15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

220. mál, könnun á stærð selastofnsins

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég skil þetta frv. þannig, að hér sé einungis um könnun að ræða til þess að meta hvaða áhrif íslenski selastofninn hefur á fiskveiðar Íslendinga og hvaða áhrif hann hefur í sambandi við vinnslukostnað og þá hugsanlega markaðsáhrif. Athuganir af þessu tagi hafa verið í gangi að undanförnu og hefur verið óskað eftir því af hálfu sjútvrn. að fá till. frá Hafrannsóknastofnuninni um það, með hvaða hætti mætti kanna stærð selastofnsins og þessi áhrif. Það hefur nýverið borist svar sem beinist að flestum þeim atriðum sem upp eru talin í till. Það eru hugmyndir um talningu á loftmyndum, um merkingar, um rannsóknir á aldursdreifingu og um rannsóknir á fæðuvali. Það eru enn fremur hugmyndir um að taka nokkuð stórt úrtak á afmörkuðu, staðbundnu svæði til þess að athuga hringormatíðnina og hvort staðbundin friðun af þessu tagi mundi hafa áhrif á fiskgengd og á hringormatíðni í fiski. Kostnaðaráætlanir fylgja með þessu svari frá Hafrannsóknastofnun upp á 12 millj. kr. Það er unnið að því á vegum sjútvrn. að athuga með fjáröflun til þessara rannsókna og í hve ríkum mæli í þær verði lagt. Varðandi ákvarðanatökuna sjálfa koma auðvitað fleiri sjónarmið til greina, eins og kom reyndar fram í ræðu frsm:, t. d. náttúruverndarsjónarmið. Á þessu stigi vildi ég upplýsa stöðu málsins að þessu leyti sem er sú, að till. liggja fyrir frá Hafrannsóknastofnun um könnun sem víkur að flestum þeim atriðum sem upp eru talin í þessari þáltill.