19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál gerði ég ítarlega grein fyrir málinu og afstöðu minni til þess. Ég gerði þá grein fyrir því, að ég væri að flytja mál sem ég teldi vera flutt að ósk bændasamtakanna, enda hafði þetta mál verið tvívegis rætt á fundi Stéttarsambands bænda og 6 af þeim 7, sem sátu í svokallaðri sjömannanefnd, voru fulltrúar bænda. Ég gerði grein fyrir þessu — ekki til þess að komast undan neinni ábyrgð á að flytja málið að sjálfsögðu, heldur fyrst og fremst til þess að leggja áherslu á að ég taldi mér af þessum ástæðum ekki fært að gera veigamiklar breytingar á till. sjömannanefndar. Reyndar hefur verið aðeins gagnrýnt að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á till. sjömannanefndar. Segja má að ein efnisbreyting væri gerð. Hún var sú að fella niður heimild til þess að endurgreiða að hluta fóðurbætisgjald eða toll til framleiðenda nautgripa- og sauðfjárafurða. Þessi heimild var felld niður af því að ekki náðist samstaða um að takmarka þessa endurgreiðslu eingöngu við þessar afurðir. Að sjálfsögðu nota ýmsir aðrir fóðurbæti til framleiðslu sinnar á landbúnaðarafurðum. Ég gat þess hins vegar í framsögu að af minni hálfu kæmi vel til greina að setja þessa heimild að nýju inn í frv. Og þá að hafa hana jafnvel víðtækari.

Sjálfur hugleiddi ég í upphafi ýmsar aðrar leiðir, sem kæmu til greina í þessu máli, en kaus, eins og ég sagði, að flytja málið eins og það kom frá bændasamtökunum. Ég lagði jafnframt á það áherslu, að í mínum huga væru fáein atriði sem væru höfuðatriði, áhersluatriði í þessu máli. Skoðun mín var sú og er sú, að veita eigi samtökum bænda víðtækar heimildir til að þróa landbúnaðarframleiðsluna í þá átt sem æskilegt er, m. ö. o. að fela eigi samtökum bænda að gera slíkar ráðstafanir. Að sjálfsögðu hlýtur Alþ. hins vegar að setja þau markmið sem að ber að stefna, og ég hef áður greint frá því úr þessum ræðustól að slík markmiðasetning er í undirbúningi og verður lögð fyrir Alþ. nú eftir örfáa daga.

Í öðru lagi lagði ég áherslu á að þær aðgerðir, sem Framleiðsluráði yrði heimilt að grípa til, ættu að mínu mati að draga fyrst og fremst úr framleiðslu stóru búanna. Ég gerði grein fyrir því, að þetta teldi ég höfuðatriði, m. a. og ekki síst vegna byggðasjónarmiða sem ekki verður gætt með því að draga framleiðsluna saman á fárra hendur.

Í þriðja lagi lagði ég áherslu á að máli þessu yrði hraðað eins og frekast er unnt, þannig að þær aðgerðir, sem hér er um að ræða, gætu haft nokkur áhrif til að draga úr þeim vanda sem nú blasir við bændastéttinni. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, m. a. hjá hv. 1. þm. Austurl. og ég lagði reyndar áherslu á í minni upphaflegu ræðu um þetta mál, að hér er raunar eingöngu um það að ræða að leggja verðjöfnunargjald á landbúnaðarafurðir á annan máta en heimild er til í lögum nú, eða það var hugmyndin með upphaflega frv. Ég kem að því síðar, að ýmsar þær till., sem nú eru uppi, miða ekki að þessu, þó þær geti verið góðra gjalda verðar til að breyta þeirri þróun sem verið hefur á landbúnaðarframleiðslunni.

Heimild er nú eingöngu til þess að leggja jafnt gjald á, þ. e. a. s. hvert kg kjöts og innvegið magn mjólkur, og gera þar engan mun á framleiðendum eftir stærð eða öðru. Hugmyndin var að þarna mætti ná saman fjármagni, eins og nú er gert með verðjöfnunargjaldi, og útdeila því síðan á milli sömu aðila sem verða fyrir, ef svo má segja, barðinu á mismunandi útsöluverði, þ. e. a. s. til útflutnings annars vegar og sölu á innanlandsmarkaði hins vegar. Þetta var raunar megintilgangur frv., þó jafnframt, eins og ég sagði í upphafi, væri vonast til að þessar aðgerðir yrðu til þess að minnka vandann og draga úr honum þegar fram í sækti.

