15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3270 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að vera með miklar yfirlýsingar á þessu stigi. Ég mun mæla fyrir þessu frv. á mánudaginn kemur væntanlega, og þá gefst mér kostur á að skýra þetta mál og málsmeðferð eftir því sem á þarf að halda.

Ég held að ég hafi gert skyldu mína með því að leggja málið fyrir Alþingi. Alþingi er nú einu sinni löggjafarsamkoma Íslendinga og einhverju hlutverki á það að sinna, og það að mál er lagt fyrir það þýðir auðvitað ekki að það eigi að fara í gegn óbreytt, heldur er það lagt fram í því skyni að alþm. og þær nefndir, sem fá það til meðferðar, skoði það samviskusamlega og fái sem bestar upplýsingar um það og reisi síðan sinn dóm, sína niðurstöðu á því. Það verður væntanlega gert í þessu máli. Við skulum taka þessu öllu rólega í svipinn og sjá til hverju fram vindur.

Það má segja, að það sé ekki hversdagslegt, að einstakur ráðh. leggi fram frv. í sínu nafni. Sé hann þm. hefur hann auðvitað sinn þingmannsrétt. Það er alltaf rétt, eins og einhver sagði, að hafa vaðið fyrir neðan sig. Þess vegna legg ég nú frv. fram í Ed., af því að ég á nú sæti þar, og væntanlega verður ekki dregið í efa að ég hafi heimild til þess að leggja fram frv. í Ed. ef mér býður svo við að horfa.

Ég kann ekki við að fara að gera grein fyrir þessu máli nú, áður en það er tekið til umr. með reglulegum hætti og þm. hafa fengið tækifæri til þess að lesa ekki aðeins frv. sjálft, texta þess, heldur og grg. En þá verður tækifæri til þess að skoða þetta nánar.

Ég vil þó segja það, að ég tel á engan hátt óeðlilegt, og mun endurtaka það í framsöguræðu minni í Ed., þó að Alþ. kunni að telja ástæðu til að gera einhverjar breytingar á þessu frv. Þetta frv. hefur verið lengi til meðferðar í ríkisstj. og það hefur tekið ýmsum breytingum þar, og í þessu frv. er fjallað um efni sem á margan hátt er álitamál. Þess vegna mun ég ekki kippa mér neitt upp við það þó að kunni að verða gerðar einhverjar breytingar á því. En áður en menn gera þær breytingar verða menn að gera það upp við sig að hvaða marki þeir keppa, hverju þeir ætla að ná.

Áð öðru leyti vil ég svo bara segja það í tilefni af ummælum síðasta hv. ræðumanns, að ég mun að sjálfsögðu beygja mig algerlega fyrir þingviljanum, og um leið og Alþingi vottar mér vantraust og ríkisstj., sem nú situr, mun ég segja samstundis af mér, en fyrr ekki.