19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir til umr., finnst mér ekki úr vegi að rifja nokkuð upp það ástand, sem ríkti hjá okkur fyrir rúmu ári, nánar tiltekið þegar hér á hinu háa Alþingi voru afgreiddar svokallaðar efnahagsráðstafanir, sem fólust í samþykkt lagasetningar um þau efni í febr. 1978. Undanfari þeirrar lagasetningar var skipun svokallaðrar verðbólgunefndar, sem skipuð var haustið 1977 fyrir tilstuðlan þáv. forsrh., Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstfl. Fyrrgreind nefnd var skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúum allra launþegasamtaka landsins, hvar í stétt sem þeir stóðu, og mun sjaldan hafa verið haft af ríkisvaldsins hálfu samband við aðila vinnumarkaðarins af meiri trúnaði og einlægni en fólst í störfum fyrrgreindrar verðbólgunefndar. — Á þessar staðreyndir minnist ég hér vegna þess að í kosningabaráttunni sumarið 1978 var margstaðhæft af andstæðingum Sjálfstfl. að „ekkert samráð“ hefði verið haft við launþegasamtökin um febrúarlögin eins og þeir orðuðu það.

Ljóst er af skýrslu verðbólgunefndar að vandamálið, sem við var að etja, duldist engum. Af óteljandi yfirlýsingum ráðamanna allra stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, jafnt launþega sem vinnuveitenda, lá fyrir skýlaus yfirlýsing allra þessara aðila um að verðbólgan í þjóðfélaginu væri höfuðóvinur þess. Eðlilegur rekstur atvinnuvega þjóðarinnar og þar með talið atvinnuöryggi almennings væri í bráðri hættu, ef ekki væru gerðar án tafar nauðsynlegar öryggisráðstafanir. Þrátt fyrir þessar samhljóða yfirlýsingar hinna mörgu hagsmunaaðila var þó sá ljóður á, að ekki tókst að skapa almenna samstöðu þessara aðila um nauðsynlegar og réttlátar varnaraðgerðir í þessum vandasömu málum. Enginn vafi er á því, að þar gætti tilhneiginga svokallaðra verkalýðsflokka til þess að misnota aðstöðu sína hjá launþegasamtökunum þessum flokkum til pólitísks ávinnings.

Eftir að margítrekaðar tilraunir af hálfu stjórnvalda til að skapa almenna samstöðu um nauðsynlegar viðnámsaðgerðir gegn verðbólguvandanum milli stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins höfðu reynst árangurslausar stóðu mál þannig hjá þjóðinni að það hlaut að falla í hlut stjórnvalda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til björgunar. Þegar svo er komið hjá einu þjóðfélagi, að krónuhækkun kaups um 60–70% milli ára gefur ekki nema 8–10% kaupmáttaraukningu, en veldur hins vegar óstöðvandi verðbólguhraða, sjá allir viti bornir menn að stefnt er í hreina ófæru sem getur ekki endað nema á einn veg, að gjaldmiðillinn lætur undan, krónan minnkar stöðugt og endalokin verða allsherjar efnahagslegt hrun.

Með efnahagsráðstöfunum þeim, sem samþ. voru á Alþ. í febr. 1978, var reynt að takast á við þessi mál af djörfung og festu. Til hins ítrasta var þess freistað að þeir, sem breiðust hefðu bökin, bæru þyngstu byrðarnar, og hinum, sem minni máttar voru, var hlíft eftir því sem unnt var, þó að um leið væri viðurkennd sú staðreynd að ef umtalsverður árangur á að nást í baráttunni við hinn sameiginlega óvin þjóðarinnar, verðbólguna, sem ekki hvað síst var afleiðing af óstjórn vinstri stjórnarinnar sem sat hér að völdum 1971–1973, verða allir að fórna einhverju, hjá því verður ekki komist.

