20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fsp, hv. þm. Alexanders Stefánssonar var send póst- og símamálastjórn til umsagnar og hefur borist svofellt svar:

„Stofnunin heldur uppi næturþjónustu á Landssímastöðinni í Reykjavík, Borgarnesi, Patreksfirði, Ísafirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri, Vestmannaeyjum og Selfossi eða á 14 stöðvum alls. Nú er á það að líta, að það að tryggja neyðarþjónustu í símamálum og að halda uppi næturþjónustu á landssímastöðvum er ekkí í öllum atriðum sambærilegt. Á flestum framangreindra stöðva er t. d. einungis einn maður, venjulega talsímavörður, á vakt. Hin almenna regla hefur frá upphafi verið sú, að stofnunin auðveldar sveitarfélögum að hagnýta símakerfin til svokallaðra neyðarhringinga utan hins daglega þjónustutíma. Í slíkum tilvikum eru látnar í té aukabjöllur eða næturbjöllur og nauðsynlegur búnaður til næturtengingar á línum notendum að kostnaðarlausu. Viðkomandi oddviti hefur þá samið sérstaklega við hlutaðeigandi símstjóra um að taka að sér að svara neyðarhringingum utan þjónustutíma stöðvarinnar.

Eins og að framan greinir, hefur það ekki verið í verkahring Póst- og símamálastofnunarinnar að halda uppi tryggri neyðarþjónustu og stjórnvöld hafa heldur ekki til þess ætlast. Hins vegar leysir sjálfvirki síminn mörg vandamál í þessu tilliti og þess vegna er hann talinn vera m. a. svo mjög nauðsynlegur.

Að lokum skal á það bent, að sparnaðarráðstafanir stofnunarinnar að undanförnu hafa yfirleitt verið við það miðaðar að símaþjónustutímar, sem ekki eru taldir eiga rétt á sér vegna notkunarleysis, hafa verið lagðir niður. Og enn fremur hafa nokkrar smærri símstöðvar verið lagðar niður og notendur þeirra tengdir til stærri símstöðva með lengri þjónustutíma, eftir því sem símalínur og annar tækjakostur leyfir á hverjum tíma.“

Þetta var umsögn póst- og símamálastjórnar um fsp. hv. þm.

Til viðbótar þessum upplýsingum vil ég að þessu gefna tilefni taka það fram, að ég tel að við verðum á næstu árum að gera stórátak í símamálum landsmanna. Ég held að það eigi að vera öllum ljóst, að núverandi ástand í þessum málum er alls ekki í takt við tímann. Í fyrsta lagi er bersýnilega tímabært að stefna að því, að á fáum árum verði smástöðvar víðs vegar um land lagðar niður og sveitasímarnir verði þar af leiðandi almennt tengdir stórum stöðvum þar sem fyrir hendi er langur þjónustutími og víðast hvar næturvakt eða neyðarvakt. Þessi breyting kostar vissulega nokkurt fé í upphafi, en sparar einnig mikla fjármuni þegar frá liður.

Í öðru lagi þarf bersýnilega að hraða lagningu sjálfvirks síma um land allt. Það verkefni er aftur á móti margfalt kostnaðarmeira en það fyrra sem ég nefndi, en að því marki verður hiklaust að stefna á næstu árum. Ég vil upplýsa af þessu tilefni, að í undirbúningi er gerð áætlunar til nokkurra ára um úrbætur í símamálum, — enda tel ég algerlega óhjákvæmilegt að Alþingi, fjárveitingavaldið, veiti sérstakar fjárveitingar á næstu árum til að ljúka þessu verki.

Fyrirspyrjandi kom hér inn á annað málefni, sem ekki var drepið á í fsp. hans, þ. e. a. s. um nauðsyn þess að símagjöld víðs vegar um land yrðu jöfnuð. Ég tek undir þessi orð hans og hef lengi verið mikill áhugamaður þess, að í þessa átt yrði stefnt, en hef fengið að reyna það síðan ég kom til starfa í samgrn., að hér er við ramman reip að draga vegna þess að vísitala framfærslukostnaðar er Reykjavíkurvísitala og ef reynt er að færa til útgjöld með því að lækka símkostnað hjá dreifbýlisfólki og þar með hækka lítillega símkostnað hjá þéttbýlisfólki, þá kemur þetta fram í hækkun framfærsluvísitölu og því reynist mjög erfitt að taka stór stökk á þessu sviði á skömmum tíma. En vissulega má ná þessu marki í áföngum, og ég tel að það spor, sem stigið var um s. l. mánaðamót, hafi verið mjög afgerandi og mikilvægt spor í rétta átt því að þá var ákveðið að langlínusamtöl í 5. gjaldflokki féllu niður. Sá gjaldflokkur var sameinaður 4. gjaldflokki og hefur það í för með sér verulega útgjaldalækkun fyrir símnotendur, sérstaklega í fjarlægustu byggðum, miðað við Faxaflóasvæðið. Er þá átt við Austfirði, Norðausturland, nokkra staði á Norðurlandi og nyrstu staði á Vestfjörðum. Þessir staðir hafa mátt búa við það að mikill hluti langlínusamtala frá þessum stöðum hefur verið í þessum hæsta gjaldflokki, og í því skyni að fella nú niður þennan gjaldflokk er varið á einu ári 400–500 millj. kr. Breytingin kostar sem sagt ekkert smáræði, og ég tel að þetta sé þó þrátt fyrir allt mikilvægt spor í rétta átt.