19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3314 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur lagt fram lagafrv. um stjórn efnahagsmála o. fl. Frv. þetta er ekki stjfrv., heldur er það flutt af ráðh. einum. Þetta er heldur óvenjuleg málsmeðferð, ekki síst í svo stóru og afdrifaríku máli. Við ráðh. Alþb. höfum mótmælt þessum vinnubrögðum og teljum þau óhyggileg. Að sjálfsögðu eiga stjórnarflokkarnir allir að standa sameiginlega að frv. um efnahagsmál — og það hefði vafalaust orðið ofan á ef ríkisstj. hefði tekið sér nokkurra daga frest til að leysa málið. En við lokaafgreiðslu þessa máls í ríkisstj. var lítill sveigjanleiki sýndur af hálfu samstarfsflokka Alþb. Neitað var frekari viðræðum um ágreiningsmál, sem upp kom rétt undir lokin. Öllum samráðum við fulltrúa launþegahreyfingarinnar var hafnað. Neitað var viðræðum við forustumenn Alþýðusambands Íslands og almennt neitað öllum frekari samningaviðræðum. Þannig var málinu siglt í strand meira af kappi en forsjá og öllum á óvart. Afleiðingin er að sjálfsögðu sú, að fullt samkomulag verður hálfu torfengnara en ella hefði verið. Þessi niðurstaða er þeim mun dapurlegri þegar haft er í huga að aðeins vantaði herslumuninn á að fullt samkomulag væri fengið.

Frv. það, sem hæstv. forsrh. flytur hér, er í raun og veru samkomulagsfrv. stjórnarflokkanna allra, ef VIII. kafli frv., um verðlagsbætur á laun, er undanskilinn. Þetta frv. byggir raunar í meginatriðum á sameiginlegu áliti þriggja ráðh. sem skiluðu skýrslu sinni til ríkisstj. 1. febr. s. l. Í þessari ráðherranefnd náðist samkomulag um 31 tillögu um aðgerðir í efnahagsmálum. Í tillögum þessum var fjallað um flesta þætti efnahagsmála, ríkisfjármál, peningamál og atvinnumál, en hæstv. forsrh. tók síðan að sér að setja saman frv. með hjálp embættismanna sinna.

Þegar frv. forsrh. sá dagsins ljós 12. febr. s. l. kom í ljós að hann hafði í fjölmörgum atriðum farið út fyrir þann samkomulagsgrundvöll sem fyrir lá af hálfu ráðherranefndarinnar. Hann hafði í ýmsum efnum þrætt þá línu, sem samkomulag var um milli Alþfl. og Framsfl., þótt fyrir lægi að Alþb. væri á allt annarri skoðun og væri alls ekki reiðubúið að skrifa upp á slíka stefnu. Þess voru jafnvel dæmi, að í frv. hæstv. forsrh. væri hlaupið eftir hugmyndum sem Alþfl. hafði einn lagt áherslu á og fulltrúi Framsfl. í ráðherranefndinni hafði talið fásinnu að samþykkja. Þessi vinnubrögð hæstv. forsrh. komu mjög á óvart og eiga vafalaust lengi eftir að verða mönnum nokkur ráðgáta. Eðli sínu samkv. hlutu þau að tefja verulega fyrir því að samkomulag gæti tekist, hlutu að valda því að hávær átök hæfust milli stjórnarflokkanna á opinberum vettvangi. Það kom líka á daginn að í stað þess að afgreiða efnahagsmálin upp úr miðjum febrúar, eins og ráðgert hafði verið og allir áttu von á að loknum störfum ráðherranefndarinnar, hefur tekið rúman mánuð að ná samkomulagi um meginatriði frv. og vantar þó enn herslumuninn.

Við Alþb.-menn brugðumst hart við þegar frv. hæstv. forsrh. var lagt fram fyrir rúmum mánuði. Frv. þetta var líka verulega gallað, m. a. vegna þess að það samrýmdist ekki tveimur meginstefnumiðum þessarar ríkisstj., að tryggja fulla atvinnu í landinu og viðhalda þeim lífskjörum láglaunafólks sem um samdist í seinustu kjarasamningum. Þetta frv. var hlaðið af ískyggilegum tilhneigingum til að framkalla atvinnuleysi, eins og síðar verður nánar vikið að, og þótti mörgum með ólíkindum að framsóknarmaður hefði lagt þar hönd á plóginn.

Einum mánuði síðar hafa náðst fram stórfelldar breytingar á frv. þessu. Mörgum greinum þess hefur verið verulega breytt. Verstu ákvæði þess hafa verið strikuð út og tveir nýir kaflar komið inn í frv. Endanlegt samkomulag var því loksins í augsýn. Ekkert gat því réttlætt það, að forsrh. færi að flytja frv. í eigin nafni áður en allir þættir samkomulagsins væru komnir á hreint. Þessi vinnubrögð eru þeim mun óeðlilegri þegar haft er í huga að lengi hefur legið fyrir um hvað væri hægt að ná samkomulagi í vísitölumálinu og um hvað ekki. Síðan ráðherranefndin var að störfum hefur verið vitað að samkomulag gæti fyrst og fremst tekist um að setja verðbótavísitölu í 100 í eitt skipti og taka kerfisbundið tillit til viðskiptakjara að 30 hundraðshlutum. Þessi niðurstaða lá í loftinu þegar í fyrri hluta febrúar, en þegar hæstv. forsrh. lagði frv. sitt fram 12. febr. s. l. sáu allt aðrar hugmyndir dagsins ljós. Þar voru þræddar margvíslegar tillögur sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar voru þegar búnir að hafna í vísitölunefndinni, enda miðuðu þær bersýnilega að því að brjóta niður það varnarvirki launafólks sem verðtrygging launa felur bersýnilega í sér. Afleiðingin af þessum óheppilega tillöguflutningi varð svo sú, að vísitölunefndin leystist upp og samkomulag við fulltrúa launamanna náðist ekki að sinni.

