31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

325. mál, gildistaka byggingarlaga

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Spurt er um hvað líði setningu reglugerðar í samræmi við 4. gr. byggingarlaga og hvaða ákvæði verði í þeirri reglugerð varðandi umbúnað bygginga til að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.

Byggingarlögin, sem hér er vitnað til, eru ekki gömul. Þau voru samþykkt á Alþ. í vor og eru nr. 54 á þessu ári. Það ákvæði 4. gr. laganna, sem vitnað er til í fsp., mun hafa verið sett inn í lögin vegna tilmæla félmrn. og má rekja það til starfa nefndar, sem skipuð var árið 1972 til að fjalla um ýmis vandamál fatlaðra, en formaður þessarar nefndar var einmitt hv. fyrirspyrjandi.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1978, var skipuð nefnd 5 manna undir forustu Zophaníasar Pálssonar skipulagsstjóra ríkisins til að vinna að samningu þessarar reglugerðar. Hér er um mjög viðamikið verkefni að ræða, því að byggingarlögin eru aðeins rammalög og beinlínis að því stefnt að kveða nánar á um fjölmörg atriði þeirra í reglugerð. Í skipunarbréfi nefndarinnar er sérstök athygli vakin á því, að reglugerðin skuli sett innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna sem er 1. jan. 1979. Nefnd þessi starfar af fullum krafti og bendir ekkert til annars en þess að hún muni ljúka störfum sínum á tilskildum tíma. Á þessu stigi er þó of snemmt að fullyrða, hvernig einstök ákvæði reglugerðarinnar verða úr garði gerð. Verð ég því að biðja hv. fyrirspyrjanda að hafa nokkra biðlund í því efni. Það er alveg ljóst, að lögin beinlínis áskilja setningu slíkra ákvæða í reglugerðina sem fsp. fjallar um, og verður það að sjálfsögðu gert. Kæmi mér ekki á óvart, að nefndin færi eitthvað í smiðju til hv. fyrirspyrjanda varðandi frágang þeirra.