Menn verða að gera sér grein fyrir því, hvers vegna verið er að leggja þetta gjald á. Þær sölustofnanir, sem selja allar sínar afurðir innanlands, fá þegar í hendurnar fullt innlent verð fyrir afurðirnar og geta síðan deilt því aftur út á meðal þeirra bænda sem við þær skipta. Aðrar stofnanir kunna að selja mikinn meiri hluta af afurðum sínum erlendis og fá þá að sjálfsögðu ekki nema útflutningsverðið og þá útflutningsbætur eingöngu á það sem þær hrökkva til að brúa.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um upphaflega frv. Ég kem e. t. v. að vissum þáttum þess síðar.

Ég þakka í fyrsta lagi landbn. fyrir mikið starf. Hún tók rösklega á þessu máli. Að vísu harmaði ég að ekki var unnt að fá frv. samþykkt strax, en ég skil mætavel að þegar um svo viðamikið og umdeilt mál er að ræða teldi n. skylt að athuga það vandlega, og það hefur hún sannarlega gert og fengið margar umsagnir. N. flytur nú ýmsar brtt. við frv. sem ég vil aðeins fara yfir með örfáum orðum.

Í fyrsta lagi fellir hún niður 1. gr. frv. á þeirri forsendu að efni hennar eigi fremur heima í almennri endurskoðun framleiðsluráðslaganna. Ég get fallist á þetta atriði, þetta er alveg rétt. Hins vegar var hugmyndin með því að flytja L gr. einmitt sú sem felst í brtt. um ákvæði til bráðabirgða hjá hv. 1. þm. Austurl., að koma Framleiðsluráði meira en nú er inn í þau vinnubrögð sem upp verður náttúrlega að taka, þ. e. a. s. Framleiðsluráð verður í vaxandi mæli að vinna með framtíðarsjónarmið fyrir framleiðsluna í huga, tengjast áætlunargerð og þess háttar sem undirbúningur þarf og er reyndar hafinn að. En vonandi er ekki langt í að heildarendurskoðunin fari fram, svo að ég geri engar aths. við þær breytingar sem n. hefur gert af þessari ástæðu.

Í meginefniskafla frv., sem er 2. gr. þess, gerir n. nokkrar breytingar. Í a-lið er m. a. tekið fram í sambandi við greiðslu mismunandi verðs á búvöru til framleiðenda, að heimilt verði að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er. Þetta er að sjálfsögðu mjög hörkuleg leið í raun og veru, ef henni er beitt til hins ýtrasta. Ef framleiðendur fá eingöngu greitt fyrir það sem fæst fyrir smjör á erlendum markaði, fá þeir hvergi nærri greiddan framleiðslukostnað, en að sjálfsögðu er hér átt við meðalverð. Þetta meðalverð yrði nokkuð lágt ef t. d. smjörið yrði allt selt úr landi. Og þetta hefur einnig tvo annmarka í mínum huga: Í fyrsta lagi þann, að með þessu móti safnast að sjálfsögðu ekkert fjármagn til að miðla á milli söluaðila sem fá mismunandi verð fyrir framleiðslu sína, eins og ég lýsti áðan og er grundvallaratriði í þessu sambandi. Og í öðru lagi verður tvímælalaust erfitt að gera upp útflutningsverðið á umframframleiðslunni fyrr en að nokkrum tíma liðnum, jafnvel eftir að framleiðsluárið er liðið. Aftur á móti þarf að greiða lán, sem á hvíla, um leið og selt er. Þar er því um framkvæmdaatriði að ræða. Að sjálfsögðu verður þessi leið vandlega athuguð. Hún er, eins og ég sagði, ákveðnari að því marki að draga úr framleiðslunni, en hefur að mínu mati þessa tvo annmarka.