Mánuði síðar, þegar samkomulag var loksins í augsýn um breytt frv., voru þessi mál komin nokkurn veginn í fyrra horf og við það var miðað að gera tvær meginbreytingar á verðbótavísitölu: að setja í 100, eins og það er kallað, og taka mið af viðskiptakjörum að 30 hundraðshlutum. Við ráðh. Alþb. höfðum hins vegar margfaldan fyrirvara á því, að um nánari útfærslu þessara breytinga yrði að hafa samráð við fjölmennustu heildarsamtök launafólks. Hér var um tæknilega útfærslu málsins að ræða sem hlaut að skipta verulegu máli, en þegar á reyndi neituðu samstarfsflokkar okkar öllum samráðum við launþegasamtökin um þennan þátt málsins, og sérstaklega neituðu ráðh. Alþfl. að taka nokkurt tillit til ábendinga sem fram komu frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Sá texti, sem fyrir lá, var auðvitað ekki sá eini sem til greina gat komið. Þessi texti var undirbúinn af embættismönnum, og það var fyrst á mánudag að ráðh. varð almennt ljóst hvað á bak við hann bjó. Þetta var einfaldlega óhagstæðasti kosturinn sem völ var á frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar, eins og ég mun nánar víkja að síðar, og fól í sér 2–3% meiri kjaraskerðingu en menn höfðu almennt gert ráð fyrir að fylgdi þessum breytingum. Í þennan texta embættismanna hélt Alþfl. dauðahaldi fram á seinustu stund og neitaði öllum brtt., stórum og smáum.

Nú var það bersýnilega ekki lengur aðalatriði, hvort mótuð yrði efnahagsstefna til langs tíma. Nú virtist það skipta öllu fyrir Alþfl., hvort honum tækist að raga niður tekjur láglaunafólksins um nokkur prósentustig. Í þessu skyni virtist flokkurinn reiðubúinn að fórna hverju sem var, jafnvel stjórnarsamvinnunni. Hver væri svo ávinningurinn af slíkri þrákelkni, ef stjórnarsamvinnunni væri fórnað? Afleiðingin yrði stjórnarkreppa, efnahagsleg ringulreið og ófriður á vinnumarkaði. Verðbólgan mundi æða aftur upp og árangursrík barátta stjórnarflokkanna gegn verðbólgunni á undanförnum mánuðum væri meira eða minna unnin fyrir gýg. Það er þetta sem heitir að henda barninu út með baðvatninu. Menn gerast svo gráðugir í að skera niður fleiri og fleiri prósentur, að áður en þeir vita af hafa þeir breytt góðum vinnufriði í opið stríð við launafólk í landinu.

Hver man ekki eftir slagorðum Alþfl. í seinustu kosningum um kjarasáttmála? Þetta var gott slagorð meðan verið var að fiska atkv. En hvernig birtist kjarasáttmáli Alþfl. í reynd? Kjarasáttmáli Alþfl. er einhliða lögbinding kjaraskerðingar í trássi við verkalýðshreyfinguna. Kjarasáttmáli Alþfl. er í því fólginn að hundsa algerlega ábendingar miðstjórnarmanna í Alþýðusambandi Íslands, hvort sem þeir koma úr flokki þeirra eða öðrum flokkum. Frekar skal samstarfi stjórnarflokkanna stefnt í bráðan voða en að gefið sé ráðrúm til að ræða við fulltrúa þessara fjölmennustu samtaka launamanna. Og þegar allt er svo komið í hnút, eins og var á þriðjudaginn var, þá er hlaupið í fjölmiðlana til að ljúga því að fólki að þrátt fyrir umtalsverða kjaraskerðingu muni kaupmáttur launa fara vaxandi á þessu ári. Líklega trúðu furðulega margir þessum fjarstæðukenndu fullyrðingum fremur en að treysta heilbrigðri skynsemi. Og hverju eiga menn ekki að trúa þegar fréttastofur útvarps og sjónvarps endurtaka þessa fjarstæðu að eigin frumkvæði hvað eftir annað? Staðreynd málsins er hins vegar sú, að vegna kaupránslaganna, sem sett voru fyrir einu ári og afnumin voru á s. l. hausti, er allt útlit fyrir að meðalkaupmáttur á þessu ári geti verið 1% hærri en meðalkaupmáttur á síðasta ári. Það er mál sem ekki varðar þetta frv., heldur skýrist einfaldlega af stórfelldri kjaraskerðingu á fyrri hluta seinasta árs. En afleiðingar þessa frv. eru ótvírætt þær, að kaupmáttur launa fer verulega rýrnandi frá því sem var á fyrsta ársfjórðungi, eins og hver maður getur sagt sér sjálfur og þarf ekki reiknimeistara til.

Það, sem á milli ber í þessari deilu, svarar til 3–4% í kaupi. Mörgum þykir það mikið, öðrum ekki. En munurinn er bersýnilega ekki meiri en svo, að ekki sé unnt að fara bil beggja. Satt að segja tel ég að þegar á allt er litið séu vinnubrögðin, sem viðhöfð hafa verið, það versta við þetta frv.

Við Alþb.-menn erum eindregnir stuðningsmenn þessa samstarfs. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sættir geti tekist og frv. fái afgreiðslu með ákveðnum breytingum. En við látum ekki ganga yfir okkur. Sjónarmið og ábendingar samtaka launafólks verður að taka til meðferðar með jákvæðu hugarfari og reyna samningaleið þegar á milli ber. Við Alþb.-menn getum ekki unað því, að heildarsamtökum launafólks Alþýðusambandi Íslands — sé sýnd sú lítilsvirðing sem fólst í viðbrögðum ráðh. Alþfl. og Framsfl. við bréfi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands s. l. mánudag.