Strax og ráðstafanir ríkisstjórnarflokkanna tóku gildi hófust gegn þeim hatrammar og hömlulausar mótmælaaðgerðir, pólitísk öfl, sem því miður eiga allt of mikil ítök í samtökum launþega, sáu sér leik á borði til að rangtúlka, afflytja og bera fram alls konar villandi upplýsingar um efnahagsaðgerðir stjórnarflokkanna. Tókst andstæðingum þáv. ríkisstjórnarflokka á þann veg að villa almenningi svo sýn að þessum lífsnauðsynlegu viðnámsaðgerðum stjórnvalda til bjargar efnahagslífi þjóðarinnar allrar var mætt með slíkum mótmæla- og lögbrotaaðgerðum að slíks ofstækis eru fá dæmi, þó að af mörgu slíku sé að taka hjá okkur í þessum málum á liðnum árum. Einnig skal á það bent, að aldrei fyrr munu stjórnmálaflokkar hafa misnotað aðstöðu sína í launþegasamtökunum af jafnmikilli fólsku og gerræði og viðhaft var strax við gildistöku febrúarlaganna. Nægir í því sambandi að benda á yfirgripsmikil ólögleg skyndiverkföll, sem hófust strax um mánaðamótin febr.-mars, víðtækt útflutningsbann á allar helstu útflutningsafurðir landsmanna og innflutningsbannið á olíu. Með þessum gerræðislegu ráðstöfunum, sem áttu eftir að hafa í för með sér stórkostlegt fjárhagslegt tjón fyrir þjóðina í heild, var beinlínis gerð tilraun til þess að skera á lífæð þjóðarinnar, slíkt var ofstækið og það allt af pólitískum uppruna.

Það er mál manna, að mjög hafi verið líkt á með þeim Alþb.- og Alþfl.-mönnum komið um skömm og heiður í sambandi við allt það gerningaveður sem þessir flokkar skópu í sambandi við efnahagsmálin, enda uppskera þessara flokka af hinni miklu formyrkvunar- og gerningastarfsemi, sem þeir viðhöfðu, allsvipuð, þó að fengur Alþfl. af þessari þokkaiðju hafi verið eitthvað ríflegri. Eftir stendur sú staðreynd, að aldrei mun í íslensku þjóðlífi hafa tekist að blekkja jafnmarga á jafnskömmum tíma þegar um almennar kosningar hefur verið að ræða, eins og þessum flokkum tókst í kosningunum 1978.

Ég hef talið rétt að rifja þessi mál upp allnákvæmlega með hliðsjón af þeirri fullyrðingu núv. stjórnarflokka, sem sýknt og heilagt eru að halda því fram að allar aðgerðir núverandi valdhafa byggist fyrst og fremst á svokölluðu nánu samráði við launþegasamtök landsmanna. Slíkt eru hin mestu öfugmæli. Það er fyrir löngu komið í ljós að slíkt samráð er hjóm eitt sem ekki byggist á neinu raunverulegu samráði eða samstarfi við launþegahreyfinguna í heild, eins og glögglega hefur komið fram hjá hæstv. forsrh., heldur er aðeins nú sem fyrr megináherslan lögð á það hjá stjórnarflokkunum, og á það alveg sérstaklega við um Alþb. og Alþfl., að halda pólitískri aðstöðu innan launþegasamtakanna. Það er aðalatriðið. Afkoma, hagsmunir allra hinna fjölmennu launþega, hinna ýmsu launþegasamtaka, skipta hér litlu máli. Höfuðmálið er pólitískur ávinningur þessara flokka hverju sinni, þó að slíkur ávinningur náist með blekkingum einum.