Í b-lið er aftur á móti tekið upp mjög ákveðið, að ekki skuli lagt gjald eða almennur tollur á fóðurbæti, eins og ráð var gert fyrir í upphafi, heldur verði skömmtun þar sem ákveðið magn á hvern grip verði gjaldlaust eða skattlaust, en aftur á móti væntanlega allhátt á það sem umfram er. Ég viðurkenni einnig að þetta er ákveðnari leið að því marki að draga úr umframframleiðslunni, með því t. d. að setja verulega hátt gjald á það magn sem umfram skömmtun yrði. Í þessu sambandi má hafa í huga, að í sambandi við mjólkurframleiðsluna mundi verulega draga úr þeim vanda, sem nú blasir við, ef draga mætti úr fóðurbætisgjöf um u. þ. b. 10 þús. lestir. Hann yrði þá lítill, ef dregið yrði svo mjög úr fóðurbætisgjöf, en fóðurbætisgjöf í sambandi við mjólkurframleiðsluna mun vera um 30–40 þús. lestir, og að sjálfsögðu mætti með þessari leið jafnvel ná því. Og þegar menn segja að þetta frv. hafi lítil eða engin áhrif á vandann sem nú er í ár, þá vil ég þó benda á þetta, að með því að draga nú strax úr fóðurbætisgjöfinni svo gróflega eins og ég hef nú nefnt og er ekkert að leggja til út af fyrir sig, þá minnkar vandinn, sem við blasir í ár, að sjálfsögðu. En því minni áhrif hefur þetta, því síðar sem til framkvæmda kemur.

Þar kem ég að því sem ég óttast mest í sambandi við þessa leið. Ég óttast að það taki alllangan tíma að koma henni í framkvæmd. Það þarf að afla mikilla upplýsinga um bústofn, ákveða að sjálfsögðu fóðurbætisskömmtun, ná samkomulagi við skattstjóra og fleira. Reyndar er mikil spurning — ég hygg reyndar engin spurning, að skattstjórar mega ekki gefa upp það sem hér er sagt. Ég hugsa að það þurfi sérstaka heimild til þess að skattstjórar megi gefa það upp sem þeim er ætlað hér, þ. e. a. s. bústærð, þannig að ég er ragur við þessa framkvæmd og sérstaklega að hún muni koma miklu seinna til framkvæmda en fóðurbætistollur sem mætti endurgreiða. Honum væri unnt að skella á strax. Heimild er til þess m. a. í almennri löggjöf og í samningum við Efnahagsbandalagið að leggja á slíkan toll. Fóðurbætir er nú niðurgreiddur verulega í Efnahagsbandalagslöndunum, líklega um 26.5%, þannig að heimilt mun vera samkv. þeim samningum, sem við höfum gert við bandalagið, að vega þar gegn með innlendum tolli. En hér er sem sagt ákveðin önnur leið, og ég aðeins vek athygli á því, að hún mun verða miklu erfiðari í framkvæmd og taka lengri tíma að skipuleggja hana. Ég verð því að segja það, að ég harma að ekki skuli enn vera í frv. heimild til að fara leið fóðurbætistollsins og fá endurgreiðslu, jafnvel þótt það væri til bráðabirgða, meðan verið er að koma þessu á. Vil ég biðja hv. landbn. að hugleiða hvort einhver slík heimild kæmi til greina.

Ég ætla að öðru leyti ekki að gera aths. við nál. Ég er ekki með þessum orðum mínum að leggjast gegn neinu sem þar er. Reynt verður að sjálfsögðu að framkvæma það sem Alþ. ákveður í þessum málum og eins fljótt og frekast er unnt. Ég vek aðeins athygli á þessum annmörkum sem ég tel mig hafa séð í þeim brtt. sem hér hafa komið fram.

Við þetta nál. hafa komið fram brtt. frá hv. þm. Pálma Jónssyni og Eggert Haukdal sem hv. fyrri flm. hefur lýst hér. Að sumu leyti er þar nánast um aðra uppsetningu að ræða, eins og hann sagði sjálfur, orðalagsbreytingar og þess háttar. Þó eru þar veigamiklar efnisbreytingar einnig, en þó eru þær ekki til að takmarka þær heimildir sem Framleiðsluráð mundi hafa samkv. till. n., heldur er þar um viðbætur að ræða. Ég vil segja það strax, að ég hef ekkert við það að athuga að heimildirnar verði sem víðtækastar, og ég fagna því að þar er ekki reynt að draga úr slíkum heimildum.