Í þingflokki Alþb., stjórn verkalýðsmálaráðs og framkvæmdastjórn hefur aldrei verið minnsti ágreiningur um að sjónarmið miðstjórnar Alþýðusambandsins hlytum við að styðja. Á fjölmennum fundi þessara stofnana með þeim miðstjórnarmönnum, sem náðist til s. l. mánudag, var alger eining um að Alþb. stæði ekki að flutningi þessa frv. nema tekið yrði tillit til sjónarmiða miðstjórnar Alþýðusambandsins um vísitölumálið. Um þetta var alger eining, enda var þessi afstaða í fullu samræmi við margyfirlýsta fyrirvara okkar ráðh. á fyrri fundum í ríkisstj. Tröllasögur dagblaða um átök og ágreining á þessum Alþb.-fundi milli stuðningsmanna og andstæðinga ríkisstj. eru alger uppspuni frá rótum, eins og þeir fjölmörgu geta vitnað um sem sátu þennan fund. En áður en ég vík nánar að atburðarásinni þessa seinustu daga, áður en frv. var lagt fram, vil ég fjalla um nokkur helstu efnisatriði þess og almennt um málefnaágreining stjórnarflokkanna þessa seinustu tvo mánuði.

Ég hef áður nefnt að í ráðherranefndinni var samstaða um rúmlega 30 efnisatriði. Hins vegar kom það strax fram þar, að áherslur flokkanna væru nokkuð mismunandi. Allir flokkarnir lögðu áherslu á sparnað og samdrátt í útgjöldum með einum eða öðrum hætti. Allir voru þeir sammála um að spara í ríkisrekstri, enda vafalaust víða unnt að auka hagkvæmni hjá hinu opinbera. En munurinn á afstöðu flokkanna lá einkum í því, að Alþfl. vildi stuðla að sem mestum samdrætti í framkvæmdum og draga með ýmsum hætti úr kaupmætti launa með breytingum á vísitölukerfi, en við Alþb.-menn lögðum mesta áherslu á sparnað í milliliðakerfi og í rekstri atvinnuveganna. Við bentum jafnframt á að markvissar hagræðingaraðgerðir, einkum á sviði sjávarútvegs og iðnaðar, eins og ég mun nánar víkja að á eftir, væru brýnasta verkefnið í íslenskum efnahagsmálum og þar mætti ná fram sparnaði á tiltölulega skömmum tíma sem næmi tugum milljarða kr. Við töldum sem sagt vænlegast að móta efnahagsstefnu til langs tíma með róttækum kerfisbreytingum sem stuðluðu að minni yfirbyggingu, minni tilkostnaði og meiri framleiðslu.

Núv. ríkisstj. setti sér þrjú meginmarkmið þegar hún kom til valda: að tryggja fulla atvinnu, tryggja óskert lífskjör og draga verulega úr verðbólgu. Þessi markmið eru öll mjög mikilvæg og þá ekki síst tvö þau fyrri. Verðbólgan er á niðurleið. Við höfum þegar náð umtalsverðum árangri í baráttunni við verðbólguna. Við skulum ekki fórna atvinnuörygginu eða lífskjörum almennings í örvæntingarfullri tilraun til að draga hraðar úr verðbólgu en unnt er að gera með þolanlegum og skaplegum hætti.

Hlutfall fjárfestingar miðað við þjóðarframleiðslu er í algeru lágmarki á þessu ári, um 25%, og hefur ekki orðið lægra síðan á kreppuárunum 1969–1970 í tíð viðreisnarstjórnar. Núverandi atvinnuástand verður að heita viðunandi miðað við árstíma, en má þó ekki tæpara standa. Við Alþb.-menn höfum samþykkt þetta fjárfestingarhlutfall til bráðabirgða sem lið í baráttunni gegn verðbólgu, en við neitum frekari samdrætti í framkvæmdum og neitum raunar að fallast á þetta fjárfestingarhlutfall sem varanlega viðmiðun. Við teljum okkur skylt að vera vel á verði gagnvart atvinnuleysisvofunni. Þann draug viljum við hiklaust berja niður hvar sem hann birtist, a. m. k. meðan það er í okkar valdi.

Fjögur atriði í frv. forsrh., sem hann lagði fram um miðjan febrúar, voru bersýnilega að nokkru í ætt við atvinnuleysisdrauginn og hefðu ískyggileg samdráttaráhrif umfram það sem orðið er ef þau yrðu að lögum. Ekkert þessara atriða var að finna í sameiginlegu áliti ráðherranefndarinnar. Í þessu efni fór hæstv. forsrh. langt út fyrir þann ramma sem sameiginleg niðurstaða ráðherranefndarinnar markaði. En öllum þessum fjórum atriðum hefur nú verið breytt eftir mánaðar samningaþóf stjórnarflokkanna og er það vel.

Fyrst vil ég nefna vaxtamálin. Í ráðherranefndinni var það afstaða Alþb., að við gætum fallist á verðtryggingu lána sem tekin væru til lengri tíma en tveggja ára. Það er svo með skammtímalán, að enginn munur er á verðtryggingu annars vegar og háum vöxtum hins vegar þegar skammtímalán eiga í hlut. Við erum og höfum alltaf verið algerlega á móti því, að háir vextir yrðu settir á rekstrar- og afurðalán. Í fyrsta frv. hæstv. forsrh. var gengið út frá því sem meginreglu, að öll lán yrðu verðtryggð með einum eða öðrum hætti. Þetta hefði óhjákvæmilega þýtt, að mjög háir vextir hefðu einnig orðið á rekstrar- og afurðalánum og hvers konar skammtímalánum. Þessi ráðstöfun hefði haft lamandi áhrif á margvíslegan smárekstur. Ég er ekki í neinum minnsta vafa um að hundruð fyrirtækja hefðu orðið að draga saman seglin og segja upp starfsliði sínu ef þessi hefði raunin orðið á, þessi hefði orðið niðurstaðan. Afleiðingin hefði sem sagt óhjákvæmilega orðið almennur samdráttur í atvinnulífi. Nú hefur verðtryggingarkafla frv. verið breytt á þann veg, í samræmi við málamiðlun stjórnarflokkanna, að gengið er út frá því að sérstakar reglur gildi um rekstrar- og afurðalán.

