15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það má telja það til merkisatburða, að nú í dag, 15. mars, hefur verið lagt á borð þm. frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl. frá forsrh. og mun það verða tekið til umr. í Ed. eftir helgi og skal ég því ekki fara efnislega í umr. um þetta frv., en hlýt þó að vekja athygli á þeim einstæða atburði þegar það á sér stað að forsrh. flytur frv., að vísu í embættisnafni, en í raun sem þm., vegna þess að samstaða hefur ekki náðst innan ríkisstj. um flutning þessa frv.

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að forsrh. og ríkisstj. sem auðnast ekki að ná samstöðu um flutning svo mikilvægs frv., sem þar að auki varðar aðalstefnumál stjórnarinnar, hljóti að eiga að segja af sér fyrir sína hönd og rn. síns. Ég vil líka láta þá skoðun í ljós, að þegar slíkt frv. er fram komið og þá ekki síst með þeim atvikum sem liggja að baki þessum frv.-flutningi, þá beri þeim ráðh., sem eru andvígir frv. og flutningi þess, að segja af sér, þ. e. a. s. ráðh. Alþb. En því kveð ég mér hljóðs að í hádegisútvarpinu í dag birtist yfirlýsing sem ráðh. Alþb. eiga að hafa gefið á ríkisstjórnarfundi í morgun, þess efnis, að þeir muni þá fyrst segja af sér ef þetta frv. verður samþ. óbreytt.

Þá er rétt að það komi fram sem gagnrýni á alla þá ráðh., sem hér hafa verið að gefa yfirlýsingar í fjölmiðlum, að æskilegra, eðlilegra og þingræðislegra væri að slíkar yfirlýsingar væru gefnar hér á hv. Alþ. Það er líka ámælisverður þáttur ríkisfjölmiðlanna í fréttaflutningi varðandi deilurnar innan ríkisstj., þar sem deiluaðilum er gefinn kostur á að breiða sig út. Við stjórnarandstöðuna er takmarkað talað, en mér sýnist líka vera gert upp á milli þátttakenda í deilum ríkisstjórnarflokkanna innbyrðis og ólíkum tíma skammtað þeirra á milli.

Það er með eindæmum að slíkar yfirlýsingar sem dunið hafa yfir landslýð skuli heyrast frá ábyrgum stjórnvöldum, og sú ályktun ein verður af þeim dregin að engin ábyrg stjórnvöld séu raunar að starfi hér fyrir okkur Íslendinga. Það er að vísu gott að inn á Alþ. færist umr. þessi mál. En ég gat ekki orða bundist, þar sem ég hygg að það gangi fram af landsmönnum öllum hvernig þessar yfirlýsingar hafa skipst á milli ráðh. og stjórnarflokka um hótanir á víxl, sem er auðvitað fyrir neðan virðingu ráðh. og ríkisstj.

Ég skal láta mér nægja, herra forseti, að fjalla um formlega hlið þessa máls, sem þó hefur efnislegt gildi um leið, og ég ítreka þá skoðun mína, að þetta sé svo óvanaleg málsmeðferð og raunar óeðlileg málsmeðferð að ekki verði látið hjá líða að gagnrýna hana harðlega úr ræðustól Alþingis, til þess einnig að fá fram hér í sölum Alþingis þær yfirlýsingar, þótt seint sé, sem fram hafa komið á almennum vettvangi, m. a. í ríkisfjölmiðlunum. Það er svo ástæða til að spyrja, hæstv. forsrh. hvernig hann hyggst standa að flutningi þessa frv. og — að gefnu tilefni spurningar þeirra Alþb.-ráðh. — hvort hann hyggst standa að þeim breytingum á því frv. sem hann hér flytur, svo að hótun þeirra Alþb.-ráðh. komi ekki til framkvæmda.

Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða af ásettu ráði, að frv. þetta er flutt 15. mars, á banadægri Sesars. Og þá er spurningin: Hver er Brútus?