Í 1. lið 2. liðar er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn allt að ákveðnu marki, en án tillits til framleiðslumagns þar fyrir ofan.“ Þetta er athyglisverð leið, ekki til að jafna milli útflytjenda og þeirra sem selja á innanlandsmarkaði, því að hún aflar engra tekna til slíks, heldur mjög athyglisverð leið til að bremsa þá þróun sem hefur verið hjá okkur, snúa henni við. Þarna er enn einu sinni verið að slá saman þessum tveimur markmiðum sem ég út af fyrir sig hef ekkert við að athuga, en er þó þegar búinn að vekja athygli á því, að það var raunar markmiðið að jafna öðruvísi á milli og var höfuðtilgangur frv. eins og það upphaflega var lagt fram. Þessi leið hefur verið athuguð miðað við mismunandi kosti: Að greiða 25% af niðurgreiðslum beint til bænda á þær afurðir sem nú eru greiddar niður upp að 500 ærgilda búi. Í öðru lagi að greiða 31% upp að 400 ærgilda búi. Í þriðja lagi að greiða 50% af niðurgreiðslum upp að 500 ærgilda búi. Og í fjórða lagi að greiða 60% upp að 400 ærgilda búi. Þegar farið er í gegnum þessi dæmi kemur í ljós, að vöntun í lokin, sem er núna nálægt 5 milljörðum, verður ákaflega svipuð. Það breytist dálítið á milli þessara dæma, allt frá 4.4 milljörðum í fjórða dæmi sem ég nefndi og upp í 5.1 milljarð í öðru dæminu. En það, sem þarna kemur að sjálfsögðu fram, er að byrðin á búin með yfir 500 ærgildi eða 400 ærgildi verður gífurleg og ég vil segja nánast þýðir að segja þeim að loka. Ef menn vilja það, þá er þetta sannarlega leið til þess. T. d. kemur í ljós ef 25% eru greidd beint til bænda upp að 500 ærgildum, að þá skiptist vöntunin þannig, að 2.8 milljarðar koma á alla bændur, sem sagt rúmlega 4000 bændur, en 2.1 milljarður kemur á þá sem eru með yfir 500 ærgildi, eða um það bil 1000 bændur, til viðbótar við það sem kemur á alla, þannig að byrði þeirra verður samtals líklega um 2.7–2.8 milljarðar. Það er ákaflega mikil byrði, og þarna er því um mjög harða aðgerð að ræða til þess að neyða stóru búin til að minnka, ef ekki að loka.

Eins og ég hef sagt áður, ef menn eru með svo harkalegum aðgerðum, þá er ég ekkert á móti því að þessi heimild verði sett inn í frv., þó að ég hefði heldur talið hana einhvers staðar neðar í þessari röð fjögurra leiða sem hér eru raktar, m. a. af þessu, sem ég hef nú nefnt, og einnig og ekki síður af hinu, að hún skapar ekkert fjármagn til miðlunar á milli þeirra, sem flytja úr landi, og hinna, sem selja innanlands, sem eins og ég hef margundirstrikað var megintilgangur þessa frv., sem sagt að finna aðrar leiðir til að ná slíku fjármagni, en þó til að sporna gegn.

Um aðrar leiðir í 2. lið þarf ég ekki að ræða. Það er efnislega það sama sem um er að ræða í frv. og till. n. Í till. þeirra hv. tvímenninga er hins vegar felldur niður liður um að jafna flutningskostnað á fóðurbæti. Ég tel ákaflega mikilvægt að jafna flutningskostnað á fóðurbæti, m. a. vegna þess að hugmyndir um byggingu graskögglaverksmiðju á Norðurlandi hefur verið frestað um sinn, á meðan þetta er allt í athugun, og ég tel sanngirnismál að fóðurbætir sé á sama verði um land allt, enda eru aðrir hlutir hjá landbúnaðinum mjög jafnaðir. Hitt er svo annað mál, að eins og frv. er orðið, bæði nál. og þessar till. þeirra hv. þm., þá er nánast ekkert fjármagn aflögu til að setja í þetta, því að það er enginn skattur lagður á fóðurbæti sem um munar. Það kemur skattur á það sem umfram er skömmtunina, og grunur minn er að það verði eitt út af fyrir sig ekki talið nægilegt til þess að muni verulega um það til þess að jafna á milli útflytjenda og þeirra sem selja innanlands. Ég geri út af fyrir sig ekki aths. við þetta, en ég vil lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því, að slík heimild fáist eftir öðrum leiðum.