Náskylt þessu atriði er það ákvæði fyrra frv. hæstv. forsrh. að hækka bindiskyldu úr 25% í 30%. Það var mat okkar Alþb.-manna, að hefði ákvæði þetta orðið að lögum hefði það haft þær afleiðingar að frysta um 7–10 þús. millj. kr., eftir því hvernig reiknað er og við hvað miðað er, af ráðstöfunarfé banka og sparisjóða. Áhrif þessara aðgerða hefðu óhjákvæmilega orðið stórfelldur samdráttur í atvinnulífi. Þjónusta bankakerfisins hefði dregist verulega saman. Nú er hins vegar samkomulag um það milli stjórnarflokkanna, að þessi grein skuli felld niður, og hún er ekki í þessu síðara frv. sem hæstv. forsrh. flytur. En samanlagt hefðu þessi tvö atriði, sem ég hef nú nefnt, ef þau hefðu orðið að lögum, óhjákvæmilega stuðlað að verulegu atvinnuleysi hér á landi að nokkrum tíma liðnum.

Þriðja atriðið þessu skylt er það ákvæði 30. gr. frv., að peningamagn í umferð skuli bundið þeim takmörkum að það aukist ekki um meira en 25% frá upphafi til loka árs, að teknu tilliti til árstíðabundinna sveiflna. Ef ákvæði þetta væri tekið bókstaflega og verðbólgan í þjóðfélaginu frá upphafi til loka árs væri 30% hlyti afleiðingin að verða neyðarástand í bankakerfinu. Það var vissulega aðalkosturinn við þetta frv.-ákvæði, að enginn virtist gera ráð fyrir að þetta ákvæði yrði nokkurn tíma tekið alvarlega. Bankastjórar Seðlabankans höfðu m. a. lýst yfir í viðtölum við ráðherranefndina í janúar að hvergi á byggðu bóli fyndust lagaákvæði af þessu tagi, og í ráðherranefndinni taldi hæstv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, að fráleitt væri með öllu að lögfesta ákvæði í þessa átt.

Það er vissulega alveg ljóst, að þetta ákvæði var komið inn í frv. hæstv. forsrh, á sínum tíma fyrst og fremst til þess að friða ákveðna menn í Alþfl., án þess að menn gerðu ráð fyrir að efni þess hefði nokkurt raunverulegt gildi. En til þess að tryggja að þessi grein verði merkingarlaus og geti með engum hætti orðið til skaða hefur sem betur fer verið bætt þessum orðum inn í frvgr. ég les viðbótina, með leyfi forseta:

„Frá þessum markmiðum má þó víkja, ef óvæntar breytingar verða á þjóðarbúskapnum, t. d. þannig, að atvinnuöryggi sé í hættu, eða ef séð er, að forsendur þjóðhagsspár um verðþróun á árinu 1979 standist ekki.“

Nú veit auðvitað hver einasti þm. hér í salnum, að þessar forsendur eru þegar brostnar, og þarf þá enginn að hafa frekari áhyggjur af framkvæmd þessarar lagagreinar.

Fjórða ágreiningsatriði, ákvæði 11. gr. frv., að á árinu 1979 skyldu ákvarðanir í ríkisfjármálum við það miðaðar að heildartekjur og útgjöld á fjárl. héldust innan marka sem svaraði til 30% af vergri þjóðarframleiðslu og sama mark yrði 1980. Fjárlög 1979 hafa þegar verið afgreidd, eins og öllum er vonandi kunnugt um, og það er því einungis hjákátlegt að Alþ. ætli nú að setja lög um það, hvernig afgreiða skuli fjárlög fyrir árið 1979. Hitt ákvæðið er raunverulegt efnisákvæði, hvernig þessum málum skuli hagað á árinu 1980. Í fyrsta frv. forsrh. var beinlínis tekið fram, að sömu mörk skyldu þá gilda. Vissulega er ekki um það að ræða, að framkvæmd þessa ákvæðis hefði í för með sér samdrátt frá því fjárfestingarhlutfalli sem nú er ríkjandi. Fjárlagatölur ársins 1979 reiknaðar í hlutfalli við áætlun um verga þjóðarframleiðslu á verðlagi þessa árs leiða til þeirrar niðurstöðu að hlutfallið sé nú 28.5% , og því er hér nokkurt svigrúm fyrir hendi. Hitt er ljóst, að atvinnustarfsemi getur dregist saman af ýmsum ástæðum. Það hefur því verið sjónarmið okkar Alþb.-manna, að í því væri fólginn mikill öryggisventill að ríkisvaldið gæti aukið umsvif sín ef atvinnuleysi vofði yfir. Með lögbindingu væri hins vegar verið að binda hendur ríkisstj. með óeðlilegum hætti. Því höfum við neitað svo afdráttarlausu ákvæði um heildarútgjöld og tekjur ríkisins á árinu 1980. Nú hefur hins vegar orðið málamiðlunarsamkomulag milli stjórnarflokkanna um að orða þessa grein með þeirri viðbót varðandi markmiðið á árinu 1980, að frá því skuli víkja ef óvæntar og verulegar breytingar verði í þjóðarbúskapnum og sérstaklega ef ætla megi að hætta sé á atvinnuleysi. Þetta teljum við viðunandi breytingu og hefðum ekki verið reiðubúnir að samþykkja frvgr. í hinum fyrra búningi.

