14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3242 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

63. mál, tollskrá

Frsm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Upphaflega var þetta frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr. í hv. d., flutt í Ed. á þskj. 69 af hv. þm. Alexander Stefánssyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni. Fjh.- og viðskn. Ed. varð sammála um álit og afgreiðslu frv. eins og það kom frá Ed. á þskj. 375. Mál þetta gekk til fjh.- og viðskn. Nd. Efni þess er það, að lagt er til að auka fjölda bifreiða til öryrkja, sem njóta eiga eftirgjafar tolla og aðflutningsgjalda, úr 350 í 400 bifreiðar. Þannig kom málið frá Ed., að lækkun gjalda á bifreið geti numið 1 millj. kr. í stað 500 þús. eins og er núna. Þessi var sameiginleg niðurstaða hv. Ed. og einnig sameiginleg niðurstaða fjh.- og viðskn. þessarar d. Hún leggur því til að frv. verði samþ. óbreytt eins og Ed. gekk frá því.