Hins vegar vil ég segja það um ákvæði til bráðabirgða, að ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni og einnig hjá hv. 1. þm. Austurl., að að sjálfsögðu er það hinn stóri vandi bændastéttarinnar, sem bændur standa frammi fyrir í dag, að tekjur þeirra munu skerðast um títtnefndar 1.2 eða 1.3 millj. að meðaltali ef ekki fæst neitt þar á móti. Og ég tek undir það af heilum hug, að ekki kemur til mála að ein stétt sé látin bera slíkar byrðar. Hér er lagt til í ákvæðum til bráðabirgða að heimila greiðslu nauðsynlegs fjármagns úr ríkissjóði til að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvöru. Þetta er náttúrlega mjög óljóst orðað. Auðveldast er að selja þessa búvöru á sem lægstu verði, þá selst hún strax. En ég hygg að hér muni vera átt við að selja þannig að bændur fari skaðlaust út úr því. Það hygg ég vera þó að ég fái ekki lesið það beinlínis út úr greininni eins og hún er orðuð. Ef svo er, þá vantar um 5 milljarða, og ég verð að óska eftir því af hv. flm. að þeir bæti hér við till. um hvernig þessara 5 milljarða skuli aflað. Ég held að við verðum að horfa á þá hlið málsins einnig.

Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég hef ekki treyst mér til þess að flytja till. um nýja skatta á þjóðina til þess að afla þessara 5 milljarða. Ég hef ekki talið hljómgrunn fyrir því að afla slíkra tekna. Þetta verður að fylgja, og ég leyfi mér að spyrja hv, flm. að nýju: Hvernig hugsa þeir sér að afla þessa fjármagns?

Ég hef talið að þennan vanda verði að leysa í tengslum við aðrar ráðstafanir í þágu landbúnaðarins. Ég veit að hv. þm. er kunnugt um það, og reyndar hef ég sýnt það frv. í þeirri samráðsnefnd sem hér hefur verið nefnd, að verið er að ganga frá frv. um breytingu á framleiðsluráðslöggjöfinni. Ég geri mér vonir um að hv. Alþ. fallist á að veita á fjárl. næstu 5 árin upphæð, sem haldi verðgildi sínu frá því sem nú er, til jarðræktarframkvæmda, en veiti jafnframt þá heimild, að það, sem ekki er notað í jarðræktarskyni, verði notað í aðra þágu landbúnaðarins. Ég geri mér vonir um að nokkur hundruð milljónir náist þannig árlega sem ráðstafa megi til þess að hjálpa bændastéttinni að komast yfir þessa erfiðleika, m. a. megi ráðstafa slíku til að koma á fót nýjum greinum og jafnvel beinlínis til þess að hlaupa undir bagga í sambandi við þann útflutning sem umfram verður.

Þetta frv. er nú í síðustu athugun hjá landbrn. eftir brtt. sem Búnaðarþing gerði við það, og ég vænti þess, að það verði lagt fram eftir næstu helgi. Þarna eygi ég því nokkurt fjármagn sem á megi vísa í sambandi við þennan vanda.

Í öðru lagi geri ég ráð fyrir því í þeirri þáltill., sem einnig verður lögð fram eftir næstu helgi, að ráðstafa megi útflutningsbótum fyrir fram, ef ég má orða það svo, þ. e. a. s. fara yfir það sem lög leyfa núna, enda sparist það á seinni hluta 5 ára áætlanatímabils. Þarna er einnig um nokkra von í fjármagni að ræða. Ég hef litið svo á að hv. Alþ. vildi sjá einhverja slíka viðleitni áður en það gæfi hæstv. ríkisstj. heimild til að greiða slíkar upphæðir sem hér er um að ræða.