Lítið hefur orðið úr loforðum núv. stjórnarflokkanna um „samningana í gildi“. Enn er við lýði hið svokallaða kauprán þeirra og kjaraskerðing. Hins vegar hefur bæst við stórkostleg hækkun almennra skatta, innflutningsgjöld hafa verið stórhækkuð og veruleg gengislækkun framkvæmd. Hliðarráðstafanir telja stjórnarflokkarnir sig hafa gert til þess að láta líta svo út að þeir hafi ekki svikið öll fögru loforðin sem þeir gáfu fyrir kosningarnar. En svo óskiljanlegar og vandreiknaðar eru þessar aðgerðir, hvort heldur er á sviði efnahagsmála eða svokallaðra félagslegra úrbóta, að einn af varaþm. Framsfl., sem hefur mikla þekkingu til að bera á sviði efnahagsmála, hefur haft um þessar ráðstafanir eitt orð, sem honum fannst lýsa ráðstöfunum þessum skýrast, en það er orðið „sullumall“. Er það almennt mál manna að þar hafi umræddur aðili mjög vel hitt naglann á höfuðið.

Skjalfastar sannanir liggja hins vegar fyrir um það, að hefði febrúarráðstöfununum svokölluðu verið mætt — þó ekki hefði verið nema með hlutleysi, að maður tali ekki um með velvild og skilningi hlutaðeigandi aðila vinnumarkaðarins, væri kaupmáttur launa svipaður og hann nú er. Þá hefði ekki þurft — og ég bið hlustendur að taka vel eftir því — að gera þær gífurlegu skatthækkanir og jafnstórfellda gengislækkun og framkvæmdar voru af núv. stjórnvöldum — og það sem kannske er hvað þýðingarmest, að væntanlega hefði fullur jöfnuður — ég endurtek: fullur jöfnuður náðst í ríkisfjármálunum. En eins og öllum er kunnugt vantar milljarðatugi á núgildandi fjárlög til þess að greiðslujöfnuði verði náð og það þrátt fyrir gífurlega aukna skattbyrði á einstaklinga og fyrirtæki. Staðreyndin er einnig sú, að ýmsar ríkisstofnanir skortir marga milljarða til þess að þær geti staðið undir rekstri eins og hann hefur verið ákveðinn af núv. stjórnvöldum, en með því móti er kaupgjaldsvísitölunni haldið niðri og kaupmáttarstigi almennings haldið uppi á reikningslega fölskum forsendum. Hér fer ríkisstj. nákvæmlega að eins og fyrri vinstri stjórnir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að fjölyrða um einstaka kafla og greinar þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr. Hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Reykv. hafa í ræðum þeim, sem fluttar hafa verið á undan, gert frv. greinargóð skil.

Um frv. í heild má segja, að það markist fyrst og fremst af margvíslegum mismunandi sjónarmiðum. En við lestur þess verður maður þess greinilega var, að markmið frv. er umfram allt að þjóna þeim tilgangi að reyna að halda saman þeim sundurlyndu flokkum sem nú standa að stjórn landsins og, að því er best verður séð, eiga það nú eitt sameiginlegt að hanga í ráðherrastólunum svo lengi sem unnt er. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir, að umræddir flokkar hafa gersamlega misst tök á því að stjórna málefnum þjóðarinnar á þann veg að atvinnuvegir þjóðarinnar megi þróast og starfa með eðlilegum hætti.

Öll er stefna frv. óljós, hikandi og sundurlaus. Yfirleitt mótast ákvæði frv. af því að hindra eðlilegt, frjálst framtak einstaklinga og fyrirtækja. Hvergi finnst minnsti vottur af hvatningu til athafna eða framkvæmda. Í sumum greinum frv. er beinlínis að finna brigðmæli um áður markaða stefnu sem flm. þess, hæstv. forsrh., stóð þó að. Á ég þar við kaflann sem snertir verðlagsmál og framkvæmd þeirra. Að vísu var í svokallaðri samstarfsyfirlýsingu núv. stjórnarflokka ákvæði um frestun á gildistöku vissra þýðingarmikilla ákvæða hins nýja frv. um verðlagsmál sem samþ. voru á síðasta þingi, en þar var aðeins um frestun að ræða og í þessari hv. d. gaf hæstv. viðskrh. yfirlýsingu í þá átt, að ráð væri gert fyrir því að umrædd ákvæði tækju fullt gildi síðar.

