20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð vegna orða hv. 9. þm. Reykv., Einars Ágústssonar. Hann minntist á Reykjavíkurvísitölu sem við búum við, og það er einmitt kjarni málsins, að þegar reiknuð eru áhrif breytinga á gjaldskrá Pósts og símá á vísitölu, þá er einungis miðað við þá hækkun sem orðið hefur í Reykjavík, en ekki tekið tillit til þess þó að hlutfallsleg lækkun hafi orðið á öðrum slóðum á landinu á sama tíma. Hæstv. heilbrmrh. hefur nú tekið af mér ómakið að benda á það, að á sama tíma og verið er að jafna símagjöld með þessum hætti og það er reiknað inn í vísitölu, þá er ákvörðun um næturtaxta og þar með um lækkun á gjaldskrá Pósts og síma ekki talin með. Þetta er auðvitað óviðunandi með öllu vegna þess, eins og hér hefur komið fram, að ekki er unnt að koma á sanngjörnum töxtum hjá Pósti og síma meðan núverandi kerfi er fyrir hendi, því að það verður þá svo mögnuð andstaða gegn því að breytingin eigi sér stað að ekki er hægt að ná henni fram.

Ég hafði gert mér vissar vonir um að vísitölunefndin margfræga, sem var að störfum á síðari hluta seinasta árs og fyrri hluta þessa árs, tæki þetta vandamál til nánari yfirvegunar og miðaði við landið allt í sambandi við útgjöld Pósts og síma í sambandi við framfærsluvísitölu og gerði till. um slíka breytingu. Ég ritaði n. bréf og óskaði eftir að þetta mál yrði tekið til sérstakrar athugunar til þess að auðvelda það að unnt væri að framkvæma jöfnun símagjalda. En því miður hef ég ekki orðið var við að þessi n. hafi neitt sinnt þessu erindi.

Hv. þm. Einar Ágústsson hélt því fram, að símagjöld hefðu hækkað óeðlilega mikið á undanförnum árum, og nefndi málinu sínu til stuðnings að orðið hefði 400% hækkun á símagjöldum á sama tíma og miklu minni hækkun hefði orðið hjá annarri opinberri stofnun. Út af fyrir sig má þetta rétt vera, að þannig komi út samanburður á þessum tveimur stofnunum. En það hlýtur þá að eiga sér einhverjar aðrar skýringar en þær, að mikil hækkun hafi orðið hjá Pósti og síma, því að ég hef einmitt nú nýverið athugað hver hafi verið þróunin í símagjöldum á undanförnum árum, seinustu 8 árum, og ég sá það glögglega og ég held að það hafi komið mjög skýrt fram af þeim upplýsingum sem ég hafði í höndum, að símagjöld hafa dregist aftur úr í verðlagsþróuninni á undanförnum árum og þau hafa alls ekki hækkað í eðlilegu hlutfalli við hvort heldur sem er byggingarvísitölu eða framfærsluvísitölu. Því miður hef ég ekki þessi gögn við höndina nú, en ég mun örugglega vera með þessi gögn þegar ég svara fsp. frá hv. þm. um símamál innan tíðar og get þá gefið nánari upplýsingar um málið. Staðreynd er að símagjöld hafa ekki hækkað í neinu eðlilegu hlutfalli við verðbólguþróunina í þjóðfélaginu, og afleiðingin hefur líka orðið sú, að undanfarin tvö ár hefur Póstur og sími verið rekinn með talsverðu tapi og er enn rekinn með tapi, vegna þess að ekki hafa fengist þær hækkanir sem bersýnilega eru óhjákvæmilegar.