Ég hef jafnframt talið eitt mikilvægasta atriði fyrir landbúnaðinn nú að fá sem allra fyrst beina samninga á milli ríkisvalds og bænda. Því hef ég lagt á það áherslu eins og ég hef getað við framleiðsluráðslaganefnd, að hún skili af sér sem fyrst. Það hefur því miður dregist, en nú er álit hennar komið fram og hefur verið mikið rætt nú síðustu vikurnar. Á því þarf að öllum líkindum að gera einhverjar breytingar. Þarna er um viðamikið og flókið mál að ræða. En a. m. k. það atriði að koma á beinum samningum milli bænda og ríkisvalds verður að fara í gegn á þessu þingi alveg tvímælalaust að mínu mati. Ég hef litið svo á að inn í þá samninga þegar í upphafi kæmi einmitt þessi vandi, því að menn verða líka að athuga að þessi vandi er ekki eingöngu bundinn við árið 1979. Það verður umframframleiðsla 1980 og tekur tíma að ná henni niður, þannig að þetta hlýtur að falla inn í meðhöndlun þessarar stofnunar eða nefndar, kjaranefndar — getum við kallað það — bænda og ríkisvaldsins sem þarf að taka til starfa sem allra fyrst. Ég hef því gert mér vonir um að á þessu þingi verði unnt að marka stefnuna, ekki aðeins í málefnum landbúnaðarins til lengri tíma, þ. e. a. s. hvernig áætlun skuli gerð, að hvaða markmiðum skuli stefnt, heldur einnig hvernig megi leysa sem mestan hluta af þeim stóra vanda sem blasir við bændastéttinni í dag. Ég hef að vísu ekki gert mér vonir um að takast megi að ná saman öllum þeim 5 milljörðum sem vantar til að brúa útflutningsbótabilið. Ég hef ekki gert mér vonir um það og vil láta það koma fram hér. En ég hef gert mér vonir um að verulegur hluti þess náist einmitt með slíkri stefnumörkun. Þess vegna hef ég ekki talið tímabært að leggja fram till. um þetta á þessu stigi málsins.

Að lokum vil ég segja nokkur orð um þá brtt. sem hv. 1 þm. Austurl. flytur. Ég get sagt það í upphafi, að efni hennar er ég mjög sammála og tel mig reyndar hafa verið að vinna að þessu sleitulaust frá því að ég kom í landbrh. starfið. Skal ég gera grein fyrir örfáum atriðum þótt þar kunni að verða um einhverja endurtekningu að ræða.

Í því skyni að koma á öruggu sambandi við samtök bænda fékk ég heimild til þess í ríkisstj. strax að ráða sérstakan ráðunaut um stefnumörkun í landbúnaði. Sá maður hefur síðan verið, að ég hygg, daglega á fundum með hinum ýmsu samtökum bænda, í fyrsta lagi hjá Stéttarsambandi, Framleiðsluráði, Búnaðarfélagi o. s. frv. Og reyndar hefur ekkert atriði, sem lagt hefur verið til eða nú er í undirbúningi, ekki verið þaulrætt á milli þessara aðila. Auk þess hef ég sjálfur átt ótal fundi með ýmsum fulltrúum bændasamtakanna. Staðreyndin er vitanlega sú, að inn í þessi mál verða að koma ýmsar stofnanir bænda, ekki bara Stéttarsambandið, heldur líka Búnaðarfélagið og reyndar fleiri.

Í öðru lagi var til þess ætlast með 1. gr. frv., sem felld hefur verið út í till. landbn., að fyrsta skrefið væri stigið einmitt í þá átt sem rakið er í ákvæði til bráðabirgða, að vísu hvað viðkemur Framleiðsluráðinu, þ. e. a. s. Framleiðsluráðinu yrði beint inn á slíka stefnumarkandi starfsemi, t. d. í áætlanagerð, en um áætlanagerð liggja fyrir till. frá sjömannanefnd sem eru sumar hverjar að komast til framkvæmda. T. d. er nú verið að undirbúa hvernig meta megi búskaparaðstöðu, og hefur verið unnið að því af fyrrnefndum aðstoðarmanni ásamt fulltrúum bændasamtakanna. Þarna er um mjög viðamikið mál að ræða. Hugmynd okkar er að fela ráðunautum Búnaðarfélags Íslands að annast slíka úttekt eftir mjög ákveðinni forskrift sem verið er að undirbúa.

