31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

45. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í þessum umr. rifja það upp, að þegar lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins voru sett á sínum tíma að tilhlutan þáv. ríkisstj., sem í sátu Framsfl., Alþb. og SF, var Alþfl. í stjórnarandstöðu ásamt Sjálfstfl. Ég held að ég muni það rétt, að Sjálfstfl. hafi þá greitt atkv. gegn stofnun Framkvæmdastofnunarinnar á þeim grundvelli að þar væri verið að draga saman of mikið vald í hendur einnar opinberrar stofnunar. Þm. Alþfl., sem þá áttu sæti á Alþ., voru hins vegar fylgjandi þeim tilgangi með lögunum að koma fjárfestingarmálunum undir samræmda stjórn og efla áætlunargerð í landinu. Greiddu þeir þess vegna atkv. með lögum um að stofna skyldi Framkvæmdastofnun eða ríkisstofnun til að annast þessa hluti.

Þm. Alþfl. þá greindi hins vegar á við þáv. stjórnarliða í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi voru þm. Alþfl. alfarið andvígir því kerfi, sem lögin gerðu ráð fyrir að væri viðhaft varðandi framkvæmdastjóra stofnunarinnar, sem sé að þeir skyldu vera jafnmargir þáv. stjórnarflokkum og aðeins ráðnir til þess tíma þar til næst yrði kosið, ef þá yrði um stjórnarskipti að ræða. Það var augljóst, hvert hér var stefnt. Það var stefnt að því, að þessir embættismenn, stjórnendur Framkvæmdastofnunar ríkisins, yrðu pólitískir legátar stjórnvalda á hverjum tíma í þessari stofnun, en ekki venjulegir embættismenn.

Annað atriði, sem þm. Alþfl. beittu sér gegn, var það, að sérstök deild innan Framkvæmdastofnunarinnar var undir forsjá hinna pólitísku „kommissara“, sem ég leyfi mér að kalla svo, hagrannsóknadeild undir forustu Jóns Sigurðssonar, en þm. Alþfl. lögðu til að þessi hagrannsóknadeild yrði sjálfstæð stofnun, en lyti ekki stjórn pólitískra sendimanna ríkisstj. í Framkvæmdastofnun ríkisins.

Þegar stjórnarskiptin urðu eftir kosningarnar 1974 tóku Sjálfstfl. og Framsfl. við stjórnartaumunum og forsrh. þeirrar ríkisstj., Geir Hallgrímsson, sem var æðsti yfirmaður Framkvæmdastofnunarinnar, beitti sér fyrir því, að lögin um Framkvæmdastofnun yrðu tekin til endurskoðunar. Þeir, sem fylgst höfðu með umr. á þinginu þegar lögin um Framkvæmdastofnun voru samþykkt, áttu von á því, að Sjálfstfl. beitti sér fyrir að stofnuninni yrði mjög verulega breytt eða áhrif hennar takmörkuð, a.m.k. yrði það ákvæði fellt úr lögunum að framkvæmdastjórar stofnunarinnar skyldu ráðnir — ég leyfi mér að segja: pólitískri ráðningu, þeir skyldu ekki vera starfandi stjórnmálamenn, en Sjálfstfl. hafði harðlega gagnrýnt það stjórnunarfyrirkomulag ásamt okkur. Þannig vildi hins vegar til, að sá Sjálfstfl., sem kominn var í ríkisstj. eftir kosningarnar 1974, virtist vera orðinn allt annar Sjálfstfl. en sat í stjórnarandstöðu kjörtímabilið þar á undan, vegna þess að þó að Sjálfstfl. féllist á þá afstöðu okkar Alþfl.-manna, sem ég held að þeir sjálfstæðismenn hafi verið sammála um, að hagrannsóknadeild ætti ekki að vera undir forsjá aðila kjörinna af hinu pólitíska valdi, og breyttu lögunum í þá átt að hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar skyldi verða sjálfstæð stofnun undir heitinu Þjóðhagsstofnun, þá féllust sjálfstæðismenn hins vegar ekki á að „kommissara“-kerfið skyldi afnumið verða.

Ég vildi einungis láta það koma fram, að við Alþfl.menn ætlum að hegða okkur með sama hætti í þessu máli innan ríkisstj. eftir síðustu kosningar og við hegðuðum okkur í stjórnarandstöðu á síðustu tveimur kjörtímabilum. Það er alger krafa af okkar hálfu við þá endurskoðun, sem fer fram á lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins, að „kommissara“-kerfið verði afnumið.