Fimmta meiri háttar ágreiningsefni varðar framlög til sjóða og félagslegra verkefna sem bundin eru í lögum. Alþfl. hefur um margra mánaða skeið lagt allt kapp á það í samvinnu og viðræðum stjórnarflokkanna, að öll framlög til sjóða og félagslegra framkvæmda, sem bundin eru í lögum, skyldu numin úr lögum, en ákveðin í fjárl. hverju sinni. Við Alþb.-menn höfum hins vegar verið andvígir slíkri ákvörðun. Vissulega getum við fallist á að lagaákvæðum af þessu tagi verði nokkuð fækkað, en í mörgum tilvikum er um að ræða framlög til félagslegra réttindamála, t. d. framlög í Byggðasjóð, framlög í Byggingarsjóð, Vegasjóð, Félagsheimilasjóð eða til ýmiss konar menningarmála. Við erum ekki reiðubúnir, án þess að hafa athugað málið miklu nánar, að slá því föstu að fé til þessarar starfsemi og þessara mála renni í ríkiskassann, en síðan eigi þingmeirihl. að slumpa á hverju ári á þá upphæð sem gangi til þessara þarfa hverju sinni. Ríkisstjórnir koma og fara og hreinskilnislega sagt óttumst við að framlög til félagsmála og ýmiss konar þjóðþrifamála mundu hugsanlega minnka verulega, ef þessi breyting yrði gerð. Við viljum því engu slá föstu nema að nánar athuguðu máli, og við fögnum því að orðalag þessarar greinar er á þann veg, að þessi framlög skuli tekin til endurskoðunar og kannað að hve miklu leyti þessi framlög verði framvegis ákveðin með fjárl. ár hvert.

Sjötta meiri háttar ágreiningsefnið í viðræðum stjórnarflokkanna hefur snúist um fjárfestingarmálin. Í ákafanum að skera niður fjárfestingar ríkisins til félagslegra þarfa hafa ýmsir samstarfsmenn okkar viljað gleyma því, að framkvæmdir ríkisins eru aðeins lítill hluti af heildarfjárfestingunni. Fjárfestingar annarra aðila eru harla skipulagslausar og oft mjög óhagkvæmar. Við höfum því lagt þunga áherslu á að komið yrði á heildarstjórn fjárfestingarmála, en samstarfsflokkar okkar hafa því miður ekki verið ýkjaopnir fyrir miklum breytingum á þessu sviði. Þó er nú kominn inn í þetta frv. nýr kafli, V. kafli, sem komið hefur inn í frv. við seinustu meðferð þess í ríkisstj., og við í Alþb. teljum að þessi kafli sé mjög til bóta. Þar er fjallað um framfarir í atvinnuvegum og hagræðingu í atvinnurekstri. Þar segir, í 22. gr., að rn. einstakra atvinnuvega skuli hafa forgöngu um gerð atvinnuvegaáætlana hvert á sínu sviði. Við áætlanagerðina skuli sérstaklega miðað að frekari vinnslu og bættri nýtingu innlendra hráefna og kannaðar hugmyndir og gerðar áætlanir um nýjar atvinnugreinar er treyst gætu undirstöðu þjóðarbúskaparins.

Í 23. gr. er um það fjallað, að ráðh. viðkomandi atvinnugreina ásamt forsrh. annist nauðsynlega samræmingu við gerð atvinnuvegaáætlana. Við Alþb.-menn teljum að þarna sé fenginn nokkur vísir að raunverulegu áætlunarráði. Þessir aðilar eiga að sjá til þess, að samræmi sé milli atvinnuvegaáætlana og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar, en í 19. gr. kemur skýrt fram, að undirbúningur fjárfestingar- og lánsfjáráætlana sé á vegum ríkisstj. og að ríkisstj. leggi fyrir Alþ. slíkar áætlanir fyrir eitt ár í senn og skuli þær fylgja fjárlagafrv. Öll eru þessi ákvæði mjög til hins betra og við fögnum því að þessi breyting hefur verið gerð á frv.

Við undirbúning þessa frv, höfum við Alþb.-menn lagt mjög þunga áherslu á stóraukna hagræðingarstarfsemi. Ég held að það sé ekki um deilt að íslenskur atvinnurekstur sé mjög óhagkvæmur og illa búinn að tækjum og vélum. Með skipulagsbreytingum og hagræðingu, einkum í sjávarútvegi og almennum iðnaði, væri vafalaust unnt að stórauka verðmæti framleiðslunnar og draga úr framleiðslukostnaði. Við teljum því að þau ákvæði, sem finna má í 26. gr. frv., séu til mikilla bóta, en þar er gert ráð fyrir að til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins skuli ríkisstj. útvega sérstaklega 1000 millj. kr. að láni á þessu ári og 2000 millj. á næsta ári. Ákvæði um sparnað í milliliðakerfinu eru því miður nær engin í þessu frv.

Við Alþb.-menn höfum ítrekað gert kröfu til þess að dregið sé úr þeim gífurlega kostnaði sem núverandi milliliðakerfi hefur í för með sér. Við höfum bent m. a. á að eðlilegt sé að rækileg athugun fari fram á vöruflutningum til landsins og frá landinu með það fyrir augum að draga úr kostnaði við þessa flutninga og lækka þannig almennt vöruverð í landinu og minnka útgjöld útflutningsaðila. Við höfum í öðru tagi lagt til hvað eftir annað að boðinn yrði út innflutningur á vissum stórum vöruflokkum og útboðsskilmálar yrðu í samræmi við lægsta verð á erlendum mörkuðum. Við höfum enn fremur lagt það til, að komið yrði á einfaldara og ódýrara rekstrarkerfi í olíusölumálum. Fyrsta skrefið í þá átt yrði stofnun olíuheildsölu ríkisins. Olíuheildsalan hefði svo með höndum öll innkaup til landsins á bensíni og hvers kyns olíuvörum til brennslu og smurnings og annaðist flutning á þeim til birgðastöðva í landinu og ræki slíkar innflutnings- og birgðastöðvar. Við höfum ennfremur lagt það til, að knúið yrði á um lækkun vátryggingagjalda, m. a. með útboði á stórum tryggingaþáttum, og að sett yrðu í lög ströng starfsskilyrði fyrir tryggingafélög, þeim fækkað og iðgjöld lækkuð. Því miður hafa þessar tillögur okkar ekki átt enn sem komið er upp á pallborðið hjá samstarfsflokkum okkar. Í ráðherranefndinni var ákveðið að leggja til að nefnd yrði skipuð til að gera tillögur um skipulag olíuverslunar í landinu. Ég vænti þess, að tillaga þessi komi til framkvæmda fyrr en síðar, en ég harma hins vegar að í frv. skuli ekki vera nein ákvæði sem stuðla að því að draga verulega úr þeim gífurlega kostnaði sem núverandi milliliðakerfi hefur í för með sér.

