14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

63. mál, tollskrá

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að tefja afgreiðslu þessa máls á þessu stigi, þar sem ég hef ekki annan vettvang til að gera aths. en þd. Alþ., eins og ég hef áður sagt. En á þskj. 375 kemur fram breyting og er síðasta mgr. svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Enn fremur er rn. heimilt að lækka eða fella niður fyrir framangreint fólk gjöld af gervilimum, sem ekki verða gerðir hér á landi, svo og af hjálparáhöldum og hjálpartækjum sem sérstaklega eru gerð með tilliti til þarfa þess samkv. læknisvottorði og henta ekki öðru fólki.“

Nú vita allir, sem þurfa að hafa afskipti eða samskipti við rn., að hvergi er að finna meiri seinagang í afgreiðslu mála en einmitt hjá hinu opinbera, og því tel ég rétt að Alþ. sjálft taki ákvörðun í málum sem þessum, en skilji ekki eftir heimildarákvæði um svo sjálfsagða hluti sem hér getur. Ég tel að innflutningur á hjálpartækjum, svo sem gervilimum o. fl. þess háttar, eigi ekki undir neinum kringumstæðum að vera tekjulind ríkissjóðs. Það er okkur öllum til skammar að misnota þannig þann hluta af innflutningi. Það má segja að við séum að skattleggja þau vandamál, sem þeir einstaklingar eiga við að búa sem eru að einhverju leyti með skerta starfsorku eða líkamsorku.

Ég vil ekki tefja framgang þessa máls í þessari hv. d. Þetta er gott mál að öðru leyti, og ég tek að öllu leyti undir það sem kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv. áðan. En þetta er, eins og ég sagði, vettvangur minn til að gera aths. við það sem kemur frá n., og ég vil beina því til hv. fjh.- og viðskn. að hún athugi þennan hluta frv. og felli niður heimildir rn. til að taka ákvörðun um hvenær á og hvenær á ekki að fella niður aðflutningsgjöld af gervilimum og öðrum slíkum tækjum sem ekki er hægt að framleiða hér innanlands.