15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3280 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mín aths. skal vera örstutt. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær sérkennilegu deilur sem hér hafa farið fram milli tveggja hv. þm. stjórnarflokkanna. Þær segja sína sögu um málflutningsaðferðir og þær segja sína sögu um hug eins stjórnarflokks til annars. Við höfum um það mörg dæmi.

Það, sem ég ætlaði að gera aths. við, herra forseti, var ræða og raunar báðar ræður hv. 9. þm. Reykv. Hv. 9. þm. Reykv. sagði að ríkisstj. hefði verið gagnrýnd fyrir að leggja ekki fram frv. um efnahagsmál, og það er rétt. Hv. 9. þm. Reykv. sagði að hæstv. forsrh. væri gagnrýndur fyrir að leggja fram frv. um efnahagsmál, og það er líka rétt. En það er ekki stjórnarandstaðan sem gagnrýnir hæstv. forsrh. fyrir að leggja fram frv. Ég leyfi mér að segja sem einn þm. stjórnarandstöðunnar, að ég virði það við hæstv. forsrh. að hann leggur fram frv., þó um síðir sé.

Ég held að skoðun allra þm. Sjálfstfl. sé á þann veg, að við hugsum: Þetta hefði mátt gerast fyrr. — En þeir, sem gagnrýna hæstv. forsrh. fyrir að leggja fram frv. um efnahagsmál, eru Alþýðubandalagsráðh., eins og fram kom í bókun þeirra í ríkisstj. Það eru sem sagt þátttakendur í ríkisstj. sem gagnrýna að frv. um efnahagsmál skuli vera lagt fram á Alþ. Hæstv. ráðh. Alþb. vilja m. ö. o. halda áfram umfjöllun um efnahagsmálin utan Alþingis. Þeir telja óskynsamlegt að fjalla um málin á Alþ. og gagnrýna með hörðum orðum hæstv. forsrh., bæði í bókun á ríkisstjórnarfundi, sem lesin er upp í fjölmiðlum, og í ræðu viðskrh. hér á Alþ., þegar upplestur hennar var endurtekinn með hans aths. Þeir gagnrýna sjálfan forsrh. landsins fyrir að reyna þó að gegna þeirri skyldu sinni að leggja með formlegum hætti fram á Alþ. efnahagsmálafrv., sem ríkisstj. hefur að vísu misheppnast að kokka saman. Auðvitað varð að reyna að leggja fram málið. Við gagnrýnum það ekki. Okkur finnst sjálfsagt að málið sé lagt fram, en jafnsjálfsagt finnst okkur að ríkisstj. reyni að haga sér með þingræðislegum hætti.

Við lesum á forsíðu Alþýðublaðsins í dag, að ríkisstj. sé að vísu ekki fallin, en hún sé klofin. Ég veit ekki í hve marga hluta ríkisstj. er klofin, en á næstu dögum kemur í ljós hvaða hluti af ríkisstj. það er sem stjórnar. E. t. v. verður það innan tíðar enginn.

Ég ítreka það, herra forseti, að erindi mitt í ræðustól var einungis að vekja athygli á því, að það var ekki stjórnarandstaðan sem gagnrýndi það að frv. um efnahagsmál væri loksins lagt fyrir Alþ., heldur voru það sjálfir ráðh. úr einum stjórnarflokknum, Alþb.