Um viðskiptamál er nokkuð fjallað í frv. þessu, enda hafa þau mál verið mjög til umr. nú í seinni tíð. Í fyrsta frv. hæstv. forsrh. var gert ráð fyrir varðandi hin nýju verðlagslög, sem samþykkt voru með stuðningi Framsfl. og Sjálfstfl. og með atkvæðum eins eða tveggja þm. Alþfl. á þingi fyrir einu ári, að framkvæmd þeirra laga yrði flýtt um tvo mánuði. Nú stóð það að vísu aldrei til af hálfu okkar Alþb.-manna að þessi lög tækju gildi óbreytt. Við höfðum ávallt gert ráð fyrir því, að þessi lög yrðu tekin til endurskoðunar áður en þau kæmu til framkvæmda. Það er því alrangt, sem fram kom áðan í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að gefin hafi verið fyrirheit um að þessi lög kæmu til framkvæmda óbreytt. Þá hefur hann misskilið málin heldur en ekki. Það datt okkur Alþb:-mönnum aldrei í hug.

En nú hefur verið fjallað um þessi mál og í því nýja frv., sem hér liggur fyrir, eru gerðar verulegar breytingar á lögum þessum. Í gildandi lögum er það meginreglan, að álagning skuli vera frjáls nema í undantekningartilvikum. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er þessu hins vegar..snúið við, enda segir í 3. mgr. 58. gr., með leyfi forseta:

„Það skal vera meginregla að vöruverð sé háð verðlagseftirliti og verðlagsákvæðum. Þó getur verðlagsráð, að fengnu samþykki ríkisstj., heimilað að fella einstaka vöruflokka undan verðlagsákvæðum.“

Frjáls álagning er hér aðeins hugsanleg sem undantekningartilvik. Ég þarf víst engum að segja það, að við teljum að þessi breyting á frv. sé mjög verulega til bóta.

Herra forseti. Því miður leyfir tími minn ekki að farið sé yfir öll þau ákvæði sem tekið hafa breytingum við meðferð ríkisstj. og umr. seinasta mánuðinn um þetta frv. Ég hef hins vegar dregið hér fram helstu ágreiningsmálin. En þó hef ég lítið vikið að seinasta ágreiningsefninu, sem enn bíður úrlausnar, þ. e. að kjaramálum og að verðbótaákvæðum frv.

Það hefur áður komið fram í máli mínu, að um seinustu helgi hafði tekist samkomulag um alla kafla þessa frv. nema VIII. kaflann. Varðandi þann kafla hafði þó tekist óformlegt samkomulag á þann veg, að einu breytingarnar, sem yrðu gerðar á núverandi verðbótakerfi, miðuðust við að verðbótavísitala yrði sett í 100 og tekin yrði upp viðmiðun við viðskiptakjör. Við ráðh. Alþb. höfðum hins vegar margfaldan fyrirvara á orðalagi þessara ákvæða og hvernig tæknilegri útfærslu málsins yrði háttað. Auðvitað var óhjákvæmilegt að ræða þessi mál nánar við hagfræðinga Þjóðhagsstofnunar og þá ekki síður við forustumenn launþegasamtakanna og hagfræðilega ráðunauta þeirra áður en endanlegar ákvarðanir yrðu teknar. Ýmis tæknileg atriði hlutu að orka tvímælis, enginn gat verið í vafa um það. Einföld setning, sem lætur lítið yfir sér, getur búið yfir talsverðri kjaraskerðingu þótt lítið beri á, og einmitt þannig var það í þessu tilviki. Tímans vegna get ég aðeins leyft mér að nefna hér eitt atriði af mörgum sem verið hafa til umr. og snerta tæknilega útfærslu málsins, en það er það atriði sem varðar viðmiðun við viðskiptakjör.

Við Alþb.-menn höfðum fallist á að við útreikning verðbótavísitölu verði tekið eðlilegt tillit til breytinga á viðskiptakjörum. Það er ekki eðlilegt að ef verðlag á innfluttum vörum hækkar snögglega upp úr öllu valdi fái þjóðin öll kauphækkun út á það, þá fái sérhver launamaður það borið uppi í hækkuðu kaupi. Við föllumst fúslega á að breytingar, sem sníða af þær hækkanir eða lækkanir sem verða á vísitölu viðskiptakjara, séu skynsamlegar frá efnahagslegu sjónarmiði. Þær stuðla að efnahagslegu jafnvægi og leiða til þess að sveiflur í verði vöru, sem við flytjum inn á hverju ári og raunar á hverjum degi, jafnist frekar út í efnahagskerfi okkar en að þær magnist upp. Nú seinustu mánuði hafa viðskiptakjör farið versnandi. Vissulega hlýtur viðmiðun við viðskiptakjör þá að hafa einhverja kjaraskerðingu í för með sér til bráðabirgða. En viðskiptakjörin geta allt eins farið batnandi þegar fram líða stundir, eins og þau hafa gert, og þá mundi þessi tenging við viðskiptakjör verða kjarabót, en ekki kjaraskerðing.

