15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

220. mál, könnun á stærð selastofnsins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hlakkaði til þess að fá tæki færi til þess að ræða um selastofninn. Að vísu ætlaði ég að víkja dálítið að öðrum selum en þeim sem lifa sérstaklega í sjó. Ég ætlaði að tala um húðarseli og svo í bland um blöðruseli og syndaseli, alla þessa stofna. En úr því sem þessi merkilega till. var á þessum degi tekin fram yfir allar aðrar til umr., þá ætlaði ég að grípa tækifærið vegna þess að nú stendur alveg sérstaklega á hér á hinu háa Alþingi.

Nú eru loksins hættar að berast lausafregnir frá hæstv. ríkisstj. Nú hefur það sem sé komið á daginn að hún hefur klofnað um þann málaflokk, það höfuðmálefni sem hún var mynduð til þess að leysa, efnahagsmálin. Og þetta er um þingsköp af því sem ég álít að þessi málaflokkur ætti að ganga fyrir selastofninum. Og það er það sem ég er að setja út á, að það skyldi ekki vera fyrsta umræðuefni hér í dag, t. a. m. að hv. 1. þm. Austurl. færi með þær yfirlýsingar, sem hann gaf í gærkvöld í löngum yfirlýsingum í fjölmiðlum, og teldi að þær ættu erindi til hins háa Alþ. ekki síður en í fjölmiðla. Það er þetta sem ég er að setja út á, að í upphafi þessa fundar skyldi ekki vera farið með þessar undirstöðuyfirlýsingar sem fluttar voru fram í fjölmiðlum í gær. Og ég er að finna að því að hinu háa Alþ. sé sýnd lítilsvirðing með þessum hætti. Ég beini máli mínu til hv. 1. þm. Austurl. sérstaklega, þar sem hann lýsti yfir tvímælalausu vantrausti á hæstv. forsrh. ef þetta frv. sæi dagsins ljós. Ég skora nú á hann að koma og gera þessi mál að umtalsefni og gera hinu háa Alþ. grein fyrir afstöðu sinni, en láta ekki við það sitja að tala við misgóða blaðamenn eða fjölmiðlara úti um borg og bý.