Ég nefni þá einnig þáltill. þá sem ég hef áður nefnt, þar sem farið verður fram á að Alþ. ákveði meginstefnumarkmið sem leggja verður til grundvallar. Við getum kannske gefið okkur slík markmið, en mér þykir eðlilegra að Alþ. ákveði hvert skuli vera framleiðslu- og tekjumarkmið landbúnaðarins, sem ég hef iðulega nefnt, þannig að þau lægju fyrir í beinum samningum bænda og ríkisvaldsins um þessi mál öll í heild sinni. Einnig mun í þeirri þáltill. farið fram á að ákveðið verði hvaða leiðir Alþ. heimili til að ná þessum markmiðum. Ég hef nefnt t. d. fyrirframgreiðslu á útflutningsbótum, sem er ákaflega stórt atriði. Þá hef ég nefnt jarðræktarlögin. Í samráði og eftir marga fundi með fulltrúum Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands var það mál lagt fyrir Búnaðarþing. Ég hef einnig nefnt framleiðsluráðslögin, þar sem fulltrúar bændasamtakanna hafa að sjálfsögðu verið ákveðnir og virkir aðilar, bæði í n. og eftir það. Þá hafa að tillögum, sem komið hafa m. a. frá sjömannanefnd, verið settar á fót nefndir, t. d. nefnd til að athuga hvort og þá hvernig innleiða eigi nýjar búgreinar hér. Refarækt er sérstaklega nefnd í því sambandi. Þótt ég geti ekki talað fyrir munn nefndarinnar hér geri ég mér vonir um að hún muni leggja fram vel undirbúnar tillögur um að nokkur slík bú verði sett á fót, skipulega og vandlega undirbúin í tengslum við fóðuröflun og skinnaverkun, hér á landi á næsta ári eða sem allra fyrst. Þá hef ég sett menn í að skoða hvernig hrossarækt megi verða að öflugri búgrein hjá bændum o. s. frv. Ég gæti reyndar nefnt þarna fleiri þætti sem allir hafa komið upp einmitt í þessu samstarfi og samráði við bændasamtökin. Þá hefur einnig verið talað um að athuga hvert er mikilvægi sauðfjárræktar fyrir þjóðarbúskapinn, láta sérfræðinga fara í að meta það. Eins konar forskoðun á því fór fram. Þetta er ekki einfalt mál. Þarna þarf að gefa sér vissa hluti, t. d. ákveðna vinnslu þeirra afurða sem um er að ræða, skinna og ullar, og þá meiri vinnslu en nú er og að sjálfsögðu er að því stefnt.

Ég vil segja það við hv. 1. þm. Austurl., að þó að ég líti svo á að allt það, sem talið er í hans 7 liðum, sé í virkri athugun og undirbúningi og muni koma í vaxandi mæli hér fram, þá er ég fús til þess, ef hann leggur á það áherslu, að biðja bændasamtökin að tilnefna formlega menn í slíkar viðræður. Ég skal ekki segja hve margir þeir þyrftu að vera, en þeir þyrftu að vera frá fleiri en einni stofnun bændasamtakanna. Ég skal með ánægju gera það.

Ég vil aðeins, af því að hv. þm. kom inn á það að draga úr niðurgreiðslum, segja það, að ég verð að viðurkenna að í grg. með frv. um stjórn efnahagsmála og fleira kemur fram, að því er mér sýnist, ákaflega vafasöm setning, vægast sagt, og ég skal fúslega viðurkenna að ég las hana aldrei eins og hv. þm. gerði. Þar er talað um að draga á ári úr niðurgreiðslum að meðaltali um 6 milljarða. En síðan segir að þetta skuli gera á þremur árum. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þarna sé átt við það, að á þremur árum þurfi að draga úr niðurgreiðslunum til að ná þeim markmiðum sem frvgr. gerir ráð fyrir, enda sjá menn að niðurgreiðslur eru nú á fjárl. um 18.6 milljarðar og með þessu móti yrðu niðurgreiðslur engar að þremur árum liðnum, ef svona væri að farið. (Gripið fram í.) Þrisvar sinnum sex eru átján. (LJós: Þarna stendur 6 milljarða á ári.) Ef eru teknir 6 milljarðar á ári, þá er eftir 3 ár ekkert eftir. Ég held, að þetta liggi alveg ljóst fyrir, að þarna er að sjálfsögðu um misskilning að ræða.