Það er einnig staðreynd að viðskiptakjör hafa farið hægt og þétt batnandi seinustu áratugi. Við teljum því að verkalýðshreyfingin geti óhrædd fallist á kerfi af þessu tagi. Í fyrsta frv. forsrh. var við það miðað, að mæling viðskiptakjara yrði miðuð við meðalviðskiptakjör 1978 annars vegar og hins vegar sem síðari tímapunkt við viðskiptakjör á seinasta ársfjórðungi 1978 að miklum meiri hluta til. Þessi tilhögun hefði táknað minni hækkun verðbóta á laun sem numið hefði rúmu 1 prósentustigi þegar tillaga forsrh. var lögð fram í febrúarmánuði. Í síðari útgáfu frv. hafa allar dagsetningar hvað þetta atriði snertir verið færðar fram um þrjá mánuði, þannig að nú er talað um fyrsta ársfjórðung 1979 í staðinn fyrir fjórða ársfjórðung 1978, nú er talað um 1. júní í staðinn fyrir 1. mars o. s. frv., að undanskildu einu atriði, þ. e. a. s. við hvað grunnviðmiðun viðskiptakjara miðist. Við ráðh. Alþb. bentum strax á að eðlilegast væri að breyta grunnviðmiðun viðskiptakjaranna í samræmi við þá breytingu á dagsetningum sem þegar hafði verið gerð í frv., þannig að í staðinn fyrir 12 mánuði ársins 1978 væri miðað við viðskiptakjör á 9 mánuðum ársins 1978 og þremur fyrstu mánuðum ársins 1979. Við töldum að eðlilegt væri, úr því að öllum dagsetningum hafði verið hnikað til sem svaraði þremur mánuðum og þær færðar fram, að þessi dagsetning væri einnig háð nákvæmlega sömu breytingu. Þetta töldum við eðlilega og sanngjarna kröfu. Þannig reiknuð hefði viðskiptakjaraviðmiðunin valdið hliðstæðri skerðingu og áður hafði verið reiknað með, eða 1.3 hundraðshlutum. En samstarfsflokkarnir héldu fast við það að breyta ekki grunnviðmiðun viðskiptakjaranna, því að með því að halda fast í þessa einu dagsetningu og breyta öllum hinum verður kjaraskerðingin 3%, en ekki rúmlega 1%, þegar aðrar dagsetningar hafa verið færðar fram. Það er sem sagt vísvitandi valin sú tæknilega útfærsla sem mestri skerðingu veldur. Sama gildir um ýmislegt annað orðalag í verðbótakafla frv. Þar hallar alvarlega á rétt launafólks til verðbóta, svo að samanlagt verður kjaraskerðingin, sem fólgin er í þessum kafla frv., rúm 6%.

Auðvitað var óhjákvæmilegt að ræða þessi tæknilegu og flóknu atriði, sem ég hef nú gert að umtalsefni, við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Auðvitað kom ekki til greina að velja óhagstæðustu útgáfuna á þessu ákvæði. Það var okkar fyrirvari, þegar frv. var öðru sinni sent út á mánudag fyrir einni viku, m. a. til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, að þetta yrði að ræða nánar. Þá höfðu forustumenn Alþýðusambands Íslands haft þennan texta til athugunar að mínu frumkvæði í rúman sólarhring og hagfræðilegir ráðunautar miðstjórnarinnar höfðu þá haft ráðrúm til að átta sig á ýmsum kjaraskerðingaráhrifum þess texta sem fyrir lá. Á fundi þingflokks, miðstjórnar og framkvæmdastjórnar Alþb., þar sem einnig voru saman komnir fulltrúar í stjórn verkalýðsmálaráðs Alþb., greindum við ráðh. Alþb. frá þessum margyfirlýstu fyrirvörum okkar, og það var þá einróma niðurstaða fundarmanna að fyrirliggjandi texti verðbótakaflans væri óviðunandi með öllu. Hins vegar brá svo við á ríkisstjórnarfundi þetta sama kvöld, að ábendingum miðstjórnar Alþýðusambandsins var algerlega hafnað og hafnað að taka upp viðræður um tæknilega hlið málsins.

Á fundi þingflokks Alþb. og stjórnar verkalýðsmálaráðs daginn eftir, þ. e. a. s. s. l. þriðjudag, var samþykkt í samráði við okkur ráðh. flokksins og með öllum greiddum atkv. gegn tveimur — þessir tveir vildu ganga lengra — að leggja fram till. í ríkisstj. um málamiðlun, þar sem lagfærð yrðu þrjú af þeim fimm atriðum sem deilan stóð um. Það var síðan gert. En ráðh. Alþfl. neituðu enn á ný að fallast á nokkra minnstu breytingu á þessum kafla frv. Auðvitað hefði verið eðlilegast, þegar hér var komið, að leggja frv. fram án þessa kafla, meðan samkomulag var ekki fengið, og gefa sér tíma til að semja um málið, en sú varð ekki niðurstaðan og því er nú málið allt erfiðara viðfangs en ella hefði verið.

Ég hef gert grein fyrir atburðarás seinustu daga eins og hún kemur okkur Alþb.-mönnum fyrir sjónir, og ég hef fjallað hér um þær breytingar sem orðið hafa á efnahagsfrv. í seinasta mánuði. Vissulega hefðum við Alþb. menn viljað gera miklu meiri breytingar á þessu frv. Það er ekkert launungarmál að ýmislegt í frv. er okkur lítt að skapi. En við höfum sannarlega reynt að teygja okkur til hins ítrasta til að samkomulag gæti tekist. Á hitt er og að líta, að stórfelldar breytingar hafa verið gerðar á frv. í samræmi við óskir okkar, og það ber alls ekki að vanmeta. Þó er augljóst að margt vantar í frv. þetta. Hér er ekki að finna þá markvissu fjárfestingarstjórn sem við höfum lagt hvað þyngsta áherslu á. Hér eru ekki nein ákvæði, eins og ég rakti áðan, um sparnað í hagkerfinu, t. d. endurskipulagningu olíusölu eða vátryggingarmála, fækkun banka eða róttækar ráðstafanir til lækkunar á verði innfluttra vara. Hér eru ekki heldur nein ákvæði um skattamál, eins og við höfum þó margoft gert kröfu til, eða skattlagningu stóreigna, sem ýmsir hafa komist yfir á ótrúlega skömmum tíma í krafti verðbólgu seinustu ára. En þrátt fyrir alla þessa annmarka, þrátt fyrir ófullkomleika þessa frv. og þrátt fyrir megna óánægju með vinnubrögð í ríkisstj. við undirbúning þessa máls erum við Alþb.-menn reiðubúnir til að samþykkja frv. með nokkrum breytingum, sem úrslitum hljóta að ráða.

