15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal halda mig innan þeirra marka að fara ekki að ræða efnislega frv. um stjórn efnahagsmála sem lagt er fyrir Ed. af forsrh. En ég vil taka það fram, að frá því að fundur hófst kl. 2 hef ég þrisvar sinnum beðið um orðið, í fyrsta skipti út af till. til þál. um könnun á stærð íslenska selastofnsins og áhrifum hans á fiskveiðar og vinnslu sjávarafla. Hæstv. forseti gaf þá skýringu, að flm. þessarar ágætu selatillögu hafi þurft að ljúka sér af vegna þess að hann er að hverfa af þingi, og er það ekki nýr háttur í störfum Alþ. að mál varamanna sem koma skamman tíma, séu tekin fram fyrir önnur, og það dettur mér ekki í hug að gagnrýna. Það, sem ég gagnrýni, er að hæstv. forseti tók einn þm., þó að hann sé ráðh., og gaf honum orðið á undan. Er ráðh. að fara burt af þingi? Er hann að hverfa héðan? (Gripið fram í: Á skíði.) Kannske það sé önnur skíðaferð.

Það var hlegið að því þegar hæstv. forseti tók þetta mál til umr. og gaf flm. þessarar till. orðið hér í þingsalnum. Að vísu er engin ástæða til þess að hlæja að því, því að hér er verið að hreyfa máli sem skiptir mjög miklu efnahagslega fyrir íslensku þjóðina, þó að margt sé um það mál að segja. (StJ: Er þm. að ræða um frv. forsrh. eða önnur frv.?) Vill ekki hv. þm. hafa örlitla biðlund? Hann er það skarpur maður, að hann kemst þá að niðurstöðu sjálfur án þess að grípa fram í. Þegar þetta mál var tekið fyrir, þó að það sé alvarlegt, hló þingheimur, af því allir bjuggust við að hér yrðu teknar fyrir til umr. þær yfirlýsingar sem forustumenn stjórnmálaflokka hafa verið að gefa í ríkisfjölmiðlum og í samtölum við dagblöðin. Þess vegna var hlegið. Þó að till. hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar fjalli um ýmsar tegundir sela, þá söknuðu menn þess, að þar var hvergi minnst á þá syndaseli sem hafa verið að leika sér að málum undanfarna mánuði í sambandi við efnahagsmál. Og það var þetta sem menn bjuggust við að fá umr. um og yfirlýsingar. Ég er þó þakklátur hæstv. viðskrh. fyrir að hafa þó manndóm í sér til þess að koma upp í ræðustólinn og skýra fyrir Alþ. þann ágreining og þá bókun sem ráðh. Alþb. hafa gert í ríkisstj. Ég tel það manndómsmerki.

Ég ætla að taka undir þau orð hv. 4. þm. Reykv., formanns Sjálfstfl., Geirs Hallgrímssonar, að mér finnst alveg furðulegt framferði ríkisfjölmiðla í þessu landi. Hér eru ströng ákvæði í þingsköpum um útvarpsumr. á Alþ. Umræðutíma er skipt hnífjafnt á milli stjórnmálaflokka. En á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum leita ríkisfjölmiðlar til ákveðinna manna og flokka og gefa þeim rúm í sínum tíma, en ganga fram hjá ýmsu öðru, sem aðrir segja. Það hefur aldrei verið jafnsvívirðilega gengið á rétt stjórnarandstöðu og nú á þessum vetri. Þetta er alveg óhætt að gagnrýna og lýsa yfir að slík fréttamennska hjá ríkisfjölmiðlum er algerlega óhafandi. Oft þegar skýrt er frá þingmálum, þá er það hvað eftir annað gert af mikilli hlutdrægni, að ég segi ekki oft og tíðum mjög illa þar að auki.

Hæstv. forsrh. sagði áðan eina mjög spaklega setningu. Hann sagði að einhverju hlutverki eigi Alþ. að gegna. Það hefur sennilega komið við nokkuð marga, að hæstv. forsrh. sé nú kominn á þá skoðun að Alþ. eigi að lokum einhverju hlutverki að gegna og því hafi hann nú flutt frv. um stjórn efnahagsmála o. fl., því að oft hefur verið kvartað undan því á undanförnum árum og áratugum að ríkisstjórnir hafi lítilsvirt Alþ. En ég held að aldrei hafi nokkur ríkisstj. lítilsvirt Alþ. meira en núv. hæstv. ríkisstj., því að hún hefur talið það heilaga skyldu sína að hafa samstarf við alla aðra en sjálft Alþ. til lausnar málum, en að lokum hefur hún neyðst til að leggja frv. fyrir Alþ. Þetta eru nýir siðir. Það hefur aldrei fyrr í sögu þjóðarinnar verið fyrst flutt frv. í dagblaði og síðan lagt fyrir ýmis hagsmunasamtök fyrr en nú á þessum vetri. Og það er að vissu leyti ánægjulegt til þess að vita, að loksins hefur hið langþráða frv. um stjórn efnahagsmála verið lagt fram á Alþingi Íslendinga í dag, 15. mars, á dánardegi Sesars, rétt áður en þm. fara til þingveislu.