Þá byggir frv. þetta mjög á ákvæðum væntanlegra reglugerða í sambandi við framkvæmd frv., ef það verður samþ. Það er hvorki meira né minna en fimm rn., nærri því helmingur allra rn., ætlað með reglugerðum að setja nánari ákvæði um framkvæmd hinna og þessara kafla frv., eins og það er orðað í því. Slík málsmeðferð sýnir best viðurkenningu flm. frv., hæstv. forsrh., á tómleikanum og vansmíðinni sem er á þessum mikla frv.-bálki. Stjórn með tilskipunarvaldi er ætlað að sitja í öndvegi. Íslendingar hafa langa reynslu af því að láta stjórna sér með tilskipunum og hana ekki góða. Ekkert er það í þessu frv. sem bendir til þess, að hinar nýju tilskipunarreglur muni reynast þjóðinni neitt betur en fyrr. Það ber því allt að sama brunni: Hvar sem maður ber niður í þessu frv. og hvernig sem reynt er að skilgreina efni þess er grundvallarbygging þess grautur af þeim ósamstæðu skoðunum sem þeir flokkar styðjast við sem standa að stjórn þeirri sem núv. hæstv. forsrh. veitir forustu.

Í samstarfsyfirlýsingu núv. stjórnarflokka, sem gefin var út við myndun núv. hæstv. ríkisstj., stendur svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hún (þ. e. ríkisstj.) mun einbeita sér að því að koma efnahagsmálum á traustan grundvöll og tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, rekstrargrundvöll atvinnuveganna, fulla atvinnu og treysta kaupmátt launa.“

Hvernig hefur núv. stjórnvöldum tekist að framkvæma þetta aðalatriði stjórnarsáttmálans? Staðreyndirnar blasa við. Stjórnin hefur gersamlega brugðist þessu hlutverki sínu, og það sem meira er: engri, blátt áfram engri eðlilegri verkstjórn hefur verið komið á innan ríkisstj. um skynsamlega framkvæmd mála. Ætli það sé ekki einsdæmi í stjórnarsamstarfi á Íslandi, að þannig fari að formaður ríkisstj. og aðalverkstjóri verði í áheyrn alþjóðar að skýra frá algeru samstöðuleysi innan stjórnar sinnar í þýðingarmestu málum þjóðarinnar? Með því að taka þann kost að standa einn að flutningi þessa frv. hefur hæstv. forsrh. beinlínis staðfest að liðsmenn hans í ríkisstj. láti ekki að stjórn, þ. e. að almennri yfirstjórn og stefnumörkun í málefnum þjóðarinnar verði ekki við komið. Allt er þetta vegna sundurlyndis og sundrungar stjórnarflokkanna, sem ekki geta komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Þegar svo er komið, er þá nokkur furða þó að spurt sé hvort nú sé ekki mælirinn fullur? Það liggur fyrir að innan ríkisstj. og stuðningsflokka hennar er ekki fyrir hendi sá kjarkur og dugur sem nauðsynlegur er til að taka á og leysa allra þýðingarmestu og vandasömustu málefni þjóðarinnar á hættutímum, þegar úrlausn þeirra þolir enga bið.

Þegar svo er komið sem nú hefur verið lýst er það hið minnsta sem hægt er að fara fram á við þessa úrræðalausu valdamenn, að þeir a. m. k. sýni þann kjark og manndóm sem þarf til þess að mæta til dóms hjá þjóðinni, sem sækja og verja mál sín í almennum kosningum og síðan sæta þeim úrskurði sem þjóðin kann að kveða upp í frjálsum lýðræðislegum kosningum. Þetta er það minnsta sem hægt er að krefjast af þeim villuráfandi ráðamönnum, sem nú sitja í valdastólunum. Þeim er stefnt fyrir dómstól þjóðarinnar og þeirri stefnu ber þeim að hlýða.