Ég held að það leyni sér ekki, að allur þorri fólks vill að þessi stjórn sitji áfram. Mér virðist margt benda til þess, að núverandi stjórnarsamstarf njóti stuðnings langt út fyrir raðir þeirra manna sem talist geta stuðningsmenn einhvers stjórnarflokkanna. Ástæðan er einfaldlega sú, að fólk veit og sér að ef þessi stjórn færi frá tæki við stjórnleysi og efnahagsleg ringulreið um margra mánaða skeið. Fólk óttast efnahagslegt öngþveiti eins og það sem var að skella yfir þjóðina s. l. haust þegar þessi stjórn tók við. Fólk óttast atvinnuleysi ef allt fer í hnút. Fólk hræðist þá íhaldsstjórn sem hugsanlega tæki við að nokkrum tíma liðnum.

Menn fagna þeim vinnufriði, sem skapast hefur á undanförnum mánuðum, og menn finna að þessi ríkisstj. hefur ein möguleika til að ná upp því samstarfi milli ríkisvalds og verkalýðshreyfingar sem þarf að vera til staðar á erfiðum tímum. Þess vegna eru þeir býsna margir sem horfa til okkar með þá von í brjósti, að okkur takist að setja niður þessar deilur og semja um þann ágreining sem enn ógnar framtíð þessa stjórnarsamstarfs. Við Alþb.-menn teljum að þessir þrír flokkar geti unnið saman og eigi að vinna saman. Að vísu skal það játað að þriggja flokka stjórn er vafalaust erfiðari í framkvæmd en tveggja flokka stjórn. Samningar verða tímafrekari og flóknari, þegar þrír eiga að semja, og ágreiningsefnin að sama skapi erfiðari viðfangs. En við verðum að sætta okkur við hlutina eins og þeir eru. Hitt kemur á móti, að þessir þrír flokkar eiga margt sameiginlegt. Ekki er þó unnt að loka augunum fyrir því, að í Alþfl. er hópur manna sem hefur verið andvígur þessari ríkisstj. frá öndverðu. Þessi hópur á talsverð ítök í þingflokknum og þó enn meiri í flokksstjórn og hefur haldið uppi látlausum skæruhernaði á hendur þessari ríkisstj. allan starfstíma hennar með stöðugum kröfum um að lagt sé í styrjöld við verkalýðshreyfinguna og samtök bænda. Ráðh. Alþfl. eru ekki í þessum hópi. Þeir hafa aftur og aftur lent í minni hl. í sínum flokki og verið beygðir undir ok þessa íhaldssama hóps. Samkomulag um þetta frv. og þar með um framtíð ríkisstj. veltur sem sagt algerlega á því, hvort þeir menn verða ofan á innan Alþfl. sem ekkert vilja gefa eftir í einu eða neinu og stefna því bersýnilega að stjórnarslitum nú þegar, eða þá hitt, hvort þau öfl í flokknum ná aftur forustunni sem vilja áframhaldandi samvinnu.

Í máli mínu hér á undan hef ég nokkuð gagnrýnt hæstv. forsrh. fyrir meðferð hans á þessu máli. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Laumuleg meðferð ágreinings í svo mikilvægu máli er ekki í neinu samræmi við tímans kall. Hitt vil ég láta koma fram, að við Alþb. menn treystum forsrh. fullkomlega til að beita sér nú fyrir nauðsynlegri málamiðlun, svo að frv. þetta nái fram að ganga. Hann hefur traust okkar og við væntum forustu hans á lokastigi þessa máls. Vissulega hefði hann ekki átt að leggja frv. fram einn og í andstöðu við stærsta stjórnarflokkinn. Hann hefði fremur átt að fresta afgreiðslu málsins og standa fyrir frekari viðræðum um verðbótakafla frv., m. a. við miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Hitt hefur komið skýrt fram í máli mínu, að forsrh. var bersýnilega reiðubúinn að ganga til móts við málamiðlunartillögur okkar Alþb.-ráðh. á seinasta ríkisstjórnarfundinum sem fjallaði um frv. Þar stóðu framsóknarmennirnir ekki í veginum, en það voru ráðh. Alþfl. sem neituðu allri málamiðlun.

Ég er ekki í vafa um að nú á lokastigi málsins væri auðvelt fyrir Framsfl. og Alþb. að ná samkomulagi, sem báðir flokkar geta við unað, um lausn þeirra ágreiningsmála sem eftir standa. Ég veit líka að margir Alþfl. menn gera sér fullkomlega grein fyrir því, að verði flokkur þeirra áfram ósveigjanlegur í afstöðu sinni til málamiðlunar og verði þannig valdur að því að kollvarpa þessari ríkisstj. uppsker hann litlar þakkir í þeim kosningum sem á eftir munu fylgja. Staðreyndin er sú, að fólk er ekki ákaft í kosningar, ekki ákaft í að fella þessa stjórn og ekki ákaft í að skerða kjör láglaunafólks um 6–7% á sama tíma og „þökin“ rjúka af launum hátekjumanna, sem flestir fá nú 5–10% kauphækkun. Þetta skilja forustumenn Alþfl. og því er full ástæða til bjartsýni um framgang þessa frv. þegar nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því.