15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

Umræður utan dagskrár

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu halda mig innan ramma þingskapa í þessari umr. og ég hef fulla biðlund til þess að bíða eftir því að frv. það, sem hér er til umr., fái þinglega meðferð eins og önnur frv. sem hér eru flutt. En það, sem vekur nokkra furðu mína, er að undanfarið hefur það verulega verið gagnrýnt að Alþ. hafi ekki fengið tækifæri til þess að fjalla um efnahagsmál. Nú þegar Alþ. er gefinn kostur á því með flutningi viðamikils frv., þá er það líka gagnrýnt. Þessa afstöðu fæ ég ekki skilið með góðu móti.

Hv. alþm. verða að hafa það í huga, að ríkisstj. er ekki sá aðili í þjóðfélaginu sem ræður úrslitum um meðferð mála, heldur Alþ. sjálft. Ríkisstj. situr í umboði okkar sem hér sitjum, og mér finnst fullkomlega eðlilegt að Alþ. fái nú þetta mál til eðlilegrar meðferðar og að umræðum utan dagskrár verði a. m. k. stillt í hóf þegar 30 mál eru á dagskrá og fundartími auk þess nokkuð takmarkaður.