Hitt er svo annað mál, að margir aðilar, m. a. bændur, hafa hvað eftir annað vakið athygli á þeirri hættu sem fylgir því þegar niðurgreiðslur eru orðnar mjög miklar. Miklum niðurgreiðslum hefur ávallt fylgt að kippt hefur verið rösklega í spottann og þær minnkaðar og þá mjög snöggt, og þetta hefur valdið sveiflu í sölu landbúnaðarafurða sem hefur verið ákaflega skaðleg fyrir bændastéttina og framleiðsluna í heild sinni. Slíkt hefur gjarnan dregið snögglega úr neyslunni, sem hefur svo ekki náðst upp aftur þegar niðurgreiðslur hafa verið auknar. Þess vegna held ég, að að því sé fengur fyrir bændastéttina að binda niðurgreiðslur í eðlilegu hlutfalli. Þarna á ég fyrst og fremst við framleiðslu eins og mjólk, kjöt og kartöflur, þ. e. a. s. frumframleiðslu. Erfiðara er að sjálfsögðu um vik í þeirri framleiðslu þar sem framleiðslukostnaðurinn er miklu meiri, eins og t. d. smjör. Er í grg. slegið fram ákveðinni hugmynd um það, sem ég segi fyrir mitt leyti að þarf að ræða vandlega. Hitt er svo annað mál, að það gildir einnig fyrir slíka framleiðslu að miklar sveiflur eru varasamar. T. d. sýna athuganir að við þær sveiflur, sem orðið hafa á niðurgreiðslum á smjöri, hefur ávallt markvisst dregið úr neyslu smjörsins þegar niðurgreiðslur hafa verið mikið minnkaðar, og það hefur ekki náðst upp þegar niðurgreiðslur hafa verið auknar að nýju. Það hefur breytt neysluvenjum mjög til hins verra fyrir landbúnaðarframleiðsluna.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. að ráði. En ég vil leggja á það áherslu, sem ég hef hvað eftir annað gert, að í þessum miklu vandamálum heillar, stórrar stéttar er ákaflega nauðsynlegt að sem víðtækust samstaða náist um þær aðgerðir, sem heimilaðar eru. Hér er um að ræða fyrst og fremst aðgerðir til að dreifa byrðunum á bændur, þar sem er verðjöfnunargjald, eins og hv. 1. þm. Austurl. hefur sagt og ég hef lagt áherslu á, þó inn í þetta hafi spunnist ýmsar aðgerðir til að snúa þróuninni við. Þetta eru allt mjög viðkvæm mál, og því legg ég ríka áherslu á að samstaða megi nást. Í því skyni hef ég beðið þingflokkana að tilnefna menn í viðræðunefnd um landbúnaðarmálin. Ég tek undir það með hv. þm. Pálma Jónssyni, að ég hef ekki gert ráð fyrir því að sú n. út af fyrir sig fari að afgreiða mál eða komi með ákveðin frv. eða þess háttar. Ég hygg að hv. þm. hafi lýst hér áðan réttilega hlutverki þeirrar n. Ég veit líka að hv. frsm. meiri hl. landbn. gerði sér fulla grein fyrir hvert hlutverk þessarar n. er, þannig að ég held að þarna sé um engan misskilning að ræða. En í þeirri von að hv. landbn. og hv. Alþ. nái samstöðu um þetta mál vil ég leyfa mér að fara fram á að hv. flm. þeirra till., sem hér liggja fyrir til breytinga, dragi þær til baka til 3. umr. og taki boði hv. frsm. n. um fund á milli umr. Ég leyfi mér að gera það að mínum lokaorðum.