20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3404 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

338. mál, brennsla svartolíu í fiskiskipum

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 257 á ég fsp., sem ég beini til hæstv. sjútvrh. um brennslu á svartolíu í fiskiskipum og hljóðar svo:

„Hvaða reynsla hefur fengist af tilraunum með brennslu svartolíu í íslenskum fiskiskipum?“

Það þarf ekki að halda langa framsöguræðu með þessari fsp. Undanfarin ár hefur í nokkrum skipum íslenska fiskiskipaflotans verið reynd brennsla á svartolíu. Að vísu á sú svartolía ekkert sameiginlegt með annarri svartolíu nema nafnið, þar sem hún er allt annarrar gerðar en hin eina og sanna svartolía. Í sambandi við þetta hefur verið upplýst í umr. hér á hinu háa Alþ., að það er óþekkt fyrirbrigði í öðrum löndum að menn brenni svartolíu í fiskiskipum. Og enda þótt hin rússneska svartolía sé allt annarrar gerðar en Amsterdam- eða Curacao-svartolía, þá inniheldur hún samt mjög varhugaverð efni sem reynsla er fyrir að valdið hafa skemmdum á vélum. Þetta á sérstaklega við um fiskiskip, vélar sem eru knúnar með mjög misjöfnu álagi, með misjöfnum gangi. Hins vegar hefur fengist reynsla af og er tíðkuð brennsla á svartolíu — og þá af allra svörtustu gerð — í farskipum sem byggð eru þungum vélum hæggengum, sem ganga með jöfnu miklu álagi langtímum saman.

Nú er það svo hins vegar, að eins og þróun á olíuverði hefur verið virðist svo komið málum að útvegsmenn neyðist til að taka þessa olíu í notkun og því er það, að nú er tími og ástæða til þess að spyrja um þá reynslu, sem fengist hefur af þessum tilraunum í hinum 10–12 togurum af minni gerð í landinu, og enn fremur væri ástæða til þess að gera fsp. um, hvort einhver frekari áform eru uppi varðandi brennslu olíunnar um tæknibúnað og annað þess háttar, en í því efni hefur menn mjög greint á, að hin íslenska útfærsla á málinu væri ekki nægjanleg. En sem sagt, hér er um þetta spurt og vænti ég svars hæstv. ráðh.