31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

45. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Svar mitt er svo hljóðandi:

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. segir svo: „Mörkuð verði gerbreytt fjárfestingarstefna. Með samræmdum aðgerðum verði fjárfestingu beint í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri. Fjárfesting í landinu verði sett undir stjórn sem marki heildarstefnu í fjárfestingu og setji samræmdar lánareglur um fjárfestingarsjóðina í samráði við ríkisstj.

Og í kafla samstarfsyfirlýsingarinnar um byggðastefnu segir svo: „Skipulag og starfshættir Framkvæmdastofnunar ríkisins og fleiri opinberra aðila verði endurskoðuð.“

Ríkisstj. hefur falið sérstökum starfshópi, sem í eiga sæti Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur frá Framsfl., Lúðvík Jósepsson alþm. frá Alþb. og Björn Friðfinnsson lögfræðingur frá Alþfl., að gera till. um breytta stefnu í fjárfestingarmálum og þar með einnig breytingar á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins að því er varðar starfshætti hennar og skipulag. Í forföllum Guðmundar G. Þórarinssonar um skeið starfar Helgi Bergs bankastjóri í þessum starfshópi.

Þessum starfshópi hafa ekki verið sett nein fyrirmæli umfram það er felst í samstarfsyfirlýsingunni. Um þessi mál hafa að öðru leyti ekki enn farið fram formlegar umr. innan ríkisstj. og þá auðvitað því síður verið tekin nokkur ákvörðun. Ég á ekki von á því, að frekar verði fjallað um þetta af ríkisstj. hálfu fyrr en álit eða tillögur starfshópsins liggja fyrir.

Þau sjónarmið hafa heyrst frá einstökum þm. og jafnvel ráðh., að alþm. ættu ekki að vera forstjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins, heldur skuli líta á þá sem hliðsetta bankastjórum, en sú venja hefur skapast, eins og kunnugt er, að bankastjórar sitja ekki á Alþ. og hafa ekki gert það nú um skeið, þó að aðrir hættir væru á því áður. En eins og ég sagði áður, þá liggur ekkert fyrir um afstöðu ríkisstj. til þessa á þessu stigi. Ég get því ekki gefið neinar yfirlýsingar um það.

Ekki verður annað séð af fsp. en fyrirspyrjandi eigi við forstjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins með orðinu „kommissarar“. Af því tilefni vil ég aðeins láta þess getið, að samkv. lögum eru það ekki forstjórar Framkvæmdastofnunarinnar, sem taka ákvörðun um lánveitingar hennar, heldur þingkjörin stjórn.