15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

78. mál, smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes

Félmrh. (Magnús H. Magnósson):

Herra forseti. Ég lýsi fullum stuðningi við þá þáltill., sem hér er til umr., og tek undir rökstuðning þann sem í grg. till. felst. Við hann vil ég þó bæta nokkru.

Það vita allir að þéttbýliskjarnar verða ekki síst eftir að olían hefur hækkað svo mikið sem raun ber vitni að leita leiða til upphitunar húsa með hitaveitu. Þessir staðir, Eyrarbakki og Stokkseyri, munu örugglega gera það eins og aðrir staðir. Þar koma tveir möguleikar til greina: annars vegar að fá vatn frá Selfossi og hins vegar að fá vatn úr Ölfusi. Á Selfossi er ekki vitað hvort vatn er nægilegt fyrir Selfoss, hvað þá meira. Aftur á móti er vitað að það er yfirdrifið vatn í Ölfusinu. Auk þess er mun ódýrara að leggja hitaveituna þaðan. En það er ekki hægt að gera nema brúin komi.

Ég tel, eins og fram hefur komið hjá flm. og hv. 1. þm. Suðurl., að framtíð þessara byggðarlaga, Eyrarbakka og Stokkseyrar, og reyndar fleiri byggðarlaga þarna í grenndinni, sé öðru fremur undir því komin að þessi brú verði byggð og það sem fyrst. Brtt. hv. 1. þm. Suðurl. gengur nokkuð lengra en þáltill. Því styð ég hana.