14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3259 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hv. 1. þm. Reykv. fyrir áhuga hans á vistunarmálum aldraðra, bæði nú og áður. Ég er mjög fylgjandi þessu frv. Í þessum málum hefur verið allt of mikið skipulagsleysi hjá okkur og of lengi. Út á venjulegar smáíbúðir fyrir aldraða kemur fullt lán frá Húsnæðismálastofnun. Út á íbúðir í vistheimilum fyrir aldraða kemur líka fullt lán frá Húsnæðismálastofnun. Út á vistheimili fyrir aldraða, sem er næsta stig eða þriðja stig, kemur ekkert lán, engin fyrirgreiðsla af einu eða neinu tagi frá ríkinu. Þetta hefur orðið til þess, að það hafa verið byggðar íbúðir í vistheimilum og það einnig fyrir fólk sem alls ekki getur gert neitt sjálft, getur ekki lagað kaffi eða gert nokkurn skapaðan hlut. Það eru sett upp eldhús til þess eins að komast inn undir reglur húsnæðismálastjórnar og er það alveg fráleitt. Vitanlega eiga svona íbúðir í vistheimilum fullan rétt á sér, en vistheimilin líka. Hin venjulegu vistheimill eiga það ekki síður. Þegar við komum að fjórða stiginu erum við komin upp í 85% beina þátttöku ríkissjóðs, og það er afskaplega mjótt bil milli vistheimila og hjúkrunarheimila og notuð reyndar sitt á hvað þannig að þarna er algert ósamræmi.

Hjá okkur er það þannig, að við höfum fleiri vistunarpláss fyrir aldrað fólk en nokkur önnur þjóð, sem ég þekki til, nema Grænland. Þó er oft á tíðum neyðarástand hjá okkur og þetta er að verulegu leyti vegna skipulagsleysis. Það vantar að samrýma þessa þætti alla. Það vantar samspil þarna á milli.

Að mínu mati verður ríkissjóður að gerast beinn eða óbeinn aðili að öllum þessum þáttum vistunarmála aldraðra með lánum eða beinum framlögum. Ég tel, að bein framlög til vistheimila aldraðra eigi að taka upp aftur. Þau voru í lögum 1972, ef ég man rétt, sett í lög og felld niður aftur, sem ég tel að hafi verið mjög til hins verra, þó ekki væri annað í huga haft heldur en að koma þarna á samræmi.

Ég vil líka geta þess um alla þessa fjóra þætti sem ég ræddi um, að það er ekki bara verið að hugsa um — þó að það sé auðvitað aðalatriðið — gott líf fyrir gamla fólkið, eins gott og það getur best orðið, heldur einnig það, að allir þessir þættir spara ríkissjóði sjálfum stórfé, vegna þess að þeir fresta því um mörg ár, oftast nær, að þetta fólk þurfi að fara á miklu dýrari stofnanir. Ég tel sem sagt að það eigi að ganga lengra en þetta frv. gerir ráð fyrir, en þó svo sé ekki gert, þá er það mjög til bóta og því lýsi ég fullum stuðningi mínum við frv.