Hæstv. forsrh. sagðist ætla að segja að sér ef vantrauststill. verði samþykkt. Ég get nú ekki verið sérstaklega að þakka honum það, þó að hann ætli að segja af sér og virða samþykkt Alþingis ef Alþ. samþykkir vantraust á hann eða hæstv. ríkisstj. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að ljúka lofsorði á lýðræðisást hæstv. forsrh. þótt hann gerði það. Hann sagðist líka hafa rétt og eiga sinn þingmannsrétt til þess að leggja fram frv. sitt í Ed. Það dregur ekki nokkur maður í efa. En sem forsrh. leggur hann fram þetta frv. og hefði ekki farið að mörgu leyti betur og verið að mörgu leyti stórmannlegra að leggja þetta frv. um stjórn efnahagsmála, sem er nú jafnviðamikið og það er, fram í Nd. Alþingis af eftirgreindum ástæðum? Í Nd. Alþ. eru bæði formaður stjórnarandstöðuflokksins og formaður þingflokks stjórnarandstöðuflokksins. Í Nd. á enn fremur sæti formaður Alþfl., sem er bræðraflokkur að þessu frv., og formaður þingflokks Alþfl., enn fremur formaður Alþb., sem jafnframt er formaður þingflokks Alþb., og í síðasta lagi formaður þingflokks Framsfl. — þó að ég dragi ekki í efa að hæstv. forsrh. geti talað fyrir þá báða í Ed. Þetta hefði mér fundist vera eðlilegra. En hitt er alveg rétt, að hvorki ég né aðrir þm. geta sagt hæstv. forsrh. Ólafi Jóhannessyni fyrir verkum í þessum efnum. Hann sagði það alveg réttilega, að hann ætti þennan rétt, og það telur enginn neitt vafamál að hann hafi.

Það, sem hér er gagnrýnt, er ekki það, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði, að frv. þetta væri lagt fram, en það er vafalaust á misskilningi byggt hjá hv. þm. Það hygg ég að enginn þm. geri, jafnvel þó fyrr hefði verið. En það, sem hér er verið að gagnrýna, er að setið hefur að völdum ríkisstj. í þessu landi sem mynduð var 1. sept. á s. l. hausti, og hún setti sér það markmið að vinna að því að kveða niður verðbólguna með mjög eftirminnijegum hætti og í nánu samstarfi og samvinnu við launþegasamtökin í landinu og þá alveg sérstaklega við verkalýðshreyfinguna. Það hefur margoft verið endurtekið hér það sem af er þessu þingi, að þessi ríkisstj. ætlaði ekki að taka neinar veigamiklar ákvarðanir nema í samráði við launþegahreyfinguna í landinu. En nú er svo komið að a. m. k. hluti launþegahreyfingarinnar er upp á kant við hæstv. ríkisstj., og það, sem er meira áberandi, er að þeir þrír flokkar, sem til þessa dags hafa staðið að þessari ríkisstj., hafa verið að rembast eins og rjúpan við staurinn að framleiða þetta efnahagsfrv. og það hefur ekki tekist með betri hætti en svo, að forsrh. sér sig að lokum til knúinn að leggja frv. fram í eigin nafni sem forsrh. og vitandi að ráðh. eins stjórnarflokksins, ráðh. Alþb., lýsa því yfir og hafa mótmælt því, að þetta frv. sé lagt fram. Þetta hlýtur að sýna það og sanna, ekki fyrir þm. einum, heldur allri þjóðinni, að sú ríkisstj., sem mynduð var 1. sept. á s. l. hausti, er ófær um að leysa nokkurn vanda. Það er rifrildi þar upp á hvern dag, bæði fyrir luktum dyrum og opnum tjöldum, allt frá því að ríkisstj. var mynduð. Og það er ekki að sjá að það sé neinnar breytingar að vænta til batnaðar, heldur er nú að loga upp úr og þessi stjórn á því ekki neinna annarra kosta völ en að lýsa því yfir við þjóðina að henni hafi ekki tekist að stjórna þessu landi, hún hafi ekki náð samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut, þrátt fyrir að ráðh. þessarar ríkisstj., þegar þeir hafa verið spurðir allt fram á síðustu daga hvernig þeim lítist á framtíðina og lausn þessara mála, hafi brosað mjög breitt og sagt að þeir væru mjög bjartsýnir. Nú virðist bjartsýni þeirra vera algerlega horfin, og ég minnist sérstaklega eins, sjónvarpsþáttar þar sem Ólafur Ragnar Grímsson og Sighvatur Björgvinsson, sem enn á að heita samherji hans, lýstu yfir af mikilli bjartsýni að þeir mundu leysa þennan vanda alveg á næstunni og núv. ríkisstj. væri alveg óhrædd um að mjög gott samkomulag væri fyrir hendi til lausnar þeim erfiðu vandamálum, sem fram undan væru.