14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3255 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

219. mál, Kirkjubyggingasjóður

Flm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Mér þykir vænt um það að fá tækifæri til þess með örfáum orðum að mæla fyrir þessu frv. sem ég flyt hér ásamt þremur öðrum hv. þm. Ástæðan til þess, að mér fannst brýnt að flytja þetta frv., er einfaldlega sú, að lög um Kirkjubyggingasjóð eru vegna ákvæða um lágmarksupphæðir nánast orðin óvirk. Lögin eru nr. 33 frá 14. apríl 1954, en árið 1962 var þeim breytt þannig að eftir þessi 8 ár var lágmarksupphæðunum breytt til samræmis við breytt verðlag. Þau eru þannig núna, að gert er ráð fyrir framlagi af hálfu ríkisins,1 millj. á ári, og auk þess eru sett inn í lögin hámarksákvæði um það sem heimilað er að veita hverri kirkjubyggingu, þ. e. a. s. 400 kr. á hvern rúmmetra, eða ef óeðlilega hátt er talið vera til lofts í viðkomandi kirkju, þá 2000 kr. á hvern fermetra. Segir sig sjálft að það er ótækt undir því að búa að eiga að úthluta lánsfé þar sem er um að ræða takmarkanir sem eru orðnar svo gamlar, þar sem nú þegar eru liðin 17 ár frá því að þessum tölum var síðast breytt.

Við athugun á þessum lögum kom enn fremur í ljós, að ástæða var til þess að breyta öðrum ákvæðum í lögunum.

Gildandi lög eru raunar ekki nema þrjár greinar, og var ástæða til að breyta þeim öllum og þess vegna eðlilegt að semja nýtt frv.

Við athugun á því, í hverjum mæli Kirkjubyggingasjóður hefur verið fær um að sinna því hlutverki, sem honum var ætlað þegar lögin voru sett, og endurskoðun talna kemur í ljós að það er mjög langt frá því að hann geti sinnt þessu hlutverki. Það hefur komið í ljós, að miðað við þær hámarksupphæðir, sem settar voru, hefur hann að undanförnu aðeins getað lánað sem svarar 9.78% af því sem hann hugsanlega hefði átt að lána og þannig hefur orðið uppsöfnuð lánsþörf, sem hann hefur ekki getað sinnt, upp á rúmlega 500 millj. kr. Það skal að vísu tekið fram, að þá er miðað við að framreiknaðar séu þær hugmyndir sem uppi voru við setningu laganna.

Nú fer víðs fjarri að við flutning á þessu frv. sé gert ráð fyrir að þetta bil verði brúað. Hins vegar er gert ráð fyrir að sjóðurinn verði gerður starfhæfari til að koma til móts við upphaflegan tilgang með því að hækka nokkuð til samræmis við breytt verðlag þau lágmarksákvæði um framlög sem þá voru sett. Það er rétt að geta þess líka, að í lögunum er gert ráð fyrir að sjóðnum sé heimilt að lána til endurbygginga og endurhóta kirkna 40%. Í framkvæmd hefur þetta orðið þannig, að í árslok 1978 hafði hann getað lánað til þessara framkvæmda aðeins 13.8%. Það segir sig sjálft, að hér er um ákaflega lítinn stuðning að ræða. En það hefur komið í ljós, að fjárveitingavaldið hefur verið ákaflega tregt til að veita aukið fjármagn til sjóðsins vegna þess að það er bundið í lögum að hann skuli lána vaxtalaus lán.

Samkv. fjárl. ársins 1979 er framlag í Kirkjubyggingasjóð á árinu 13.5 millj. kr. Það hefur að sjálfsögðu ekki verið fylgt því lágmarki sem í lögunum er, enda er þar talað um lágmarksupphæð, en þessi upphæð fyrir árið 1979 er samt töluvert lægri, eða 1.5 millj. kr. lægri en hún var í fjárl. fyrir árið 1978 og gengur þess vegna þróunin þar í öfuga átt við það sem ætla mætti.

Ég tel að það sé nokkuð til að koma til móts við þau sjónarmið sem ég nefndi, að í þessu frv. er fellt niður ákvæðið um að lánað skuli vaxtalaust, en að öðru leyti byggt á gildandi lagagreinum. Í staðinn er gert ráð fyrir að sjóðsstjórn setji sjóðnum starfsreglur og þar með innifalið að setja honum lánareglur sem hljóti samþykki kirkjumálaráðherra.

Í annan stað er gert ráð fyrir því, að breytt verði um varðandi stjórnarkjör. Biskup Íslands hverju sinni er formaður stjórnarinnar. Þegar lögin voru sett var Kirkjuþing ekki starfandi og höfðu ekki verið sett lög um það og gert ráð fyrir að Prestastefna tilnefndi tvo menn í sjóðsstjórn. Á Kirkjuþingi eiga hins vegar sæti bæði leikmenn og prestar og þess vegna ekki óeðlilegt að hvor aðilinn um sig tilnefni sinn fulltrúa, m. a. vegna þess að leikmenn þurfa ekki síður og jafnvel miklum mun fremur að takast á við þau vandamál sem fylgja því að reisa kirkjur í sínum söfnuðum. Þess vegna er í annan stað lagt til að þannig verði breytt til um varðandi stjórnarkjör.

Í þriðja lagi er breytt upphæðum varðandi það hámark sem má lána, en þeim upphæðum er breytt eingöngu í samræmi við þá lágmarksupphæð sem getið er um í frv. nú, þ. e. a. s. lágmark 35 millj. kr. á hverju ári.

Þá er og þess að geta, að miðað við þau viðhorf, sem hafa verið uppi að undanförnu, er gert ráð fyrir að lánatíminn styttist miðað við það sem verið hefur. Ætti það að vera liður í því að sjóðurinn geti byggt sig upp sjálfur og haft eitthvert eigið fé til ráðstöfunar til að mæta aðkallandi þörfum.

Mér er ljóst að þetta frv. kann að ganga dálítið þvert á þær umr. sem hafa verið á þessu þingi um að fella niður lögbundin sjóðatillög. Í því sambandi vil ég aðeins segja það, að hvað sem verður ofan á í því og hvernig sem framkvæmdin verður í framtíðinni varðandi það atriði, þá tel ég ekki að allar ákvarðanir um ákveðin framlög verði numdar úr lögum, heldur verði þar miðað við hið lögbundna framlag og það svo kannske lækkað, annaðhvort um ákveðna prósentu eða einhver ákveðin hlutföll, þó að þar frá yrðu e. t. v. gerð einhver frávik. Ég tel þess vegna þýðingarmikið að hér sé sett einhver ákveðin viðmiðun, það sé gengið út frá því, að þessi lágmarkstala verði endurskoðuð árlega, og það verði þá jafnframt gert með hliðsjón af byggingarvísitölu hverju sinni, en þessi sjóður síðan meðhöndlaður á svipaðan hátt og aðrir sjóðir. Þetta finnst mér ástæða til að taka sérstaklega fram.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til að tefja tímann með því að hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, sérstaklega af því að ég mun ekki hafa möguleika til að fylgja þessu máli eftir, að Alþ. fallist á að greiða götu þessa frv. gegnum þetta þing þannig að það nái lögfestingu fyrir vorið. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til allshn.