14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3254 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Í þessum umr. um lánsfjáráætlun hefur nokkuð verið rætt um skerðingu á tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins, og hafa menn látið í ljós áhyggjur annars vegar af stöðu hans og hins vegar af því, að í sumum tilfellum sé gengið nokkuð á svig við áður gert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins. Þessar áhyggjur skil ég mætavel.

Auðvitað hefði ég og flestir aðrir kosið að tekjustofnar Byggingarsjóðs yrðu með öllu óskertir á yfirstandandi ári frá því sem verið hefur og helst auknir frá því sem áður var. En vegna þeirrar nauðsynjar að draga úr spennu í þjóðfélaginu og ekki síður vegna þeirrar nauðsynjar að beina síminnkandi innlendum sparnaði í auknum mæli til stuðnings undirstöðuatvinnuvegum okkar var fallist á að skerða markaða tekjustofna Byggingarsjóðs eins og alla aðra markaða tekjustofna um því sem næst 10% á yfirstandandi ári.

Enn fremur var fallist á 2 milljarða kr. tilflutning á skyldusparnaðarfé frá Byggingarsjóði til Framkvæmdasjóðs á þessu ári. Þetta hefur nokkuð verið gagnrýnt og það að vonum. Hæstv. fjmrh. kom inn á þetta í ræðu sinni í dag og sagði, að þessi tilflutningur eða samsvarandi mætti allt eins vera af ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs, en 40% af tekjum hans eru lánaðar Byggingarsjóði. Ég var og er andvígur því og þá fyrst og fremst með hagsmuni Byggingarsjóðs í huga. Lán þau, er Byggingarsjóður tekur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, eru með sömu kjörum og lán þau, sem Byggingarsjóður veitir, hann hvorki græðir né tapar á þeim viðskiptum. Skyldusparnaðarféð er aftur á móti mun óhagkvæmara. Það er til mun styttri tíma, verðtryggt að fullu og með talsverðum vöxtum. Á móti þessum tilfærslum á skyldusparnaði kemur að lán lífeyrissjóða til Byggingarsjóðs hækka mjög mikið, eða úr 500 millj. kr., eins og þau voru á lánsfjáráætlun s. l. árs, í 2755 millj. í áætlun þessa árs, og er þá miðað við að fullnægja samkomulagi við lífeyrissjóði launþegasamtakanna um að þeir láni 20% af ráðstöfunarfé sínu til Byggingarsjóðs.

Þrátt fyrir það, sem ég nú hef sagt, vil ég undirstrika eftirfarandi:

1. Lán Byggingarsjóðs til nýbygginga og til kaupa á eldra húsnæði hækka að fullu til samræmis við hækkun byggingarvísitölu.

2. Í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir að heildarútlán Byggingarsjóðs verði óbreytt frá fyrra ári að raungildi, og er þá reiknað með 34% verðhækkunum á milli ára.

3. Ekkert bendir nú til þess, að Byggingarsjóður geti ekki á þessu ári staðið við lögbundnar eða hefðbundnar skuldbindingar sínar.

4. Ef áætlanir húsnæðismálastjórnar um fjölda umsókna og fjölda lána á þessu ári standast ekki og ef stofnunin sér fram á verulegan fjárskort, þá er opin leið fyrir ríkisstj. til að grípa þar inn í, og vísa ég þar til sérstakrar bókunar í lánsfjáráætluninni um þessi mál, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að taka fjáröflun Byggingarsjóðs ríkisins til endurskoðunar á árinu 1979 ef: a) sjóðurinn getur ekki staðið við lögbundnar og venjubundnar skuldbindingar, b) hætta er á að til alvarlegs atvinnuleysis komi í byggingariðnaði.“

Ég treysti því að ríkisstj. muni ekki hika við að beita þessari heimild, ef nauðsyn ber til.