15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

78. mál, smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes

Jón Helgason:

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umr., að mál þetta er sameiginlegt áhugamál allra þm. Suðurl. og Sunnlendinga yfirleitt.

Það er rétt, sem kom fram í máli hv. 1. þm. Suðurl., að þegar hefur nokkuð verið unnið að athugunum og undirbúningi að þessu máli. Það kom einnig fram í máli hans, að stærsta fjárveitingin, sem sérstaklega hefur verið ákveðin til undirbúnings að brúargerðinni, var veitt á árinu 1975. En eitt mikilvægasta skrefið í þessu máli held ég þó að hafi verið yfirlýsing fyrrv. samgrh. Halldórs E. Sigurðssonar um það, að hann teldi að rétt væri að brúin yfir Ölfusá væri næsta stórframkvæmdin í brúarmálum þegar Borgarfjarðarbrúnni væri lokið. Þessa yfirlýsingu ítrekaði hann. Og ég held að það væri ótvírætt ákaflega mikils virði ef núv. hæstv. samgrh. treysti sér til að gefa slíka yfirlýsingu.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál nú, en vænti þess að samstaða verði hér á Alþ. um að hrinda þessu brýna hagsmunamáli í framkvæmd sem allra fyrst.