina aths. við þessa till. Hún takmarkast við Vestfirði, Norður- og Austurland, en ég álit að það sé í sjálfu sér ekki rétt. Ég tel að það sé full ástæða til að leita að þessari verðmætu fisktegund allt í kringum Ísland.

Það er svo, að leitað mun hafa verið að rækju á djúpslóð fyrir nokkuð mörgum árum, en fram til 1976 a. m. k. var sú leit með öllu ónóg og ekki nægilega samfelld. Á árinu 1976 verður á þessu breyting og gert átak í þessum efnum, ekki síst fyrir forgöngu Matthíasar Bjarnasonar, fyrrv. sjútvrh.

Flm. þessarar till. vekja athygli á því með flutningi hennar, að hér þurfi að hefja skipulega leit að djúprækju og auka hana. Í grg. er vikið að því, hverjir hófu þessar tilraunir og hvenær þær hófust almennt. Það mun hafa verið árið 1934 og síðan gerð alvarleg tilraun í þessu skyni á árinu 1972. Oft hafa þær tilraunir, sem á seinni árum hafa verið gerðar, verið orðaðar við Snorra Snorrason skipstjóra á Dalvík, sem manna mest hefur sýnt þessum málum áhuga, svo að mér sé kunnugt um. Þó að tilraunir hans hafi oft gengið með ýmsu móti og þar hafi verið mörgum erfiðleikum að mæta var aflahlutur á Dalborgu, úthafsrækjutogara þeirra Dalvíkinga, mjög glæsilegur á s. l. hausti eða s. l. hálfu ári.

Ein þau mið,.sem stunduð hafa verið, rækjumið, sem hafa reynst gjöful, eru rækjumiðin á Breiðafirði. Þar hófst rækjuvinnsla fyrir 1970 og þar er hinn besti aðbúnaður í landi, í Grundarfirði, til þess að veita rækjunni viðtöku og verka hana. En nú er svo háttað á þessum slóðum, eins og þeir, sem best þekkja til þeirra veiða, taka til orða, að nú er ýsan búin að yfirtaka hin gjöfulu rækjumið á Breiðafirði“, og hefur það verið nefnt í mín eyru, að það þyrfti svo að segja að veiða ýsuna ofan af rækjumiðunum, ef stunda ætti þessi mið áfram.

Hvað sem þessu líður er deginum ljósara að mikil og brýn ástæða er til þess að sinna skipulegri leit af þessu tagi. Vona ég að n. sú, sem fær þessa till. til athugunar, taki þau orð til greina sem ég hef haft um þetta mál, og það er alveg víst, að djúprækjan er auðlind, sem við eigum, sem ekki hefur verið nýtt fram á þennan tíma að kalla. En það er samt mjög greinilegt, að það er þjóðhagslega mikilvægt að þessum rannsóknum sé sinnt þannig að þær megi koma að notum bæði nýjum stórvirkjum úthafsrækjutogurum, en einnig þeim bátum, sem hingað til hafa stundað þessar veiðar á vissum árstíma, og geti orðið til nytja þeim byggðum sem hafa búið sig undir að nýta þennan dýrmæta sjávarfisk og vinna hann í mjög verðmæta vöru.