15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3278 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fréttamenn ríkisfjölmiðla geta að sjálfsögðu ekki farið hingað upp í ræðustól til að bera af sér sakir sem á þá eru bornar af þm.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að sér hefði verið skýrt frá því á fréttastofu Ríkisútvarpsins, að þm. úr Alþfl. hefði gefið fréttastofu upp fregnir um samkomulag í ríkisstj. um framlagningu efnahagsfrv. þess sem hér er til umr., en verið tekið fram, að þm. Alþfl., þessi ótilgreindi, hefði neitað fréttastofunni um heimild til þess að láta þess getið hver hann væri. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi, eftir þráföld framíköll, hver þessi fréttamaður væri, það væri Gunnar Eyþórsson fréttamaður. Því miður getur fréttamaðurinn að sjálfsögðu ekki, frekar en aðrir þeir sem ekki eru kjörnir á Alþ., borið hönd fyrir höfuð sér.

Ég hringdi hins vegar til fréttastofu Ríkisútvarpsins um leið og hv. 3. landsk. þm. hafði borið þessa ásökun fram. Ég náði sambandi við Gunnar Eyþórsson og óskaði eftir því, að hann kæmi niður í Alþingishús til viðræðna við hv. 3. landsk. þm., svo að hv. 3. landsk. þm. yrði ljóst að það, sem ég hef eftir fréttamanninum, er rétt. Fréttamaðurinn segist aldrei hafa nefnt það við Ólaf Ragnar Grímsson eða nokkurn annan mann, að heimildarmaður að frétt þeirri, sem Ríkisútvarpið flutti, hafi verið alþm., aldrei að Alþfl. hefði komið þar við sögu og hvorki nefnt aukateknu orði í viðræðum við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson nafn Alþfl.þm. úr einum eða öðrum flokki né látið þess getið að þm. úr einum eða öðrum flokki hefði átt hlut að máli.

Ég tek það aftur fram, að ég óskaði eftir því við fréttamanninn að hann kæmi niður í þinghús svo að hv. 3. landsk. þm. gæti rætt við hann beint og fengið staðfest að það, sem ég hef eftir fréttamanninum, er satt og rétt. Fréttamaðurinn er nú á leiðinni niður í þinghúsið, ef hann er ekki kominn.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fara frekari orðum um þetta, en ég vil enn taká það fram, að það þykir ekki tilhlýðilegur málflutningur, og hefur ekki þótt hingað til, að nafnkenndir menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, séu bornir sökum með þessum hætti úr ræðustól á Alþ., þegar það er ljóst, eftir því sem þeir sjálfir segja, að þar er farið rangt með og þeim lögð í munn orð og skoðanir sem þeir hafa aldrei haft. Ég held að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson væri maður að meiri ef hann ræddi sjálfur við fréttamanninn hér í Alþingishúsinu, þegar hann kemur, áður en hann hleypur upp í ræðustól til þess í annað sinn að bera saklausum manni óhróður á brýn.

Ég vil svo aðeins nefna það í lokin, að í 7. gr. reglna um fréttaflutning Ríkisútvarpsins stendur svo, með leyfi forseta:

„Við birtingu frétta af deilum, svo sem vinnudeilum eða víðtækum ágreiningsmálum, skal leita upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“

Þetta tel ég, hæstv. forseti, að ekki hafi verið gert t. d. í fréttatímum útvarps og sjónvarps í gær. Ég kem ekki þar með neinar ásakanir á einn eða neinn fyrir vísvitandi misferli í starfi, síður en svo. Ég segi aðeins að hér sé um mistök að ræða.

Ég sagði einnig að ég ætlaði ekki né við Alþfl.-menn að svara í sömu mynt þeim árásum sem þar voru á okkur gerðar. Ég ætla ekki að gera það hér. Ég ætla ekki að gera það á öðrum vettvangi. Ég held að núna sé margt þarfara að gera hér á Alþingi Íslendinga en að standa í slíkum skattyrðum.

En ég tek það fram enn og aftur, að ég skora á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að vera sá maður að ræða við fréttamanninn sem hann hafði fyrir þessum ósönnu fullyrðingum úr ræðustól, áður en hann hleypur upp í ræðustólinn enn til að halda áfram að bera saklausan mann ósannindum af þessu tagi.