20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Síður en svo vil ég fetta fingur út í það þótt þeir þm. Vesturl. einskorði nú tal sitt mjög við ástandið á Snæfellsnesi. Vel er ég fús að fallast á að Snæfellingar sitji fyllilega við sama borð sem aðrir landsmenn hvað varðar neyðarþjónustu Landssímans. En ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að mikið mun skorta á að neyðarþjónusta Landssímans sé fullnægjandi með ströndum fram allt í kringum landið og á það ekki síst við um Norðausturland. Í fyrra norðvestanhvellinum, þegar Húsavíkurbátarnir tveir fórust á leið frá Axarfirði til Húsavíkur í vetur, var svo að það náðist ekki talstöðvarsamband við þá frá Húsavíkurradíói þegar þeir voru undir Tjörnesi austanverðu. Þegar rætt var um þetta mál við yfirstjórn Pósts og síma og vakin athygli á því, að Póstur og sími hefur ekki talstöðvarþjónustu á Kópaskeri og beðið hefur verið um að fá metrabylgjutæki til afnota á Kópaskeri til þess að fylgjast með bátunum, þá hefur verið gefinn kostur á því gegn gjaldi sem nemur 1900 kr. á dag, enda þótt Póstur og sími bjóði ekki þessa þjónustu frá Kópaskeri, þar sem þetta tiltölulega ódýra tæki átti að starfrækja Pósti og síma að kostnaðarlausu.

Nú skeður það í hinum síðara norðvestanhvellinum, þegar bátarnir sluppu undir Bangarstaðavörina og gátu legið þar í skjóli hér um bil sólarhring og ekki skeði stórslys, þá varð að senda snjóbíl frá Húsavík yfir Tjörnes fram á brúnina til þess að hægt væri að hafa talstöðvarsamband við þessa báta. Og enn sem fyrr er því svarað af hálfu yfirstjórnar Pósts og síma, að þetta mál verði að leysa á annan veg sökum kostnaðar. Og þegar boðið var að þeir miðuðu þá leiguna eða afnotagjaldið af metrabylgjustöð við það sem samsvaraði þeim tekjum sem Póstur og sími hefur haft af rækjuveiðibátunum á Öxarfirði að meðaltali undanfarin ár, þá var synjað eigi að síður á þeirri forsendu að þarna væri verið að gefa fordæmi um að menn kæmust fram hjá gjaldskrá.

Það er algerlega óviðunandi, að af stjórnunarlegum eða við skulum segja skriffinnskulegum ástæðum sé ekki séð fyrir sæmilegu neyðartalstöðvarsambandi kringum allt landið. Og enn má bæta einu við þegar talað er um neyðarþjónustu Pósts og síma. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég mun ljúka máli mínu núna á andartaki. Í notkun munu vera á landinu yfir 9000 svokölluð CBS-tæki, þ. e. a. s. örbylgjutæki til notkunar í bílum með mörgum rásum. Landssíminn hefur þrátt fyrir ára baráttu af hálfu samtaka eigenda þessara tækja ekki fengist til þess að koma upp hlustþjónustu við þessi tæki sem dreifð eru um allt land í jafnmörgum bílum og hér greinir frá og eru e. t. v., ef hlustþjónusta fæst við þessi tæki, mesta hjálpartækið, öruggasta neyðarþjónusta sem hægt er að fá. Synjað er af skriffinnskuástæðum að setja upp hlustþjónustu fyrir þessi tæki, enda þótt Landssímanum sé í lófa lagið að innheimta afnotagjöld af þessum tækjum og fá að fullu greiddan kostnað sinn af slíkri þjónustu. Hið sama mundi efalaust og augljóslega gilda um almennilega hlustþjónustu í kringum landið. Ég tel að yfirstjórn Pósts og síma hafi hér alls ekki staðið í stöðu sinni, og ef, herra forseti, það er ekki allt of óþinglega að orði kveðið, að það sé kominn tími til þess að það sé tekið í rassinn á þeim.